— AFP/Gints Ivuskans
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Undanfarnar vikur og mánuði hafa yfirmenn varnarmála í hinum ýmsu Evrópuríkjum varað við því að Rússland sé að undirbúa sig fyrir möguleg átök við Atlantshafsbandalagið á næstu fimm til tíu árum.

Viðtal

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Undanfarnar vikur og mánuði hafa yfirmenn varnarmála í hinum ýmsu Evrópuríkjum varað við því að Rússland sé að undirbúa sig fyrir möguleg átök við Atlantshafsbandalagið á næstu fimm til tíu árum.

Það mat er þó ekki einhlítt, en Troels Lund Poulsen, varnarmálaráðherra Danmerkur, varaði við því fyrir tveimur vikum að Rússland gæti látið reyna á samstöðu vestrænna ríkja á næstu þremur til fimm árum og norski hershöfðinginn Eirik Kristofferson, yfirmaður norska hersins, sagði í síðustu viku að herinn hefði í besta falli eitt til þrjú ár til þess að auka varnargetu sína gegn Rússum.

Fabian Hoffmann, sérfræðingur í varnarmálum, eldflaugatækni og þeim aðferðum sem beitt yrði til þess að heyja kjarnorkustríð, segir í samtali við Morgunblaðið að hann telji í þessu samhengi að margir ofmeti þann tíma sem Rússar gætu tekið sér til þess að undirbúa sig, og að of margir horfi á þann mikla getumun sem sé nú í bæði mannafla og tækni á milli NATO-ríkjanna og Rússlands.

„Rússar eru vel meðvitaðir um það, að þeir geta ekki haft betur í löngu stríði við NATO,“ segir Hoffmann. „Þannig að það sem rússneskir hernaðarspekingar og stefnusmiðir hafa gert er að þeir hafa búið til áætlanir um hvernig þeir geti sigrað bandalagið áður en það getur nýtt sér sína „hefðbundnu“ yfirburði.“

Þær áætlanir snúast að sögn Hoffmanns um að stýra stigmögnun átakanna á þann veg að Rússar muni setja sem mestan sálfræðilegan þrýsting á andstæðinga sína til þess að þeir samþykki þær kröfur sem Rússar setji fram og semji frið.

Spurður um líkindi við áætlanagerð Sovétmanna í kalda stríðinu segir Hoffmann þann mun vera á að Rússar viti að þeir eigi enga möguleika á að vinna stríð við Atlantshafsbandalagið ef það er háð á forsendum vesturveldanna. „Þeir vita að þeir geta ekki unnið langt stríð og því þurfa þeir að finna önnur ráð til þess að vinna það,“ segir Hoffmann en að hans mati gæti stigmögnun Rússa á átökunum meðal annars falið í sér eldflaugaárásir á borgaralega innviði vítt og breitt um Evrópu.

Hoffmann segir að Rússar myndu ekki beita kjarnorkuvopnum í fyrstu, heldur hefðbundnum eldflaugum, sem geti gert mikinn skaða líkt og við sjáum í Úkraínu á nánast hverjum einasta degi. Hann segir að Rússar myndu reyna að valda sem mestum skaða gegn óbreyttum borgurum og borgaralegum innviðum í upphafsárásum sínum og bætir við að Rússar myndu þá ekki útiloka þann möguleika að beita kjarnorkuvopnum. „Fyrir Rússa viltu halda þeim möguleika opnum, því að það eykur líkurnar á því að „hefðbundnu“ árásirnar virki,“ segir Hoffmann.

Reyni að fæla NATO-ríkin frá

Ein sviðsmyndin sem Hoffmann setur þannig upp gæti því falið í sér að Rússar réðust á Eystrasaltsríkin og hernæmu þau að hluta eða í heild, á sama tíma og þeir gerðu eldflaugaárásir á Evrópu. „Þá senda þeir þau merki, að þeir hafi þegar valdið heilmiklum skaða, og að þeir gætu valdið miklu meiri skaða, þar á meðal með kjarnorkuvopnum,“ segir Hoffmann. Markmiðið sé þá að sannfæra bæði ríkisstjórnir og almenning í NATO-ríkjunum um að betra sé að leyfa Rússum að halda sínum illa fengna hlut.

Hoffmann segir að miðað við það sem vitað sé um þankagang Rússa í þessum efnum muni þeir þannig reyna að stýra viðbrögðum Atlantshafsbandalagsins með óttanum við frekari árásir og hindra bandalagsríkin þannig til að bregðast við eins og þau myndu vilja. „Þeir eru að veðja á það að þessar árásir muni hafa fælingarmátt, og að þeir muni beita árásum sínum á mjög úthugsaðan hátt.“

Hoffmann lýsir þannig nokkurs konar „valdbeitingarstiga“ sem Rússar gætu nýtt sér, þar sem þeir myndu byrja með nokkrum eldflaugaárásum, og ef þær virkuðu ekki myndu þeir stigmagna upp í stærri árásir og ef það dygði ekki til gætu þeir farið enn lengra og jafnvel þá upp í beitingu vígvallarkjarnorkuvopna (e. Tactical Nuclear Weapons).

