Útlit er fyrir meira atvinnuleysi í sumar en í fyrrasumar. Óvissan er þó nokkur og gæti framvinda mála í Grindavík haft talsvert að segja. Þetta segir Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Útlit er fyrir meira atvinnuleysi í sumar en í fyrrasumar. Óvissan er þó nokkur og gæti framvinda mála í Grindavík haft talsvert að segja.

Þetta segir Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar.

Atvinnuleysi í janúar mældist 3,8% en var til samanburðar 3,7% í janúar í fyrra. Að sama skapi var meira atvinnuleysi í desember síðastliðnum, 3,6%, en var 3,4% í desember 2022.

Unnur segir merki um kólnandi vinnumarkað.

„Vinnumarkaðurinn hefur hiklaust kólnað. Hluti af ástæðunni er vaxtahækkanir. Það byrjaði að kólna í ferðaþjónustu og svo fór störfum að fækka í byggingariðnaði allt haustið og aðeins meira en gera má ráð fyrir út af árstíðabundnu atvinnuleysi. Hugsanlega hafa vaxtahækkanir Seðlabankans verið farnar að bíta. Það hefur verið mikil ládeyða á fasteignamarkaði frá síðasta sumri.

Ef við tækjum Grindavík út fyrir sviga myndum við segja að það væri áfram dálítill samdráttur í kortunum. Stóra spurningin er hvort húsnæðisskortur Grindvíkinga hleypi meira lífi í byggingariðnaðinn með því að ýta undir eftirspurn eftir húsnæði. Þá virðast hamfarirnar hafa dregið tímabundið úr áhuga ferðamanna. Við höfum lítið þorað að tjá okkur um hugsanleg áhrif þessara atburða á vinnumarkaðinn.

Ef ekki væri fyrir stöðuna í Grindavík myndi ég halda að það væri meiri samdráttur og lækkun verðbólgu í kortunum en mikil óvissa er um áhrifin af þessum hamförum,“ segir Unnur. baldura@mbl.is