Bergþór Ólason
Bergþór Ólason
Það er skiljanlegt að flestir horfi á jákvæð umskipti Samfylkingarinnar í útlendingamálum í forundran. Viðtöl, greinar, ræður og atkvæðagreiðslur draga upp mjög ólíka mynd frá þeirri sem formaður Samfylkingarinnar málar nú um stundir

Það er skiljanlegt að flestir horfi á jákvæð umskipti Samfylkingarinnar í útlendingamálum í forundran. Viðtöl, greinar, ræður og atkvæðagreiðslur draga upp mjög ólíka mynd frá þeirri sem formaður Samfylkingarinnar málar nú um stundir. Breyttri afstöðu ber þó að fagna, enda hefur Miðflokkurinn varað við þeirri stöðu sem nú er uppi í útlendingamálum á Íslandi um árabil.

Stóri skaðinn í útlendingamálum hófst í tíð Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þegar hún sem innanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins setti af stað þverpólitíska vinnu undir forystu Óttars Proppé, þingmanns Bjartrar framtíðar, um nýja útlendingalöggjöf. Ólöf heitin Nordal, þá innanríkisráðherra, mælti svo fyrir afrakstri þeirrar vinnu, frumvarpi að nýjum útlendingalögum sem samþykkt voru á Alþingi 16. júní 2016.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, núverandi formaður Miðflokksins, var þá nýstiginn frá sem forsætisráðherra, eða 13 dögum áður en Sjálfstæðisflokkurinn keyrði nýtt útlendingafrumvarp í gegnum þingið – við raðuppklapp vinstri flokkanna sem sáu auðvitað fullnaðarsigur fyrir sína stefnu. Hann hafði fram að því lýst mikilli andstöðu við málið.

Það var svo Sjálfstæðisflokkurinn sem hóf ríkisstjórnarsamstarf með Vinstri grænum 18 mánuðum eftir samþykkt nýrra útlendingalaga og þær breytingar sem þá þegar var ljóst að gera þyrfti á nýju löggjöfinni urðu ómögulegar – enda bara einn flokkur sem hefur ráðið ríkjum þar á bæ, Vinstri grænir.

Nú, þegar komið er í algjört óefni, innviðir nær bresta, því straumur hælisleitenda hingað er slíkur að annað eins þekkist ekki á byggðu bóli Norðurlandanna, þá hyggst ríkisstjórnin hreyfa sig aðeins í málinu. Þó í skiptum fyrir það að íslensk stjórnvöld fari nú og sæki tiltekið fólk á neyðarsvæði sem fengið hefur hér rétt til fjölskyldusameiningar. Hvaða áhrif ætli það hafi þegar það fréttist út í heim, þar sem neyðin er víða mikil og grimm, að íslensk stjórnvöld stýrist með þessum hætti af þaulsætnum aktívistum og háværum sjálfboðaliðum – en ekki lögum, reglum og skynsemi? En þetta er það sem Sjálfstæðisflokkurinn býður landsmönnum upp á – nú á sjöunda ár.

Það verður spennandi að sjá hvort Sjálfstæðisflokkurinn og ríkisstjórnin hafi meirihluta innan sinna raða til að taka á útlendingamálunum af alvöru og ábyrgð á næstu vikum. Hvort allar séríslensku segul-reglurnar verði afnumdar eða ekki. Hvort sérstaða Íslands í útlendingamálum verði lögð af. Nú er komið að ögurstund.

Það munar um Miðflokkinn í þessum málaflokki eins og löngu er orðið ljóst. Engin er þó þórðargleðin yfir því að aðrir flokkar skuli vera að átta sig á alvarlegri stöðu og kalla eftir raunsæjum aðgerðum heldur léttir fyrir íslenska þjóð; þá innviði og samfélag sem við höfum byggt hér upp og viljum vernda.

Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is