Stýrivextir Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika vildi einn nefndarmanna í peningastefnunefnd lækka stýrivexti.
Stýrivextir Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika vildi einn nefndarmanna í peningastefnunefnd lækka stýrivexti. — Morgunblaðið/María
Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika vildi lækka stýrivexti Seðlabankans um 0,25 prósentustig fyrir vaxtaákvörðun bankans í byrjun febrúar. Aðrir nefndarmenn kusu með tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra og formanns nefndarinnar um að halda vöxtum óbreyttum

Gunnar Jakobsson varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika vildi lækka stýrivexti Seðlabankans um 0,25 prósentustig fyrir vaxtaákvörðun bankans í byrjun febrúar. Aðrir nefndarmenn kusu með tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra og formanns nefndarinnar um að halda vöxtum óbreyttum.

Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar sem birt var í gær. Stýrivextir eru nú 9,25% en þetta var þriðja vaxtaákvörðun nefndarinnar í röð þar sem ákveðið var að halda vöxtum óbreyttum. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Gunnar greiðir atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra en hann kaus í fyrra tvisvar gegn tillögum um hækkun vaxta.

Í fundargerðinni kemur fram að Gunnar taldi að aðhald peningastefnunnar væri nægjanlegt enda hefði dregið úr umsvifum í þjóðarbúskapnum. Einnig fæli nýleg þróun efnahagsmála, verðbólguhorfa og raunvaxta í sér vísbendingar um að komið væri að því að lækka vexti. Hann benti jafnframt á að raunvextir bankans hefðu ekki verið hærri síðan 2012 og allt benti til að þeir myndu hækka töluvert til viðbótar á næstu mánuðum. Rétt væri því að hefja lækkunarferlið en í litlum skrefum í ljósi þeirrar óvissu sem væri til staðar.

Í fundargerðinni segir jafnframt að nefndin hafi sammælast um að áhrif af auknu aðhaldi peningastefnunnar væru að koma hratt fram og líklega væri farið að nálgast vendipunkt væri enn þörf á háum raunvöxtum í hagkerfinu. Nefndarmenn töldu ánægjulegt að áhrif peningastefnunnar kæmu æ skýrar fram og að verðbólguhorfur hefðu batnað. Þó vildi nefndin sjá skýrari merki um hjöðnun verðbólgunnar, þar sem enn væri talsverð óvissa um marga lykilþætti í efnahagslífinu og verðbólga væri enn mikil.