Gunnar Magnússon fæddist 25. mars 1945. Hann lést 10. janúar 2024.

Útför hans fór fram 14. febrúar 2024.

Gunnar trésmíðameistari frá Hafnarfirði hefði orðið 79 ára í mars nk., hann átti við heilsubrest að stríða síðustu ár ævinnar og sáttur við að kveðja hinstu kveðju nú í ársbyrjun. Honum kynntist ég vorið 1988 og þótt nærri kynslóð væri á milli okkar í aldri varð hann strax félagi, nærvera hans og viðmót við fyrsta fund gaf strax til kynna að þetta væri góður maður. Ég átti eftir að skilja betur eins og fleiri hve gott veganesti það var að ferðast með honum þegar við vorum samferða í fáeina mánuði í 12 manna alþjóðlegum sjálfboðaliðahópi sem ferðaðist frá Berlín til Níkaragva 1988, og var Gunnar fagmaðurinn og aldursforsetinn í hópnum.

Verkefnið var m.a. að halda áfram með byggingu skólahúss og ljúka við barnaheimili. Meðalaldur var ekki hár og Gunnar var að ferðast með óreyndum og ólærðum „iðnaðarmönnum“ sem sumir hverjir höfðu vart haldið á hamar eða sög. Ekki var hægt að flytja með mikið af efni eða nýjum verkfærum sökum hámarkskílófjölda á farangri, og á staðnum var ekkert nothæft rafmagn fyrir rafmagnsverkfæri og takmarkaður efniviður. Staðurinn var einangrað þorp sem ekki mátti yfirgefa nema með skipulögðum undantekningum vegna átakaspennu á svæðinu og aðföng takmörkuð. Þetta voru vissulega nýjar aðstæður fyrir smiðinn Gunnar. Barnaheimilið var risið en átti eftir að klára þak og múrbinda veggi, grafa rotþró og slétta grunn skólans. Ekkert vélarafl var fáanlegt fyrir verkefnið og ekki var mikið pásað í kaffi og með'í því það var ekkert með því. Nálægðin í 12 manna hópi þar sem aldursmunurinn var mest yfir 20 ár var nokkur í þessum kringumstæðum; hópurinn bjó saman í þröngu veggjalausu rými í sex vikur þar sem verkfærin voru geymd úti í horni.

Húmor Gunnars átti eftir sýna hvað hann var næmur á alls kyns litbrigði, naskur að sjá augnablik sem skiptu máli og þau sem gerðu það ekki. Og hann var mikilvægt akkeri, með honum kom fullvissa og sjálfstraust um að verkefnið yrði klárað eins og til stóð og takmarki náð, að það yrði vel gert, og með heimafólki var dansað undir nýju þaki barnaheimilisins kvöldið áður en hópurinn kvaddi. Þá hafði hann líka smíðað kubbasett fyrir það með bókstöfum, barnaheimili sem átti svo gott sem ekki neitt. Það er erfitt að segja hvort Gunnar áttaði sig á hinu stóra framlagi sínu og þeim árangri sem hann þarna náði með því að vera bara hann, ef hann hefði tekið undir það. Allt sem Gunnar hefði getað klúðrað við þessar aðstæður klúðraðist ekki. Hún leyndi sér ekki virðingin heldur sem heimafólk bar fyrir honum og sem honum kynntist en hann skildi líka eftir sig þekkingu og verkvit á þessum vettvangi. Krefjandi reynsla af honum aðeins styrkti góða mannkosti Gunnars.

Á síðasta áratug ævi hans hafði ég tækifæri til að hitta hann með vinum nokkuð reglulega og alltaf örstutt í húmorinn, en með covid fjaraði undan hittingum. Gunnar dvaldi í Hveragerði í skamman tíma áður en hann fór á Sólvang í Hafnarfirði þar sem hann kvaddi. Sannarlega bætti hann heiminn og samferðafólk sitt, guð blessi þig kæri félagi.

Einar Þór Gunnlaugsson.