Gunnar Jóhannes Árnason fæddist í Reykjavík 27. nóvember 1959. Hann lést á líknardeild Landspítalans 10. febrúar 2024 eftir tveggja ára veikindi.

Foreldrar Gunnars voru Erla Cortes, f. 1939, d. 2006, og Árni Kristinsson, f. 1935. Þau skildu. Síðari kona Árna var Asta Marie Faaberg, f. 1935, d. 2017. Sambýliskona Árna er Sigríður Ásgeirsdóttir. Bræður Gunnars eru Kristinn Halldór, f. 1963 og Snorri Örn, f. 1970.

Eftirlifandi eiginkona Gunnars er Soffía Karlsdóttir, f. 1962. Foreldrar hennar eru Hulda Bjarnadóttir, f. 1932 og Karl Hans Björnsson, f. 1929, d. 1991. Gunnar og Soffía gengu í hjónaband árið 1992. Þau eiga þau þrjú börn: 1) Árna Frey, f. 1991, sambýliskona hans er Nína Hjördís Þorkelsdóttir, f. 1989, barn þeirra er Stígur, f. 2022. 2) Sunnefu, f. 1993, sambýlismaður hennar er Pedro Gunnlaugur Garcia, f. 1983. 3) Júlíu, f. 1999, sambýlismaður hennar er Adolf Smári Unnarsson, f. 1993.

Gunnar ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur en bjó í London á árunum 1963 til 1968.

Gunnar lauk stúdentsprófi frá MR árið 1978. Eftir það stundaði hann nám við nýlistadeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Á árunum 1981 til 1982 lagði hann stund á nám við School of Visual Arts í New York. Hann nam heimspeki við Háskóla Íslands árin 1983 til 1986 og var í framhaldsnámi í fagurfræði og heimspeki lista við Cambridge-háskóla á Englandi á árunum 1986 til 1990.

Frá árinu 1990 starfaði Gunnar sem listgagnrýnandi og sjálfstæður fræðimaður. Hann skrifaði um íslenska myndlist hérlendis og fyrir erlenda útgefendur. Auk þess kenndi hann heimspeki lista og fagurfræði við Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

Eftir Gunnar liggja fræðibækur og fjöldi greina á sviði myndlistar og heimspeki. Árið 2017 kom út bók hans Ásýnd heimsins – Um listir og fagurfræði í hugmyndaheimi nútímans. Þá var hann einn höfunda ritraðarinnar Íslensk listasaga sem Forlagið og Listasafn Íslands gáfu út árið 2011.

Gunnar gegndi trúnaðarstörfum fyrir Listfræðifélag Íslands og átti sæti í dómnefnd myndlistarverðlaunanna Carnegie Art Award á árunum 2008-2012.

Jafnhliða fræðimennsku og ritstörfum var Gunnar sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu, nú barna- og menntamálaráðuneyti, frá árinu 2004 þar til hann lést.

Útför Gunnars verður gerð frá Neskirkju í dag, 22. febrúar 2024, kl. 15.

Elsku pabbi.

Síðastliðin tvö ár hafa ekki verið auðveld. En þótt margar stundir hafi verið þungar eru svo ótal margar kærar minningar sem ég veit að munu aldrei hverfa mér úr minni. Eins og heimsókn ykkar mömmu til okkar í Berlín, þegar við fórum í Schaubühne og á sýrlenska veitingastaðinn með öllum smáréttunum. Þegar við sóluðum okkur úti á palli í Reykholti og hlustuðum á útvarpið. Eða þegar við grínuðumst í haustsólinni á líknardeildinni, þótt málið þitt væri nánast farið. Og þegar ég sat við rúmstokkinn þinn síðustu vikuna og við hlustuðum á uppáhaldsrokktónlistina þína – þegar þú réttir út höndina og deildir með mér þessu einstaka augnaráði. Þá þurfti engin orð til þess að skilja.

Þú kenndir mér svo margt. Ekki kenndirðu mér bara að tala, lesa og hjóla, heldur varstu alla mína ævi eins konar viskubrunnur. Þú kenndir mér að laga ofninn þegar hann fór að stíflast, þú kenndir mér að taka bensín, mála vegg og pumpa í dekk. Svo ertu klárasti maður sem ég hef nokkurn tíma þekkt. Ég gat alltaf komið til þín eða hringt í þig í minni forvitni og þú gast (eftir eitt dæs) svarað með mikilli þolinmæði og nákvæmni. Þótt spurningarnar hafi verið óskýrar og yfirgripsmiklar – eins og af hverju gerðist Hrunið eða geturðu sagt mér allt um Kant – voru svörin alltaf kristalskýr, pottþétt og hjálpleg. Mörg þessa svara eru svo sem ekki langt undan, ég gæti auðveldlega flett þessu upp í bókum þínum og skrifum, en að heyra þau koma frá þér er eitthvað sem ég mun alla tíð sakna.

Því verður seint gleymt hversu æðrulaus og sterkur þú varst í gegnum allt ferlið. Sterkari en við öll til samans. Brosmildur og hláturgjarn allt fram að síðustu stundu. Og þótt ég viti að þú hafir ekki deilt sömu hugmyndum um eftirlífið, þú mikli heimspekingur, þá veit ég að þú ert þarna einhvers staðar. Kannski að ræða málin við Kirkegaard eða Hegel, kannski að heimsækja öll framandi löndin, kannski bara hérna í stofunni með okkur að púsla. En ég hlakka til að deila með þér sigrum mínum. Ég hlakka til að fagna með þér áföngum og deila með þér tímamótum. Því ég veit að þú munt alltaf verða til staðar til þess að fylgjast með. Og ég veit að þú verður stoltur af mér. Ég veit að þú ert stoltur af mér.

Ég elska þig pabbi minn.

Góða ferð.

Þín

Júlía.

Þó svo lengi hafði verið vitað að hverju stefndi var það áfall þegar fréttist að Gunnar, vinur okkar til meira en hálfrar aldar, væri látinn. Vonin um kraftaverk var endanlega úti.

Á yngri árum var margt brallað í vinahópnum og samheldnin mikil. Þá strax kom í ljós hve listhneigður Gunnar var og hugsunin háleit. Það var oft farið heim til hans eftir skóla til að hlusta á nýjar vínilplötur og fjölbreytnin var mikil, spannaði flestar tegundir frá þýskri raftónlist til þungarokks og frá vestrænu og arabísku poppi til klassískrar og nútímatónlistar. Við komum okkur líka upp aðstöðu til að framkalla og stækka ljósmyndir. Við þau myrkraverk var bryddað upp á mörgum listrænum tilraunum. Sem betur fer er lítið til af þeim. Helgarnar voru líka vel nýttar. Farið var í sumarbústaði og tjaldferðir, eða bara hangið í borginni.

Þær voru margar listsýningarnar sem Gunnar dró okkur á. Þó svo margt eftirminnilegt hafi verið að sjá á sýningunum var það sennilega mesta upplifunin að fara með honum og sjá hvernig hann skoðaði sýningar. Myndlist var ekki aðeins fyrir augu, heldur líka huga. List hafði oftar en ekki boðskap.

Eins og gengur og gerist fór samvistunum að fækka eftir því sem árin liðu. Hver valdi sér ævistarf á sínu sviði og Gunnar var langdvölum erlendis við nám. Við tók að stofna fjölskyldur og byggja framtíðarheimili yfir þær. En þó að við hittumst sjaldnar en áður var vináttan óskert. Þá kom í ljós að grallaraskapurinn hafði allavega ekki elst af öllum. Við reyndum að koma á reglulegum spilakvöldum, en sáum fljótt að okkar biði lítill frami við spilaborðið enda leystust þau oft fljótlega upp í djúpvitrar umræður um heimsmálin eða upprifjanir á eldri uppátækjum. Þá var mikið hlegið, en lítið spilað.

Gunnar setti spor sín á samtíðina. Kenndi víða, hélt marga fyrirlestra og ritaði fjölda greina. Eftir Gunnar liggja veglegar fræðibækur sem halda munu minningu hans á loft um langa framtíð.

Fráfall Gunnars skilur eftir tómarúm í hugum okkar. Það er þó ekki tómt heldur er þar flögrandi fjöldi minninga um góðan vin sem lifa munu með okkur svo lengi sem við drögum andann.

Soffíu eiginkonu Gunnars og börnum, föður hans Árna Kristinssyni og bræðrum Gunnars vottum við innilega samúð um leið og við þökkum fjölmargar ánægjustundir.

Jón Bragi og Ásgeir.

Við kveðjum Gunnar J. Árnason mág okkar með þungum söknuði en um leið þakklæti fyrir allar glaðar og góðar stundir. Lífið er núna allt fátæklegra eftir að Gunnar er horfinn. Í minningunni er hann ómissandi hluti af öllum helstu gleðistundum okkar. Þegar fagnað var afmælum, jólum eða efnt til uppákoma með börnum okkar, nú eða tekið í spil, var hann alltaf fremstur í flokki.

Vitað var um nokkurt skeið að hverju stefndi. Veikindi Gunnars voru þess eðlis. Hann virtist þó hafa minni áhyggjur af því en aðrir. Var ekki að bera áhyggjur sínar á borð fyrir aðra.

