Ívar Unnþórsson segir ígripsleiki vinsæla í Bandaríkjunum.
Ívar Unnþórsson segir ígripsleiki vinsæla í Bandaríkjunum.
Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Bwloto, sem sérhæfir sig í fjáröflunar- og getraunalausnum, hefur gert samning við Scientific Games (SG), sem er eitt stærsta lottófyrirtæki heims, um dreifingu á lottóleikjum fyrirtækisins eða svoknefndum ígripsleikjum

Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Bwloto, sem sérhæfir sig í fjáröflunar- og getraunalausnum, hefur gert samning við Scientific Games (SG), sem er eitt stærsta lottófyrirtæki heims, um dreifingu á lottóleikjum fyrirtækisins eða svoknefndum ígripsleikjum. Netsala á lottóleikjum er metin á sex milljarða bandaríkjadala eða 800 milljarða króna.

„SG er annað af tveimur stærstu lottófyrirtækjum heims og rekur 130 lotterí í 50 löndum og hefur aðgang að mjög stórum markaðssvæðum. Við getum boðið leikina okkar í gegnum SG sem er svo með samninga við lotteríin í Bandaríkjunum, sem dreifa leikjunum okkar beint til viðskiptavina,“ segir Ívar Unnþórsson, framkvæmdastjóri Bwloto, í samtali við ViðskiptaMoggann.

Ívar segir að ígripsleikir virki eins og hefðbundnir skafmiðar sem flestir þekkja þar sem spilarar verða að skafa til þess að komast að því hvort vinningur sé á miðanum. Stafrænir ígripsleikir eru hins vegar spilaðir á netinu og geta verið með mismunandi þema.

„Við bjóðum upp á 15 hágæða ígripsleiki með flottri grafík og tónlist sem hafa allskonar þema. Til dæmis bjóðum við ígripsleik þar sem spilarinn verður að berjast við andstæðinga með skæri, blað og stein og ef hann nær að vinna andstæðinga sína nokkrum sinnum í röð hefur hann unnið vinning og einnig erum við með veiðileik þar sem veiðimaður verður að veiða fisk til þess að vinna. Ígripsleikir eru mjög stórir í Bandaríkjunum, en slíkir urðu aðgengilegir á netinu fyrir tveimur árum, sem er dálítið skrítið þar sem Bandaríkjamenn eru mjög framarlega í þessum málum,“ segir Ívar að lokum.