Þorsteinn Þorsteinsson
Þorsteinn Þorsteinsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Nú þarf þjóðarátak til að efla lestrarhæfni barna og ungmenna.

Þorsteinn Þorsteinsson og Gunnlaugur Sigurðsson

Undanfarið hafa birst fréttir og greinar af áhyggjum manna af slæmu gengi grunnskólabarna á Pisa-prófum. Áhyggjurnar eru skiljanlegar, enda er mikið í húfi. Ástæðurnar eru ýmsar en ein er meginástæðan.

Þátttaka foreldra

Foreldrar og forráðamenn þurfa að byrja snemma að lesa fyrir börn sín. Ung börn hafa hæfni til að hlusta og það þróar og skerpir athyglisgáfuna. Gott er að lesa einfaldar sögur með myndum þannig að börn fylgist vel með. Þetta er algjör forsenda þess að börn læri að lesa, því að þau átta sig fljótt á því að í bókum leynist heill ævintýraheimur. Foreldrar verða að halda lestri bóka vel að börnum sínum allt frá byrjun skólagöngu til loka. Allir verða að taka þátt í þjóðarátaki til að bæta og efla lestrarhæfni barna og ungmenna.

Starf leik- og grunnskóla

Mikilvægt er að hefja fljótt undirbúning kennslu í lestri þegar barn kemur í skólann. Ráða einungis færustu kennara til að sinna þessu starfi. Allir kennarar og starfsmenn leikskóla eiga að vera fagfólk með góða kunnáttu í íslensku. Í leikskólum er grunnur lagður að íslenskukunnáttu barnanna.

Íslenskukennslu í efri bekkjum grunnskóla á eingöngu að fela kennurum sem lært hafa íslenskukennslu á háskólastigi. Strax í fyrsta bekk er mikilvægt að æfa upplestur, grípa fljótt inn í og leita til sérkennara í lestri ef börn eru illa læs. Brýnt er að æfa lesturinn reglulega allan grunnskólann. Æfa sérstaklega upplestur úr sígildum íslenskum bókmenntaverkum. Lestur krefst æfingar.

Þáttur framhalds- og háskóla

Eðlilegt er að nemendur þreyti skriflegt (krossapróf) og munnlegt inntökupróf þar sem reynir á góðan lestur. Upplestur verði áfram æfður í íslenskutímum.

Brýnt er að þeir stúdentar sem stefna að því að ljúka réttindanámi til kennslu á grunn- og leikskólastigi ljúki námi í lestrarkennslu. Háskólar ráði færustu íslenskumenn til að annast kennsluna.

Verkefni ríkis og sveitarfélaga

Nauðsynlegt er að sveitarfélög setji það í forgang við gerð fjárhagsáætlana að leik- og grunnskólar fái nægjanlegt fjármagn til að ráða til sín vel menntaða og góða kennara. Hvert sveitarfélag ætti að stofna íslenskusjóð til að styrkja skóla og kennara sem ná góðum árangri í lestrarkennslu. Ríki eigi aðild að íslenskusjóði. Viðkomandi skólanefnd sjái um úthlutun og setji úthlutunarreglur.

Mikilvægt er að stefnufesta ríki í málefnum skóla og ráðuneytis. Menntamálastofnun verði lögð niður og verkefni hennar falin menntamálaráðuneyti. Of margar óþarfar kerfis- og verkefnabreytingar hafa átt sér stað á leik- og grunnskólastigum og ráðuneyti á síðustu árum og áratugum sem hafa ekki stutt við árangur nemenda í námi.

Fyrirtækjum verði gert kleift að styrkja lestrarkennslu í skólum, t.d. með skattaafslætti. Framlög í íslenskusjóði verði einnig frádráttarbær frá skatti.

Niðurlag

Mjög margir vel menntaðir, áhugasamir og hæfileikaríkir kennarar og skólastjórar starfa við leik- og grunnskóla landsins. En þeir eru samt of fáir. Nú er hætta á að þeim muni enn fækka ef ekki verður gerð bragarbót á þegar á næsta ári. Sumir hafa sagt að kennsla og próf í íslenskum skólum hafi verið of mikið miðuð við fortíðina í stað þess að búa nemendur undir framtíðina.

Eðlilegt er að nemendur frá 10-12 ára aldri geri tímasettar árlegar áætlanir um námsframvindu sína í samvinnu við umsjónarkennara og forráðamenn. Námsbækur, tæki og búnaður í flestum íslenskum skólum eru fremur fábrotin og langt á eftir búnaði í þeim skólum þar sem árangur nemenda er framúrskarandi. Þennan þátt þarf að bæta stórlega.

Því miður er afburðanemendum í íslenskum grunnskólum ekki sinnt nógu vel. Nemendum sem ná afburðaárangri hefur farið mjög fækkandi. Það er mikil sóun, svo ekki sé meira sagt, fyrir þessa nemendur og land og þjóð.

Margir hafa nú að undanförnu leitað að þeim sem hugsanlega bera ábyrgð á síversnandi árangri íslenskra nemenda á Pisa- prófunum. Þeir hafa enga fundið. Stjórnendur og starfsmenn í menntakerfinu benda hver á annan. Skólastjórar bera ábyrgð varðandi nám og námsárangur nemenda sinna.

Nú er svo illa komið að skólar fá ekki lengur að frétta af árangri nemenda sinna í Pisa-prófunum. Þessu verður að breyta svo að stjórnendur hvers skóla geti þegar í stað hafið skipulega tímasett starf við úrbætur

Síðan niðurstöður síðasta Pisa-prófs voru kynntar hafa birst nokkrar ágætar greinar um málið. Bent hefur verið á hvar skórinn helst kreppir og komið hafa fram tillögur til úrbóta. Vonandi berum við gæfu til að halda umræðum áfram þar til við erum komin á betri veg með grunnmenntun þjóðarinnar.

Í þessu sambandi skal bent á ágætar greinar eftir Benedikt Sigurðarson, fyrrverandi skólastjóra, Írisi E. Gísladóttur á fésbókinni og Óla Björn Kárason þingmann í Morgunblaðinu 13.12.2023.

Nú þarf ekkert minna en þjóðarátak til þess að rétta stefnuna af. Allir verða að taka þátt, þar með taldir foreldrar, skólastjórar og kennarar, sveitarstjórnarmenn, starfsfólk menntamálaráðuneytis og síðast en ekki síst alþingismenn þjóðarinnar.

Þorsteinn er fyrrverandi skólameistari og Gunnlaugur er fyrrverandi skólastjóri.