Fasteignafélögin Eik, Reginn og Reitir juku öll leigutekjur sínar á síðasta ári. Samanlagður hagnaður félaganna þriggja nam tæpum 19 milljörðum króna. Leigutekjur Regins jukust um 13,2% milli ára á sama tíma og verðlag hefur hækkað um 9,0% þannig að leigutekjur Regins hækkuðu um 4,2% umfram verðlag

Fasteignafélögin Eik, Reginn og Reitir juku öll leigutekjur sínar á síðasta ári. Samanlagður hagnaður félaganna þriggja nam tæpum 19 milljörðum króna.

Leigutekjur Regins jukust um 13,2% milli ára á sama tíma og verðlag hefur hækkað um 9,0% þannig að leigutekjur Regins hækkuðu um 4,2% umfram verðlag.

Fram kemur í fjárfestakynningu Regins sem birt var samhliða ársuppgjörinu að tekjur vegna nýrra leigusamninga og betri nýting eignasafns hækkaði leigutekjur á tímabilinu. Þá kemur fram að eftirspurnin eftir atvinnuhúsnæði sé sterk og hafi verið jöfn og þétt á öllum fjórðungum síðasta árs. Leigutekjur Regins hafa aukist um 25,6% frá árinu 2021 en verðlag hækkað um 18,0%.

Einskiptisliðir höfðu neikvæð áhrif á afkomu

Leigutekjur Eikar jukust um 11% milli ára og námu um 9,5 milljörðum króna, heildartekjur félagsins námu 11,2 milljörðum en einskiptisliðir höfðu neikvæð áhrif á tekjuhlið Eikar um 68 milljónir. Rekstraraðili Hótels 1919 mat áhrif jarðhræringa á Reykjanesi á afkomu hótelsins um 40 milljónir króna og félagið veitti afslátt af leigureikningum fyrir um það bil 28 milljónir króna vegna yfirhalningar á fasteign félagsins.

Leigutekjur Reita jukust um 12,1% og uxu umfram verðlag vegna fjárfestinga. Um þrír fjórðu hlutar tekjuaukningar á milli ára eru tilkomnir vegna verðlagshækkunar. Hækkun verðlags milli ára nam 9% líkt og áður kom fram. Aukning stafar einnig af innri fjárfestingu í eignasafninu og kaupum á Lambahagavegi seint á árinu 2022.

Jákvæðar matsbreytingar

Matsbreytingar voru jákvæðar hjá Regin á fyrri hluta síðasta árs en neikvæðar á seinni helmingi ársins vegna hækkunar vaxtastigs. Ávöxtunarkrafa í árslok 2023 var 6,38% en var 6,09% í árslok 2022. Heildarmatsbreyting ársins nam 6.518 milljónum króna.

Matsbreytingar voru jákvæðar hjá Eik og nam heildarmatsbreyting ársins 7,5 milljörðum króna. Stærstu liðirnir til hækkunar á virði fjárfestingareigna voru verðbólga, hækkun á markaðsleigu, uppfært virði byggingarheimilda og nýir samningar. Stærstu liðirnir til lækkunar eru hærri vegin ávöxtunarkrafa fjármagns og 0,5% framtíðarvöxtur markaðsleigu á tilteknum staðsetningum er tekinn út. Ávöxtunarkrafa fjármagns var 6,35% í lok ársins en var 6,14% í lok árs 2022.

Matsbreyting síðasta árs hjá Reitum nam tæpum 10,1 milljarði króna eða 6,2%. Verðlagshækkun og hækkandi ávöxtunarkrafa höfðu mikil og gagnstæð áhrif á verðmat eigna þetta árið og hækkun varð á metinni markaðsleigu. Þá stuðlaði framgangur þróunarverkefna að tæplega 15% hækkun á virði þeirra eigna. Ávöxtunarkrafan hækkaði um 50 punkta yfir árið og var 6,7% í árslok.

Gera ráð fyrir áframhaldandi vexti

Samanlagður hagnaður Eikar, Regins og Reita nam um 18,6 milljörðum króna á síðasta ári og nam samanlagður rekstrarhagnaður 51,6 milljörðum króna.

Reitir spá því að rekstrartekjur félagsins verði á bilinu 11,3-11,7 milljarðar króna á föstu verðlagi miðað við vísitölu neysluverðs í janúar 2024. Þá áætlar félagið að EBITDA ársins verði á bilinu 7,3-7,6 milljarðar króna.

Rekstrarspá Regins fyrir árið 2024 byggist á því að hækkun verðlags á milli ára verði 6%. Áætlað er að leigutekjur félagsins á árinu 2023 verði um 13,7-13,9 milljarðar króna. Jafnframt er gert ráð fyrir að rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir verði 9,8-10 milljarðar króna.

Reitir gera ráð fyrir áframhaldandi vexti á næsta ári. Áætlun Reita fyrir árið 2024 gerir ráð fyrir tekjum á bilinu 15,9-16,1 milljarður króna og að rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu (NOI) ársins verði á bilinu 10,9-11,1 milljarður króna. Forsendur matsins eru um 6% hækkun verðlags milli ára, að nýtingarhlutfall ársins 2024 verði sambærilegt við nýtingu ársins 2023 og að fasteignagjöld verði lægri að raunvirði.