Loftvarnir Úkraínskir loftvarnarhermenn skjóta hér á rússneska dróna frá varnarstöðu sinni í nágrenni við Bakhmút í Donetsk-héraði í fyrradag.
Loftvarnir Úkraínskir loftvarnarhermenn skjóta hér á rússneska dróna frá varnarstöðu sinni í nágrenni við Bakhmút í Donetsk-héraði í fyrradag. — AFP/Anatolii Stepanov
Úkraínuher sagði í gær að ekkert væri hæft í yfirlýsingum Rússa um að þeir hefðu náð að hertaka á ný bæinn Krinkí, sem er á austurbakka Dnípró-fljótsins í Kerson-héraði. Sergei Shoígú, varnarmálaráðherra Rússlands, sagði á þriðjudaginn við Vladimír…

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Úkraínuher sagði í gær að ekkert væri hæft í yfirlýsingum Rússa um að þeir hefðu náð að hertaka á ný bæinn Krinkí, sem er á austurbakka Dnípró-fljótsins í Kerson-héraði. Sergei Shoígú, varnarmálaráðherra Rússlands, sagði á þriðjudaginn við Vladimír Pútín Rússlandsforseta að Rússar hefðu náð bænum á ný á sitt vald, en Úkraínumenn frelsuðu hann síðasta sumar.

Talsmenn suðurherja Úkraínuhers sögðu hins vegar á samfélagsmiðlum að það væri rangt, og að Úkraínumenn héldu enn fast í varnarstöður sínar í bænum. Hins vegar hefðu Rússar gert áhlaup á bæinn með miklu mannfalli.

Bandaríska hugveitan Institute for the Study of War sagði sömuleiðis í stöðumati sínu í gær að miðað við þær upplýsingar sem lægju fyrir benti flest til þess að Úkraínumenn væru enn með fótfestu á svæðinu, og að engin myndbönd eða önnur slík gögn hefðu borist sem bentu til þess að Rússar hefðu reynt að sækja fram í bænum eða nágrenni hans.

Segir Avdívka vera vendipunkt

Pútín afhenti í gær rússneskum orrustuflugmönnum heiðursmerki fyrir aðgerðir sínar við bæinn Avdívka. Sagði Pútín m.a. að þökk sé aðgerðum þeirra hefði verið mögulegt að knýja fram „vendipunkt á einu erfiðasta svæði víglínunnar“. Valerí Gerasímov, yfirmaður rússneska herráðsins, afhenti sömuleiðis heiðursmerki, en hann var staddur meðal fótgönguliða í Úkraínu. Sagði Gerasímov að bærinn hefði fallið á „mjög skömmum tíma eftir langan undirbúning“, en Rússar hófu núverandi sókn sína að bænum í október síðastliðnum.

Rússneski herbloggarinn Andrei Morosov, sem gekk undir heitinu Murz á Telegram, var í gær sagður hafa svipt sig lífi, en hann greindi frá því fyrr í vikunni að Rússar hefðu misst 16.000 hermenn og 300 brynvarin farartæki í orrustunni um Avdívka. Sagði Murz í síðustu skilaboðum sínum að þrýst hefði verið á sig að eyða færslunni og að hann hygðist taka eigið líf.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson