Áhöfnin á Barða NK var meðal þeirra sem komu að leitinni að tveimur skipverjum færeyska línuskipsins Kambs sem sökk suður af Suðurey í Færeyjum 7. febrúar. Sextán voru um borð þegar Kambur fékk á sig brotsjó og lagðist á hliðina en aðeins tókst að bjarga fjórtán um borð í þyrlu.
Skipið Barði NK var á kolmunnaveiðum í færeyskri lögsögu þegar slysið átti sér stað. Leit hófst strax að týndu skipverjunum og fékk áhöfnin á Barða símtal frá færeysku landhelgisgæslunni um klukkan tvö eftir hádegið.
Þorkell Pétursson, skipstjóri á Barða, lýsir atburðarásinni á vef Síldarvinnslunnar. Hann segir veðrið hafa verið snarvitlaust um morguninn og telur ölduhæðina hafa verið um sex metra. Áhöfnin á Barða hífði strax eftir símtalið og hélt af stað á leitarsvæðið.
Þegar leit hafði staðið yfir um tíma bárust skilaboð frá breskri leitarflugvél um að athuga eitthvað sem hafði sést á floti í sjónum. Fundust þar tvö björgunarvesti og einn bjarghringur.
„Þessa hluti tókum við um borð. Að þessu loknu héldum við leitinni áfram og sáum töluvert af braki í sjónum. Fljótlega fengum við tilkynningu um að leitinni væri frestað fram í birtingu og þar með lauk þátttöku okkar í þessari leit.“
Leitin hélt áfram næstu daga en án árangurs. Eru sjómennirnir taldir af.