Sálfræðilegur tryllir Elin Petersdottir og Ilmur María Arnarsdóttir í hlutverkum sínum sem Áróra og Lilja. Tónlistin í myndinni leikur stórt og mikið hlutverk en hún verður gefin út af Naxos á næstunni.
Sálfræðilegur tryllir Elin Petersdottir og Ilmur María Arnarsdóttir í hlutverkum sínum sem Áróra og Lilja. Tónlistin í myndinni leikur stórt og mikið hlutverk en hún verður gefin út af Naxos á næstunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Fyrsta myndin sem birtist mér var af kvöldverði þar sem fjölskylda er samankomin. Ég sá fyrir mér ofboðslega fallegan fjölskyldukvöldverð þar sem þjáning eða gremja krauma undir yfirborðinu en allir eiga að vera glaðir,” segir Helena…

Viðtal

Anna Rún Frímannsdóttir

annarun@mbl.is

„Fyrsta myndin sem birtist mér var af kvöldverði þar sem fjölskylda er samankomin. Ég sá fyrir mér ofboðslega fallegan fjölskyldukvöldverð þar sem þjáning eða gremja krauma undir yfirborðinu en allir eiga að vera glaðir,” segir Helena Stefánsdóttir, leikstjóri og handritshöfundur, spurð að því hvernig hugmyndin að nýjustu kvikmynd hennar Natatorium hafi kviknað. „Ég átti líka tilbúið handrit að stuttmynd um hálfsystkin sem verða ástfangin og ég mátaði þau inn í þennan kvöldverð. Svo stækkaði sagan og persónurnar í henni smám saman.“

Natatorium er fyrsta kvikmynd Helenu í fullri lengd en titillinn er fenginn að láni úr latínu og merkir sundhöll. Þá hefur Helena leikstýrt sex stuttmyndum og tveimur heimildarmyndum. Sjálf er hún fædd og uppalin í Reykjavík og hefur búið þar mestan hluta ævinnar. Hún fékk þjálfun í leiklist og leikstjórn í París og MFA í myndbandalist í Gautaborg í Svíþjóð. Samhliða gerð stutt- og heimildarmynda hefur hún verið sjálfstætt starfandi myndbandslistakona, gert vídeólist fyrir öll stærstu leikhúsin í Reykjavík, óperuna og sjálfstæð leikfélög.

Bjóst ekki við neinu

Natatorium var heimsfrumsýnd á International Film Festival Rotterdam í janúar við mikið lof gagnrýnenda. „Natatorium er töfrandi frumraun Helenu Stefánsdóttur og fléttar listilega saman marglaga fjölskylduharmleik. Hin djúpstæða þrá eftir lausn á áratuga gömlum vandamálum kemur sterklega fram í framúrskarandi leik, ljóðrænu handriti og öruggri leikstjórn,“ segir til að mynda í umfjöllun The Hollywood Reporter.

Spurð út í þessar góðu viðtökur sem myndin hefur fengið segist Helena ekki hafa búist við neinu. „Þetta er fyrsta bíómyndin mín og það er afrek því það er búið að vera mikið af hindrunum. Ég er oft búin að hætta við, oft búin að þurfa pepp. En daginn eftir frumsýninguna komu þessir fjögurra stjörnu dómar og þá gat ég einhvern veginn andað.“

Myndin segir frá ungri 18 ára stúlku, Lilju, sem kemur til Reykjavíkur til að þreyta inntökupróf í alþjóðlegan gjörningahóp. Hún ákveður að dvelja hjá ömmu sinni og afa sem hún hefur ekki séð lengi vegna ósættis í fjölskyldunni. Lilja kynnist frænda sínum Kalla, sem býr enn þá heima hjá foreldrum sínum en hann þjáist af dularfullum lungnasjúkdómi sem gerir það að verkum að hann er að mestu rúmliggjandi. Fljótlega verður Lilja vör við ýmislegt undarlegt í húsinu og kvöld eitt við matarborðið kemur í ljós að fjölskyldan býr yfir hræðilegu leyndarmáli.

Margar hliðar meðvirkninnar

Í myndinni fylgjumst við með fjölskyldumeðlimunum takast á við þetta stóra og myrka leyndarmál á mismunandi hátt svo meðvirknin með ástandinu á heimilinu er stór hluti af söguþræðinum. Spurð út í þessa nálgun segist Helena sjálf vera einstaklega áhugasöm og forvitin um allt í mannlegu fari fólks. „Ég er alltaf að stúdera og skoða. Meðvirknin á sér líka svo margar hliðar því í meðvirkninni þróar fólk með sér alls konar fíknir til að lifa af,“ útskýrir hún. „Ég kynntist Celeste Ramos rithöfundi í miðju handritsferlinu og fékk áhuga á karakter með drukknunarfíkn, í smásögu hennar Swim, sem varð mér innblástur að karakter Kalla. Ég heillaðist af þessari furðulegu fíkn og við að kynna mér hana fékk ég hugmyndina að ömmunni sem heldur öllu í heljargreipum. Ég raðaði svo persónunum inn í fyrstu myndina sem kom upp í kollinn á mér, fjölskyldukvöldverðinn, en ég var trú henni allan tímann. Fyrir mér þá leiðir allt að þessum kvöldverði þar sem leyndarmálin koma upp en enginn vill samt trúa þeim.“

