Við endum öll „vottuð” í okkar fagi en það er tíminn sem gerir vottunina sýnilega markaðnum þegar fólk, sem aðrir treysta, mælir með okkur. Oft tekur þetta ferli meira en tíu ár og margfeldis-áhrifin koma fram undir lokin.

Atvinnulíf

Andrés Jónsson

Stjórnendaráðgjafi og framkvæmdastjóri Góðra samskipta

Öll eigum við drauma um hvert okkur langar að komast á starfsferlinum. Draumarnir eru kannski óljósir í byrjun og þeir þróast á leiðinni, en við erum flest búin að setja stefnuna á eitthvað og viljum finna stystu leiðina þangað. Þessi metnaður er helsti drifkraftur þess að við bætum við okkur prófgráðum, námskeiðum og því, sem er orðið æ vinsælla, vottunum.

Auknar vinsældir vottana má að hluta til rekja til þess hversu slælega háskólar hafa brugðist við breyttum þörfum vinnumarkaðarins, tilkomu ótal nýrra starfsheita og nýrra leiða til að sýna fram á eigin þekkingu.

Ljósmyndari er enn löggilt starfsheiti á Íslandi. Það kostar samt bara 15.000 krónur að opna vefsíðu þar sem þú getur sýnt fram á getu til að taka fagmannlegar myndir þannig að enginn mun spyrja um prófgráðu þína, hvað þá löggildingarskírteinið. Háskólarnir virðast reyndar flestir komnir á vagninn núna og eru farnir að bjóða vottanir í bland við prófgráður.

Hvað þýðir að fá vottun? Jú, hún er mat sérfræðings á þekkingu þinni og vottun um hana. Gallinn er sá að næstum hver sem er getur selt vottanir og nær undantekningarlaust er nóg að skrá sig – til að hljóta vottunina. Ég gæti hafa verið hafnarverkamaður í gær en í dag er ég vottaður ráðgjafi í skýjavegferð fyrirtækja. Bara af því að einhver gaf út skírteini þess efnis. Staðreyndin er hins vegar sú að vottunin sannfærir fáa um þessa umbreytingu mína. Vottunin virkar aðallega á einn aðila og það er ég sjálf/ur.

Í raunveruleikanum virkar þetta ekki þannig að við getum keypt okkur stöðu á markaðnum þar sem sérfræðiþekking okkar er almennt viðurkennd og þekkt. Við þurfum að sanna okkur. Stærsta hindrunin í að verða eftirsótt sem: ráðgjafar, stjórnarmenn, markþjálfar, stjórnendaþjálfarar eða Microsoft-sérfræðingar – er tíminn sem við höfum sett í fagið og því næst biðtíminn sem það tekur markaðinn að verða upplýstur um hæfileika okkar.

Ég þekki konu í mínu fagi sem hefur mikið til sömu hæfni og ég. Það eina sem aðskilur okkur er að ég hef lifað einum áratug lengur en hún. Reynslan sem hún býr yfir nú þegar dugir til að geta leyst örugglega 95% af þeim verkefnum sem ég fæst við í mínu starfi. Það eru hins vegar tiltölulega fáir sem vita hver hún er og hún fær ekki mörg tilboð eða fyrirspurnir. Það er ekki við neitt að sakast hjá henni sjálfri að hæfileikar hennar eru tímabundið vannýttir af markaðnum. Það er sömuleiðis fátt sem hún getur gert til að hraða því að hún fái fleiri verkefni við hæfi. Nú þarf tíminn að fá að líða og á meðan vex orðsporið. Kúrfan á starfsferlinum er byrjuð að taka beygju upp á við og eftir örfá ár, þegar fólk veit almennt hver hún er, þegar margir hafa hrósað henni og öllum verður ljóst að leitað er til hennar reglulega um að leysa þýðingarmikil verkefni, þá fyrst mun kúrfan á starfsferlinum verða brött og hún mun uppskera flest þau tækifæri sem hana langar í og er tilbúin fyrir.

Við endum öll „vottuð” í okkar fagi en það er tíminn sem gerir vottunina sýnilega markaðnum þegar fólk, sem aðrir treysta, mælir með okkur. Oft tekur þetta ferli meira en tíu ár og margfeldis-áhrifin koma fram undir lokin. Kúrfan í eftirspurninni eftir sérfræðiþekkingu okkar er eins og hokkí-kylfa í laginu. Það eru vissulega til leiðir til að hraða ferlinu en langstærsti áhrifaþátturinn er ávallt tíminn, rétt eins og í fjárfestingum þar sem við þurfum að fá vaxtavextina í gang til að höfuðstóllinn hækki verulega.

Þið þurfið ekki að taka mín orð fyrir þessu. Enda ekki vottaður viðskiptapistlahöfundur. Ef þið hlustið á viðtöl og undanskiljið nokkrar mjög sérhæfðar starfsstéttir þá er algengast að fólk sem náð hefur langt á sínu sviði þakki árangurinn öðru en háskólaárunum, heldur einu af eftirtöldu: sínum eigin meðfæddu hæfileikum, beinni starfsreynslu eða sem er algengast; mikilli þolinmæði og þrautseigju. Sem sagt tíminn.