Þorgeir Magnússon skrifar í Boðnarmjöð: Þreyjum þorrann: Þegar leysir á landinu snjóa og loks fer að vella í spóa, þá er vetrarins eymd okkur velflestum gleymd og þar með þau þorri og góa. Philip Vogler Egilsstöðum svarar og skrifar: Mér fannst…

Þorgeir Magnússon skrifar í Boðnarmjöð: Þreyjum þorrann:

Þegar leysir á landinu snjóa

og loks fer að vella í spóa,

þá er vetrarins eymd

okkur velflestum gleymd

og þar með þau þorri og góa.

Philip Vogler Egilsstöðum svarar og skrifar: Mér fannst vísan mín fullkomlega sjálfstæð en langar samt að þakka Þorgeiri Magnússyni fyrir að hafa vakið mig til umhugsunar um þessi fallegu mánaðarheiti. Þau eru glæsilegur menningararfur eins og systkin sín!

Gleymum ekki gömlum nöfnum,

geymast illa í skrám á söfnum.

Þar á meðal er þorri og góa

þegar bráðum kemur lóa.

Hannes Sigurðsson skrifar: Enn eru bögubósar fréttastofunnar að auðga málið. Nú er ekki einungis talað um háan snjó, heldur eru sprungur jarðskorpunnar mældar eftir sama kvarða. Tilbrigði við þekkt stef.

Ef þú gengur út um heim

einn, um hraun og klungur,

hugaðu vel að hættum þeim

sem hér eru búnar fótum tveim.

Í götunni leynast geysiháar sprungur.

Hafsteinn Reykjalín Jóhannesson kveður:

Sá í geisla sólar víða,

senn að vori líður.

Eftir því hér allir bíða,

undan kulda svíður.

Limran Á öldrunardeildinni eftir Eyjólf Óskar Eyjólfsson:

Enginn veit aldur á Teiti

en eldri er Þórgautur feiti

og öldruð er Hlín

og Úlfhildur Lín

en elst er hún Gróa á Leiti.

Limran Bjartsýni eftir Kristján Karlsson:

Ef dytti ég niður dauður

einn dag eins og hver annar sauður,

þó illt sé að kveðjast

hlyti einhver að gleðjast

sem á eftir mér sæi oní hauður.

Stakan Pólitíkin eftir Ingvar Gíslason:

Ýtni, frekja, pot og pex,

pukur, flím og slaður,

skens og hæðni, rag og rex,

rógur, lygi, þvaður.

Í Lestrarbók Sigurður Nordals eru m.a. þessi staka eftir Þorstein Erlingsson:

Hægt fær enn þinn herra séð,

hvernig öllu er varið,

þó að guðsmynd þína með

þú hafir illa farið.