Langt og strembið ferli

Innt eftir því hvernig það sé að ráðast í svo stórt verkefni að gera sína fyrstu mynd í fullri lengd segir Helena að efniviðurinn hafi einfaldlega ekki boðið upp á annað. „Þegar ég áttaði mig á því þá byrjaði ég að skrifa þetta handrit og sæki um fyrsta handritsstyrkinn og fæ hann. Sæki svo um annan handritsstyrk og fæ hann líka. Svo sæki ég um þriðja handritsstyrkinn og fæ hann ekki en þá er ég orðin svo ákveðin að ég ætli að gera þetta og orðin ástfangin af þessum karakterum að ég gafst ekki upp. En guð minn góður hvað þetta er búið að vera mikill rússíbani,“ segir hún og bætir því við að hún hafi stungið handritinu ofan í skúffu í eitt og hálft ár þegar hún komst að því að hún fengi ekki þriðja styrkinn.

„Ég sótti svo um aftur, fékk já og fór í það að leita að framleiðanda en þetta er bara maraþon. Ég varð samt að „fæða“ þetta því ég var búin að ganga með þetta svo lengi, þetta varð bara að koma,“ segir Helena og tekur fram að hún hefði ekki getað gert þetta án stuðnings. „Það eru tvær konur hjá Kvikmyndamiðstöð sem hafa alltaf trúað á mig en það eru þær Sarma, Sigríður Margrét Vigfúsdóttir, og Gréta Ólafsdóttir. Þær eru eiginlega mínir bjargvættir og ástæðan fyrir því að ég gafst ekki upp á þessum tíma. Sarma sagði við mig að þetta væri eitt af þeim handritum sem hún hefði lesið á sínum ferli sem stæðu upp úr. Svona lifir með manni, þegar fólk talar svona við mann þá verða orðin stærri en efasemdirnar sem maður hefur um að þetta sé ekki neitt.“

Öll heilkenni spennandi

Í Natatorium er hið þekkta heilkenni Munchausen Syndrome by Proxy tekið fyrir en um er að ræða sálrænt ástand þar sem einhver framkallar vísvitandi einkenni veikinda hjá annarri manneskju. Er megintilgangurinn að vera ómissandi, að fá viðurkenningu fyrir að vera góð við sjúklinginn og vera miðpunktur athyglinnar. Svarar Helena því aðspurð að nálgun á svo viðkvæmt málefni krefjist góðs undirbúnings. „Ég er rosalega vandvirk sjálf og undirbý mig alveg brjálæðislega vel. Ég var búin að lesa eiginlega allt sem hægt er að lesa um þetta heilkenni og þessar konur eru sjálfar yfirleitt með alvarlegt tráma. Þetta eru alltaf konur, það er ekki til neitt dæmi um karlmann með þetta heilkenni. Mér fannst þetta bara spennandi því mér finnst öll heilkenni spennandi, þessar hliðar manneskjunnar sem eru ekki samþykktar í okkar samfélagi.“

Í myndinni má einnig sjá ýmis táknræn skilaboð hér og þar. Litapallettan er áberandi, blár litur hafsins kemur víða við og vatnið leikur stórt hlutverk í myndinni. „Það eiginlega bara gerðist smám saman. Eftir að sú hugmynd kviknaði að hafa sundlaug í kjallaranum, þá fékk ég þessa ástríðu, það kveikti eitthvað í mér. Svo var bara nóg fyrir mig að segja við hljóðhönnuðinn, tónskáldið og leikmyndahönnuðinn orðið „vatn“. Þá kom bara þessi sköpun frá þeim. Það er mikilvægt fyrir mig að fólkið sem vinnur með mér fái vængi til að taka mína hugmynd og lyfta henni upp á æðra plan, með sínum hæfileikum. Ég þarf ekki að fá heiðurinn af öllu. Án listrænna stjórnenda og allra sem koma að myndinni væri útkoman ekki sú sem hún er,“ segir Helena.

Hrollvekjandi sálfræðidrama

Þá hefur Natatorium meðal annars verið lýst af gagnrýnendum sem hrollvekjandi sálfræðidrama en innt eftir því hvort sú nálgun hafi verið meðvituð segir Helena svo vera. „Það var meðvitað hjá mér að húsið væri svolítið eins og skrímslið í sögunni. Það er mjög, mjög langt síðan sú hugmynd kviknaði. En svo var mér skyndilega bent á af aðila sem las handritið að þetta væri tryllir og ég hugsaði bara með mér, já geggjað,“ segir hún og hlær.

Á næstu misserum mun myndin verða sýnd víða og á mörgum hátíðum, meðal annars í Bandaríkjunum, Evrópu og Asíu. „Hún er að fara út um allt. Það verður prógramm í allt sumar og fleiri og fleiri að biðja um hana, sem er rosalega gaman. Það er svo frábært að vita að hún fái framhaldslíf,“ segir Helena að lokum.

Höf.: Anna Rún Frímannsdóttir