Bjarni Hansson fæddist 30. október 1928 og var skírður fullu nafni Bjarni Kristján Elías Hansson. Hann lést 29. janúar 2024. Útför fór fram 16. febrúar 2024.
Það er erfitt að kveðja góðan vin, þó háum aldri hafi náð þá virðist maður aldrei tilbúinn fyrir þessa hinstu kveðjustund. Sorgin er mikil og þung byrði að bera en ekki verður samt horft framhjá þeim forréttindum og þakklæti sem eru mér ofarlega í huga fyrir að hafa fengið að njóta samveru, samvinnu og ómetanlegs vinskapar hans Bjarna í gegnum lífið. Hann Bjarni varð mikill áhrifavaldur í mínu lífi og áttum við mörg sameiginleg áhugamál saman eins og sveitina okkar, dalinn, náttúruna, veiðina sem við stunduðum reglulega og áttum okkar gæðastundir saman við skotveiði og laxveiði, en einnig svo margt annað bæði við leik og störf í sveitinni.
Ég byrjaði ungur að árum að fara með Bjarna til veiða. Ávallt var það þó þannig að þegar til veiða átti að fara var Bjarni fyrstur að vakna, mæta og banka á hurðina hjá stráknum sínum því góðan tíma gat tekið að koma honum úr rúminu og skapið ekki alltaf upp á sitt besta svona snemma morguns og fannst mér stundum algjör óþarfi að leggja svona snemma af stað, maður myndi sko bara ekkert veiða neitt meira með því heldur væri betra að kúra aðeins lengur og mæta aðeins seinna með góða skapið, en bankið á hurðina hætti ekki fyrr en ég drattaðist fram úr og við lögðum af stað saman í laxveiðina sem við báðir elskuðum svo mikið. Nú er bankið á hurðina endanlega hætt og nú vaknar maður bara með minninguna góðu og reynsluna sem hann hefur skilið eftir sig, hana tekur maður með sér í sitt eigið ferðalag.
Bjarni var ávallt svo áhugasamur og hjálpsamur við öll störfin í sveitinni og vildi ekki horfa á aðra vinna og sjálfur sitja hjá, hann var alltaf þar sem hlutirnir voru að gerast, bæði af forvitni og hjálpsemi. Duglegur með afbrigðum var hann og handsterkur til verka. Hann elskaði að vera á dráttarvélinni jafnt til vinnu sem og þegar hann skrapp til veiða, þá var gott frelsi að skreppa á Zetor-vélinni sem komst nánast allt.
Sveitin og dalurinn var allt fyrir honum og þráði hann ekkert frekar en að vera í sveitinni þar sem honum leið best og ef hann var staddur á öðrum stöðum þá var hugur hans á Kirkjubóli og spurði ávallt frétta þaðan og af fólki sem var þá statt þar og hvernig staðan væri á þessu og hinu í dalnum og sveitinni.
Aldrei hugnaðist Bjarna ferðir til útlanda í frí að njóta sólar og hita, það var eitthvað of fjarri dalnum og heimahögunum. En hann hafði þó ávallt gaman af mannfögnuðum og þar sem gleði og gaman var eins og sagt er. Enda hélt hann nokkrar stórveislur á afmælum sínum þar sem fjöldi vina og ættingja fögnuðu með honum og urðu það eftirminnilegar veislur með miklum og glæsilegum veitingum og söng.
Eftir að ég kynntist eiginkonu minni sem Bjarni tók nú aldeilis vel á móti og þótti óstjórnlega vænt um þá fórum við stundum í ferðalög saman eins og í sumarbústaðaferðir og fleira sem gaf okkur öllum yndislegar minningar eftir frábærar samverustundir. Var sérstaklega gaman að fara með Bjarna á nýjar slóðir í ferðalög um landið í seinni tíma eftir að róast fór í sveitinni og búskap hætt.
Nú er komið að ferðalokum okkar Bjarna og langar mig að þakka fyrir allt það góða sem hann auðgaði líf mitt með og okkar fjölskyldunnar á Kirkjubóli og megi Guð blessa elsku vin okkar hann Bjarna alla tíð.
Þínir góðu vinir,
Einar Rúnar og Rowena.