„Þeir gætu þá byrjað á að varpa einni þannig sprengju og ef það virkaði ekki gætu þær orðið fleiri og ef það virkaði ekki þá hefðu þeir þann valmöguleika að skjóta langdrægu eldflaugunum sínum,“ segir Hoffmann, sem bætir við að samlíking blaðamanns við stiga sé að vissu leyti rétt, en einnig röng, þar sem Rússar myndu ekki fylgja „stiganum“ með því að klífa hann eitt þrep í einu upp á við, heldur myndu þeir vilja halda öllum valmöguleikum sínum opnum.

Miklar líkur á árás á Keflavík

Talið berst að Keflavíkurflugvelli og varnarviðbúnaði Íslendinga, en líklegt þykir að borgaralegir innviðir á borð við flugvelli væru ofarlega á skotmarkalista Rússa. „Góðu fréttirnar fyrir Ísland eru að ég held ekki að landið ykkar yrði forgangsskotmark fyrir Rússa þegar kæmi að stigmögnun átakanna. Það eru stefnusmiðir í Evrópu sem eru nær Rússum og eru mikilvægari skotmörk fyrir þá,“ segir Hoffmann.

„Slæmu fréttirnar eru þær að það eru engu að síður miklar líkur á því að Ísland yrði fyrir árásum, því að landið yrði að mikilvægri miðstöð fyrir Bandaríkjamenn og liðsflutninga þeirra til Evrópu, og það eru engar líkur á því að Rússar myndu líta framhjá því,“ segir Hoffmann, sem bætir við að hann hafi þó ekki innsýn í það hvernig Rússar teldu sig best geta mætt þeirri hættu. „En ég er nokkuð viss um að þeir hafa áætlanir um hvernig þeir muni takast á við þennan flugvöll og mögulegan liðssafnað Bandaríkjamanna þar,“ segir Hoffmann og bætir við að frá sjónarhóli Rússa myndu þeir hafa nokkuð góða ástæðu til þess að ráðast á Keflavík, ekki síst ef átökin dragast á langinn og Bandaríkjamenn fara að senda herlið yfir Atlantshafið í stórum stíl.

Þurfum að sannfæra Rússa

En hversu raunhæft er að Rússar myndu láta reyna á þetta? „Það er frægt spakmæli um að engin áætlun lifir af fyrstu snertinguna við óvininn. Við getum talað fram og til baka um það hvort þessi strategía sé rökrétt, hvort hún gæti virkað eða hvort miklar líkur séu á að þetta myndi ganga upp,“ segir Hoffmann.

„Ég hef sannast sagna mínar efasemdir um það af mörgum ástæðum, en ég tel það vera mjög mikilvægt að fólk átti sig á því að það skiptir engu máli hvort ég trúi því eða ekki, eða hvort þeir sem sitja við stjórnvölinn hér trúi því. Þeir einu sem við þurfum að sannfæra að þetta geti ekki gengið upp eru Rússarnir, því það eru þeir sem gætu látið reyna á þetta ef þeir trúa því að þetta geti virkað,“ segir Hoffmann.

Hann undirstrikar mikilvægi þess að fæla Rússa frá slíkri tækifærismennsku. „Því að jafnvel þó að besta sviðsmyndin rynni upp, þar sem varnarsveitir Eystrasaltsríkjanna og NATO héldu aftur af Rússum og þeir næðu engum af hernaðarmarkmiðum sínum, og þar sem öll bandalagsríkin stæðu saman gegn árás Rússa og gæfust ekki upp þrátt fyrir árásir þeirra, þá værum við samt í þeirri stöðu að við værum í átökum við Rússa. Það væru bein hernaðarátök á milli nokkurra kjarnorkuvelda og miklar líkur á að þau myndu stigmagnast.“

Hoffmann segist því vera á þeirri skoðun að það sé of bjartsýnt að tala um að Rússar þurfi tíu ár til þess að endurreisa herafla sinn eftir innrásina í Úkraínu, og fimm ár sé jafnvel í það mesta í þessu samhengi. „Ég myndi segja að við þurfum að vera reiðubúin innan tveggja til þriggja ára,“ segir Hoffmann og vísar meðal annars í mat Kristoffersons hershöfðingja. „Ég held ekki að það sé Rússum í hag að láta reyna á þetta á þessari stundu, en margt getur breyst á tveimur árum,“ segir Hoffmann og nefnir sem dæmi að kosningar fari fram í mörgum Evrópuríkjum og í Bandaríkjunum á þessu og næsta ári, sem geti breytt ýmsu, auk þess sem staða mála í Úkraínu geti þróast.

Sendum út veikleikamerki

– En hvernig getum við þá komið í veg fyrir að Rússarnir láti reyna á samheldni NATO?

