Dómar breska dómarans Pauls Tierneys eru ekki alltaf fyrirsjáanlegir á vellinum. Ekki liggur fyrir hvort hann hafi lesið sósuskýrslu SKE frá því í fyrra.
Dómar breska dómarans Pauls Tierneys eru ekki alltaf fyrirsjáanlegir á vellinum. Ekki liggur fyrir hvort hann hafi lesið sósuskýrslu SKE frá því í fyrra. — AFP/Paul Ellis
Mögulega lásu sér einhverjir til gamans kærkomna 130 blaðsíðna skýrslu Samkeppniseftirlitsins (SKE) í fyrra um djúpa greiningu eftirlitsins á íslenskum sósumarkaði. Skýrslan fól í sér ákvörðun SKE um að banna kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Gunnars…

Mögulega lásu sér einhverjir til gamans kærkomna 130 blaðsíðna skýrslu Samkeppniseftirlitsins (SKE) í fyrra um djúpa greiningu eftirlitsins á íslenskum sósumarkaði. Skýrslan fól í sér ákvörðun SKE um að banna kaup Kaupfélags Skagfirðinga á Gunnars majónesi, sem hefur um árabil verið svo gott sem gjaldþrota. Fram að útgáfu skýrslunnar bjuggu íslenskir neytendur við algjöra óvissu um sósumarkaðinn en nú þekkir hvert mannsbarn á landinu hvað er hvað, hverjir flytja inn hvaða sósur, hvernig þær blandast o.s.frv. Við þurfum ekki lengur að lifa í myrkrinu hvað þetta varðar.

Það er þó ekki allt fyndið sem kemur frá SKE. Stjórnendum Festi var eflaust ekki hlátur í huga þegar þeir greiddu himinháa reikninga til óháða kunnáttumannsins sem átti að fylgjast með samruna félagsins við N1, og var fyrir algjöra tilviljun góður vinur aðstoðarforstjóra SKE. Hluthafar Símans, margir hverjir lífeyrissjóðir, hlógu ekki mikið þegar SKE tafði ítrekað söluna á Mílu sem kostaði þá um átta milljarða króna. Þá verður að teljast ósennilegt að stjórnendur Samskipa hlæi mikið yfir 4,2 milljarða króna sekt sem lögð var á félagið sl. sumar vegna meintra brota. Lögfróðir menn eru enn að klóra sér í hausnum yfir því hvernig sú himinháa upphæð kom til. Stjórnendur sjávarútvegsfyrirtækja sem afhentu SKE nákvæm gögn um rekstur sinn, sem SKE krafðist með ólöglegum hætti, og hafa ekki fengið þau til baka kunna líklega seint að meta húmorinn sem kemur úr Borgartúni 26.

Brandararnir eru sjaldnast ókeypis. Þannig ákvað SKE skyndilega árið 2019 að skilgreina enska boltann sem sérstaka markaðsvöru – eftir að Síminn eignaðist sýningarréttinn til þriggja ára. Fram að því hafði Sýn (og forverar þess félags) haldið á réttinum ásamt fjölda annarra íþróttaviðburða sem notið hafa vinsælda, án þess þó að SKE hefði nokkuð við það að athuga. Til að gera langa sögu stutta lagði SKE 500 milljóna króna sekt á Símann ári síðar fyrir meint brot á sátt sem gerð var á meðan Síminn var í markaðsráðandi stöðu (sem hann var ekki árið 2019). Áfrýjunarnefnd samkeppnismála lækkaði sektina síðar niður í 200 milljónir en síðastliðinn föstudag fékk Síminn allri sektinni hnekkt fyrir Landsrétti, sem staðfesti þar með dóm héraðsdóms. Eins og búast mátti við íhugar SKE nú að skjóta málinu til Hæstaréttar, enda hefur það engar afleiðingar fyrir stjórnendur SKE þó að málið tapist á öllum stigum.

Enski boltinn er líklega vinsælasta íþrótt landsmanna. Það vekur athygli að enska úrvalsdeildin selur nú réttinn til sex ára í senn – nema til Íslands þar sem rétturinn er aðeins seldur til þriggja ára. Það skýrist meðal annars af óljósum skilyrðum sem SKE hefur sett um notkun vörunnar og þá sérstaklega skyldu á heildsölu til annarra. Ólíkt sósumarkaðinum þá búa fyrirtæki og áhorfendur enska boltans við fullkomna óvissu um það hvernig þessi markaður er skilgreindur. Kannski vantar SKE bara meira fjármagn til að ljúka þeirri skilgreiningu.