Stasíkómedía Kynningarmynd fyrir opnunarmynd Þýskra kvikmyndadaga, Stazikomödie.
Stasíkómedía Kynningarmynd fyrir opnunarmynd Þýskra kvikmyndadaga, Stazikomödie.
Þýskir kvikmyndadagar eru einn af föstum liðum menningarinnar hér á landi í byrjun árs og verða nú haldnir í fimmtánda sinn, 23. febrúar til 3. mars. Að dögunum stendur kvikmyndahúsið Bíó Paradís í samstarfi við Goethe-stofnunina í Danmörku og þýska …

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Þýskir kvikmyndadagar eru einn af föstum liðum menningarinnar hér á landi í byrjun árs og verða nú haldnir í fimmtánda sinn, 23. febrúar til 3. mars. Að dögunum stendur kvikmyndahúsið Bíó Paradís í samstarfi við Goethe-stofnunina í Danmörku og þýska sendiráðið hér á landi og verða sjö nýjar eða nýlegar kvikmyndir sýndar að þessu sinni.

Opnunarmyndin nefnist Stasikomödie, eða Stasíkómedía og segir af ungum manni, Ludger, sem á í sambandi við tvær konur og lifir tvöföldu lífi í Austur-Berlín á níunda áratug síðustu aldar. Og til að flækja málin enn frekar er hann starfandi skáld og líka í leyniþjónustunni Stasi. Er hans helsta verkefni að njósna um listasenuna í Prenzlauer Berg.

Myndin er frá árinu 2022 og í leikstjórn Leanders Haussmanns.

Das Lehrerzimmer, eða Kennarastofan í íslenskri þýðingu, segir af kennaranum Cörlu sem ákveður að taka málin í sínar hendur þegar einn nemenda hennar er grunaður um þjófnað. Málið reynist henni afar erfitt og veldur togstreitu milli hennar og skólakerfisins.

Kennarastofan hlaut fimm verðlaun á Þýsku kvikmyndaverðlaununum í fyrra, m.a. sem besta kvikmyndin. Hún vann líka til tvennra verðlauna á Berlinale-kvikmyndahátíðinni. Leikstjóri er Ilker Satak.

Falsanir og skógareldar

Roter Himmel, eða Rauður himinn, eftir leikstjórann Christian Petzold, er frá árinu 2023 og segir af ungum rithöfundi, Leon, sem fer með besta vini sínum í sumarfrí við Eystrasalt og ætlar þar að ljúka við skrif á skáldsögu. Þeir hitta unga konu sem hefur þau áhrif á Leon að hann opnar sig upp á gátt. Þegar skógareldar kvikna breytist staðan mjög og miklar hörmungar yfirvofandi. Rauður himinn hlaut Silfurbjörninn á kvikmyndahátíðinni í Berlín, Berlinale, í fyrra.

Der Passfälscher, eða Vegabréfafalsarinn, fjallar um ungan gyðing, Cioma, árið 1942 í Þýskalandi nasismans. Hann býr yfir miklum hæfileikum þegar kemur að því að falsa vegabréf og tekst að bjarga bæði sjálfum sér og fjölda annarra gyðinga frá nasistum. Cioma er auk þess einkar lunkinn í að breyta persónu sinni með ýmsum hætti. Myndin mun byggð á sönnum atburðum.

Það sem aldrei var

Wann wird es endlich wieder so, wie es nie war, sem þýða mætti Hvenær verða hlutirnir loksins aftur eins og þeir voru aldrei?, er kvikmynd eftir leikstjórann Sonju Heiss og er lýst á vef Bíós Paradísar sem heillandi, fyndinni og áhrifamikilli kvikmynd um hvernig það sé að alast upp í mjög sérstakri fjölskyldu. Er handrit myndarinnar byggt á minningum rithöfundarins Joachims Meyerhoffs sem ólst upp á geðsjúkrahúsi þar sem faðir hans gegndi starfi yfirmanns deildar fyrir börn og unglinga.

Tvær heimildarmyndir verða sýndar í flokki mannréttindamynda á Þýskum kvikmyndadögum og þá aðeins einu sinni hvor. Þær eru My name is Happy, eða Nafn mitt er Happy, og Forest, a garden we cultivate, eða Frumskógur, garður sem við ræktum.

Fyrrnefnda myndin fjallar um unga konu, Mutlu Kaya, sem þótti efnileg söngkona á táningsaldri og var nærri því að komast í úrslit hæfileikakeppninnar Turkey's Got Talent árið 2015 þegar hún var skotin í höfuðið af ungum manni sem hún hafði hafnað. Kaya lifði árásina af og vakti málið heimsathygli á sínum tíma. Myndin hefur hlotið fjölda verðlauna.

Síðarnefnda myndin er brasilísk og segir á vef Bíós Paradísar að hún bjóði upp á nýja sýn á samband skógarins og frumbyggjasamfélaganna og hlutverk þeirra í baráttunni gegn loftslagsvánni.

Lokadagur Þýskra kvikmyndadaga í Bíó Paradís er sunnudagurinn 3. mars.