Hoffmann segir að þeirri spurningu þurfi helst að svara á tvennan hátt. Annars vegar sé brýnt að vesturveldin sýni að þau geti svarað Rússum, ekki bara með því herliði sem bandalagið hafi til reiðu, heldur einnig með sérstakri getu til að svara hlutum eins og eldflaugaárásum til stigmögnunar.

„Ein leið til að fæla þá frá er að vera með mjög góðar eldflaugavarnir til þess að verja borgaralega innviði okkar, og ég tel að við þurfum að fjárfesta mun meira í slíkum vörnum. Annað er að koma okkur upp getu til að svara eldflaugaárásum með gagnárásum og sýna Rússum þannig að við getum ekki bara varist ykkur, við getum líka skotið til baka og ógnað rússneskum innviðum, án þess þó að við séum að ráðast á óbreytta borgara,“ segir Hoffmann. „Við þurfum að geta sent þau merki til Rússa að ef þið skjótið eldflaugum á okkur munum við skjóta strax til baka.“

Hin hliðin sem vesturveldin þurfi að huga að til þess að fæla Rússa frá árás á NATO-ríki sé sú huglæga. „Hún felur í sér að við sendum þau merki til Rússa að við séum reiðubúnir fyrir að þeir láti reyna á þetta, en að við munum ekki gefast upp. Að við munum standast sálfræðilega þrýstinginn og við munum ekki gefast upp gagnvart kröfum ykkar. En, og ég tel mjög mikilvægt að undirstrika það, við erum að standa okkur mjög illa núna á þessari hlið. Allt sem Rússar sjá núna er veikleikar, þar sem við hikum við að bregðast við,“ segir Hoffmann.

Hann nefnir sem dæmi hvernig vesturveldin virðist ekki vilja styðja Úkraínu af öllu afli, hvernig þau bregðist ekki við því þegar Rússar stigmagni stríðið þar, hvernig þau forðist að lýsa því beint yfir að markmiðið sé að Úkraína vinni stríðið og að Rússland þurfi að tapa því.

„Okkar eigin stefnusmiðir, sérstaklega í Þýskalandi og í Bandaríkjunum, eru að senda þau merki til Rússa að ímynd þeirra af vesturveldunum sé rétt og að við þolum illa sársauka. Það sendir þau skilaboð að við séum það veik fyrir að Rússar gætu komist upp með að ráðast á okkur. Við þurfum að breyta því.“

Hoffmann segir að ein leiðin til þess sé sú að ræða opinberlega þessa hættu og að hún sé til staðar, þannig að almenningur sé undirbúinn að þetta sé möguleiki. Það sé þó ekki endilega hlaupið að því. „Ég er frá Þýskalandi og þegar þessi mál eru rædd þar er nánast eins og fólk setji kíkinn fyrir blinda augað um leið. Fólk vill ekki hugsa um þennan möguleika, ólíkt því t.d. sem almenningur í Póllandi og Eystrasaltsríkjunum gerir, því að fólk þar skilur betur þá hættu sem stafar af Rússum gagnvart lífsháttum okkar.

Það er til dæmis ekki raunin að tilvist Íslands eða Þýskalands sé í hættu frá Rússum, en við þurfum að vera mjög hrædd við það að núverandi lifnaðarhættir okkar sem hafa veitt okkur velmegun ganga ekki upp í heimi þar sem Rússland hefur úrslitavald yfir Evrópu. Lífskjör okkar myndu versna mjög mikið við það,“ segir Hoffmann. „Við þurfum því að geta hindrað þá niðurstöðu. Við höfum ekki val um annað.“

Eystrasaltsríkin auka viðbúnað sinn gegn innrás

Rúmlega þúsund byrgi til varnar

Varnarmálaráðherrar Eystrasaltsríkjanna þriggja undirrituðu í síðasta mánuði samkomulag, sem felur í sér að ríkin þrjú styrkja varnir sínar á landamærunum að Rússlandi, þar á meðal Kaliníngrad, og Hvíta-Rússlandi.

Munu ríkin þrjú m.a. reisa rúmlega 1.000 byrgi, þar sem hermenn geti reynt að verjast innrás Rússa sem lengst, en fyrir framan þau verða lögð gaddavírsbelti, skotgrafir og svonefndar „drekatennur“, sem eiga að hamla för skriðdreka og annarra brynvarinna farartækja.

Er tilgangurinn sá að reyna að hægja á innrásarliði Rússa og neyða það í gegnum flöskuhálsa þar sem varnarsveitir eigi betri möguleika á að halda aftur af því.

Donatas Palavenis, liðsforingi í litháíska hernum, sagði við The Times í síðustu viku að áætlanirnar drægju lærdóm af reynslu Úkraínumanna, en markmiðið er að reyna að stöðva innrásina þegar á fyrstum stigum hennar, og ef það gengur ekki upp, að tefja hana nægilega til þess að bandamenn Eystrasaltsríkjanna geti sent aðstoð.

Höf.: Stefán Gunnar Sveinsson