Jón Svavarsson
Jón Svavarsson
Lögregla hefur til meðferðar kæru um nauðgun á konu en bílstjórinn fær að starfa áfram, hefði hann verið ölvaður þá hefði hann verið sviptur ökuréttindum á staðnum

Jón Svavarsson

Leiguakstur er ein af þeim atvinnugreinum sem þrífast af eftirspurn, því leigubifreiðarstjórar hafa engin laun á meðan þeir bíða eftir næstu ferð sem er það eina sem greiðir þeim einhver laun. Margir halda að bifreiðarstjórar séu á launum hjá Hreyfli til dæmis en nei, þeir þurfa að greiða til Hreyfils, fyrir símaþjónustu, innheimtu reikninga, tækjaleigu og afnot af þvottahúsi, sem er þjónusta í sérflokki.

Síðastliðið ár hafa flætt inn á markaðinn svokallaðir „munaðarlausir leigubílar“ sem í flestum tilfellum eru erlendir innflytjendur sem tala ekki íslensku og jafnvel bara lítið í ensku ef nokkra. Auk þess rata þeir ekkert um og reiða sig á leiðsögukerfi sem stundum eru gloppótt. Þurfa farþegar þá að skilja þegar að þeim er ýtt leiðsögutæki eða farsíma til að setja inn heimilisfang? Þesslags þjónusta er ekki til fyrirmyndar og frekar lágkúruleg.

Hreyfill heldur uppi öflugri þjónustu fyrir „ferðaþjónustu fatlaðra og blindra“ auk þess sem mörg opinber og einkafyrirtæki reiða sig á trausta þjónustu þeirra allan sólarhringinn. Hjá Hreyfli er það skilyrði að bílstjórarnir tali íslensku og æskilegt að hafa vald á einhverjum fleiri tungumálum, auk þess er stór hópur þeirra með leiðsögumenntun að baki og getur farið með ferðamenn í skoðunarferðir um landið með stakri prýði.

Svo gerðist það að Alþingi Íslendinga hafði sig í að setja ný lög um leigubifreiðaþjónustu og í þeim lögum var fallið frá ýmsum skilyrðum og takmörkunum, sem kannski sum voru barn síns tíma, nema að felld var út fjöldatakmörkun á leigubifreiðum og ekki þurfti lengur að ávinna sér reynslu og þekkingu á leiguakstri og ekki er lengur skylda að vera skráður á afgreiðslustöð eins og t.d. Hreyfil eða BSR. Hvert á fólkið þá að leita? Á markaðinn hafa hrúgast upp „munaðarlausir leigubílar“ með mislélega þjónustu og að auki oftar en ekki hærri gjöld fyrir þjónustuna, hver sagði að samkeppni borgaði sig?

Án þess að fara út á þá hálu braut að skilgreina eftir þjóðernum þá er raunin sú að þeir erlendu skrá sig oftast ekki á neina afgreiðslustöð, á Hreyfli þurfa þeir nefnilega að tala íslensku, hvað sem öðrum kröfum líður. Þessir erlendu bílstjórar bítast um ferðir og dæmi eru um slagsmál til dæmis við Flugstöð Leifs Eiríkssonar á Keflavíkurflugvelli og jafnvel víðar. Siðir og almenn kurteisi fyrirfinnst ekki hjá þeim blessuðum og nú eru einhverjir þeirra með ákæru um alvarleg brot gagnvart konum, meint nauðgun er t.d. til meðferðar hjá lögreglu en samt fær bílstjórinn að starfa áfram. Hefði hann verið tekinn á ofsahraða eða undir áhrifum einhverra efna þá hefði hann verið sviptur ökuréttindum á staðnum. En, nei! Nauðgun er ekki svo alvarleg – eða hvað?

Með þessum nýju lögum eða öllu heldur ólögum er alvarlega vegið að atvinnubifreiðarstjórum og atvinnuöryggi þeirra ásamt þjónustustaðli við notendur en nú er mál að linni og Alþingi gyrði sig í brók og breyti þessum lögum í umhverfisvænna horf, erum við ekki alltaf að fjasa um umhverfi og öryggi?

Höfundur er leigubifreiðarstjóri, áhugamaður um greiðar samgöngur og flugmál.

Höf.: Jón Svavarsson