„Í dag fer ekki saman framboð og eftirspurn eftir rafmagni sem er auðvitað ákveðið áhyggjuefni og í því felast okkar helstu áskoranir,“ segir Árni Hrannar um ástand markaðarins.
„Í dag fer ekki saman framboð og eftirspurn eftir rafmagni sem er auðvitað ákveðið áhyggjuefni og í því felast okkar helstu áskoranir,“ segir Árni Hrannar um ástand markaðarins. — Morgunblaðið/Eyþór
Eftir langa búsetu í Sviss fluttist Árni Hrannar Haraldsson aftur með fjölskyldu sinni til Íslands en hann settist í framkvæmdastjórastólinn hjá Orku náttúrunnar síðasta vor. Fjölskyldan var á tímabili í tveimur löndum og segir Árni það mikils virði …

Eftir langa búsetu í Sviss fluttist Árni Hrannar Haraldsson aftur með fjölskyldu sinni til Íslands en hann settist í framkvæmdastjórastólinn hjá Orku náttúrunnar síðasta vor. Fjölskyldan var á tímabili í tveimur löndum og segir Árni það mikils virði að geta aftur tekið þátt í hinu daglega heimilislífi.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Orka náttúrunnar er með mjög fjölbreyttan rekstur, frá því að reka virkjanir þar sem við framleiðum heitt vatn fyrir um 50% íbúa höfuðborgarsvæðisins og rafmagn fyrir um 60.000 heimili, yfir í að taka þátt í orkuskiptum með vinnu okkar og nýsköpun í hleðsluþjónustu. Í dag fer ekki saman framboð og eftirspurn eftir rafmagni sem er auðvitað ákveðið áhyggjuefni og í því felast okkar helstu áskoranir.

Einnig tel ég að við eigum svolítið í land varðandi regluverk í kringum orkuskiptin, hvort sem um ræðir nýja orku eða hleðsluinnviði. Svo megum við ekki gleyma því að okkar virkjanir byggja á jarðvarma og hefur eldgosið í kringum Svartsengi og Grindavík sýnt okkur hvaða áhætta tengist þannig virkjunum.

Hver var síðasta ráðstefnan sem þú sóttir?

Síðasta ráðstefnan sem ég fór á var okkar eigin ráðstefna um áratug af Orku náttúrunnar. Í ár erum við tíu ára og er það eitthvað sem við erum afar stolt af. Við fengum frábært starfsfólk hjá okkur til að vera með stórskemmtileg erindi, s.s. söguna um virkjanir okkar á Nesjavöllum og Hellisheiði, og hvernig við ákváðum að vera leiðandi í orkuskiptunum með vetnisstöðinni okkar og opnun fyrstu hraðhleðslustöðvar landsins á Bæjarhálsi árið 2014. Síðast en ekki síst þá var flott erindi um umhverfismál Orku náttúrunnar, en við tökum loftslags- og umhverfismálin mjög alvarlega.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Ég les mikið um málefni sem bæta mína þekkingu ásamt því að nýta mörg af þessum stórgóðu hlaðvörpum til að fræðast enn betur. Svo er ég mjög duglegur að spyrja fólk sem ég vinn með, vini mína og að sjálfsögðu maka um hvernig hægt sé að bæta sig og læra meira. Í gegnum tíðina hef ég lært að það er ekkert sem heitir heimskuleg spurning.

Hugsarðu vel um líkamann?

Það má nú alltaf bæta það, en ég er nú svo heppinn að eiga góða konu sem aðstoðar mig ávallt í þessu þar sem hún er sá aðili á heimilinu sem aðrir líta til varðandi heilsu. Annars passa ég alltaf upp á mataræði og hreyfi mig reglulega, fer í ræktina yfir vetrartímann og reyni að taka út hjólið mitt yfir sumartímann.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa?

Ég hef gaman af því að koma inn í störf þar sem miklar breytingar og áskoranir eru fyrir hendi. Í gegnum tíðina hef ég unnið mörg þannig störf þar sem mikil þörf var á uppbyggingu. Sennilega væri draumastarfið að sjá til þess að liðið mitt Tottenham vinni þann stóra.

Hvaða kosti og galla sérðu við rekstrarumhverfið?

Það er klárt mál að í orkugeiranum leynast margar áskoranir en um leið mörg tækifæri. Við erum að fara inn orkuskiptin með gríðarlega metnaðarfull og krefjandi markmið, rekstrarumhverfið er í sífelldri þróun og því ekki að ástæðulausu hvað orkugeirinn er að laða að sér mikinn áhuga. Næstu tíu ár verða mjög mikilvæg fyrir öll, enda þurfum við nýja orkukosti til að styðja við þá vegferð sem við höfum lagt upp í. Það er gríðarlega spennandi að vera partur af þessari uppbyggingu og forréttindi að fá að vinna með þessa þjóðareign okkar. Eitt af því mikilvægasta sem þarf að gerast til að við náum að fylgja metnaðarfullum orkuskiptamarkmiðum stjórnvalda er að regluverkið sé einfalt og skilvirkt.

Ævi og störf:

Nám: Stúdentspróf frá Flensborg í Hafnarfirði 1991; B.Sc. í efnafræði frá HÍ 1997; M.Sc. í verkfræði frá Danmarks Tekniske Universitet 2000.

Störf: Ýmis störf hjá Actavis/Allergan, s.s framleiðslustjóri, Lean Six Sigma, framkvæmdastjóri innleiðingar nýrra vara og framkvæmdarstjóri verkefnastofu 2000 til 2016; framkvæmdastjóri reksturs hjá Xantis Pharma 2016 til 2018; framkvæmdastjóri flutnings og upplýsingatækni hjá 66°Norður 2019 til 2020; framkvæmdastjóri vörustjórnunar hjá MS Pharma 2020 til 2023; framkvæmdastjóri ON frá 2023.

Áhugamál: Finnst alltaf gott að setja góða plötu á eða horfa á góða kvikmynd, en best líður mér með fjölskyldu minni og ekki er verra þegar það er á ferðalögum. Einnig er ég í stjórn PLAIO sem vinur minn stofnaði og hef ég gaman af að hugsa um og sjá það vaxa.

Fjölskylduhagir: Er kvæntur Evu Lind Helgadóttur og saman eigum við þrjú börn: Þengil, Hrannar Má og Eygló Lind.