Selfoss Kartöflugeymslan sem stendur á vestari bakka Ölfusár.
Selfoss Kartöflugeymslan sem stendur á vestari bakka Ölfusár. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Til stendur að breyta gömlum bragga á Selfossi sem stendur á vesturbakka Ölfusár í listasetur. Bygging þessi var reist árið 1952 en til hennar var fengið efni víða frá; það er samtíningur úr ýmsum áttum

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Til stendur að breyta gömlum bragga á Selfossi sem stendur á vesturbakka Ölfusár í listasetur. Bygging þessi var reist árið 1952 en til hennar var fengið efni víða frá; það er samtíningur úr ýmsum áttum. Í síðari heimsstyrjöld voru Bretar víða með starfsemi á Suðurlandi, svo sem í Kaldaðarnesi í Flóa og á Langanesi á Selfossi, þar sem umræddur braggi stendur. Um miðja 20. öldina var Selfoss í raun sveitaþorp og þorri íbúanna með tengsl við sveitirnar í kring. Því tilheyrði að margir bæjarbúar stunduðu kartöflurækt og því svaraði Selfosshreppur sem þá var með byggingu braggans, sem er 174 fermetrar að flatarmáli og með torfþaki.

Nú eru breyttir tímar og not fyrir braggann minni en var, enda flestir hættir heimarækt á kartöflum. „Við sjáum mikla möguleika í þessu húsi,“ segir Gunnar Sigurgeirsson á Selfossi. Þeir Gunnar og Bergsveinn Halldórsson hafa farið fyrir hópi áhugafólks sem vill bragann til nýrra nota og fyrir liggur jáyrði Sveitarfélagsins Árborgar um afnot. Einhverjar breytingar þarf að gera á húsakynnum þessum svo þar megi taka á móti fólki, en þarna gætu verið myndlist, bíó, leiklist, upplestrarstundir og fleira slíkt. Með öðrum orðum sagt, þá eiga kartöflurnar að víkja fyrir kúnstinni – svo hér sé slett á góðri prentsmiðjudönsku.

Haldið sé í gamla stílinn

„Kartöflugeymslan á að verða menningarstaður og slíkt verður vonandi gerlegt án þess að kosta miklu til. Mikilvægt er líka að halda í þennan gamla stíl, sem gerir bygginguna í raun að þeirri sem hún er. Ýmislegt menningarstarf í grasrótinni hér á Selfossi hefur verið nánast á hrakhólum og þarf svona byggingu,“ segir Gunnar. Hann segir stofnfund hollvinafélags kartöflugeymslunnar verða haldinn á næstu vikum. Undirbúningur standi yfir og félagið væntanlega hefur fengið vinnuheitið Gullauga.