Gunnar var fagurkeri fram í fingurgóma. Hafði mikinn myndlistaráhuga. Eftir hann liggja mikil og merkileg skrif um íslenska myndlist og myndlistarsögu. Átti auðvelt með að greina og lýsa með orðum listsköpun gömlu meistaranna, enda sprenglærður listheimspekingur. Listfengi hans kom fram á mörgum öðrum sviðum. Hann var einstakur matgæðingur sem eftir var tekið og alltaf tilhlökkun að koma í heimsókn. Þá hafði Gunnar galdrað fram framandi rétti jafnt frá Marokkó sem Mexíkó. Fjölskyldulífið bar merki fagurkerans. Þau Gunnar og Soffía, systir okkar, voru samstiga á öllum sviðum, ekki síst í tónlistar- og menningaráhuga sínum. Árangurinn sést best í börnum þeirra þriggja, Árna Frey, Sunnefu og Júlíu. Öll tónsnillingar og listfeng með afbrigðum.

Gunnar var hávaxinn og bar með sér reisn, hæversku og góðan þokka. Hann var vel að sér á öllum sviðum, hvort sem voru heimsmál eða heimilishald, tækni, tölvur eða tískufyrirbrigði, menntamál eða matargerð. Samræður við Gunnar voru alltaf innihaldsríkar og alltaf varð maður margs vísari eftir að hafa lent á spjalli við Gunnar. Við sjáum Gunnar fyrir okkur sumarlegan í ljósum hörjakkafötunum með ljósan hatt á höfði, eins og suðrænan herramann á sólardegi.

Við vottum Soffíu og börnum þeirra Gunnars okkar dýpstu samúð. Hvíldu í friði elsku Gunnar.

Ásta, Emil B., Harpa
og Björn Karlsbörn.

Góður vinur og félagi er fallinn frá langt fyrir aldur fram. Hann mætti örlögum sínum í þeim anda sem hann lifði, yfirvegaður, einarður og ákveðinn. Okkur félögunum sem höfum þekkt hann frá unglingsárum kom saman um að það sem einkenndi Gunnar vin okkar væri hógværð á flest er að honum sneri. Hann var einstaklega vel að sér um menningu, heimspeki og listir en stærðfræði og tölvunarfræði voru honum einnig hugleiknar og fátt stóðst honum snúning sem hann lagði fyrir sig, fjölmenntaður hugvísindamaður, gegnheill og sannur.

Við höfum haft þann sið félagarnir að hittast ávallt um áramót og gleðjast yfir nýju ári. Þennan sið tókum við upp eftir að hafa risið sem einherjar að morgni gamlársdags 1977 heima hjá Gunnari og byrjað daginn á því að tæma ísskáp hans af vistum. Okkur fannst þetta svo ágæt veisla að ákveðið var að gera hana að árlegum viðburði. Þótt háskólanám heima og erlendis hafi fækkað veislugestum á 9. áratugnum var alltaf hist þótt einhvern vantaði, enda vitað að sá myndi skila sér fyrr eða síðar. Nú er hins vegar höggvið skarð í hópinn sem ekki verður fyllt.

Einhvern tímann á þessum árum datt okkur í hug að gaman væri að hefja krokketleik til vegs hér heima og fjárfestum í alvöru krokketsetti í Bretlandi. Síðan var stofnað Krokketfélag Reykjavíkur og efnt til Íslandsmóts sem haldið var árlega um árabil. Gunnar var sá síðasti er hampaði titlinum og kveður okkur því sem ríkjandi Íslandsmeistari í krokket. Þótt krokketleikjum hafi fækkað hefur vinahópurinn ávallt kennt sig við Krokketfélagið og viðburðir á okkar vegum haldnir í nafni þess.

Önnur hugmynd sem hrint var í framkvæmd snemma á 10. áratugnum var að stofna málfundadeild Krokketfélagsins og hittumst við reglulega og fólum einum í hópnum að undirbúa fyrirlestur og stýra umræðum. Þetta reyndist hin besta skemmtun og urðu umræður oft ansi líflegar. Þar sýndi Gunnar á sér hlið hins varkára en staðfasta vísindamanns, gaf ekkert eftir af sannfæringu sinni, skaut hiklaust niður illa grundaðar fullyrðingar og naut þess innilega að taka þátt í þessum rökræðum. Vorum við félagar sammála um að hann hefði oftar rétt fyrir sér en við hinir. Hann bauð einnig upp á hvað fjölbreyttust umræðuefni og hafði lítið fyrir að efna í fyrirlestur um hvaðeina sem okkur datt í hug að ræða.

Þegar fjölskyldur okkar fóru að stækka breyttust áherslur og var efnt til sumarferða og fjölskyldurnar kynntust, börn og eiginkonur.

Undanfarin ár hefur fuglafræðideild Krokketfélagsins farið á hverju vori til fuglatalningar í Skagafirði og hefur það orðið að skemmtilegri samveru úti í náttúrunni.

Gunnar var mikill fjölskyldumaður og börnin þeirra Soffíu og Gunnars, þau Árni Freyr, Sunnefa og Júlía, eru einstaklega vel gerð og góðar manneskjur. Þeirra missir er mestur og vottum við þeim okkar innilegustu samúð. Minningin um góðan dreng lifir.

Árni Leifsson, Arnór Guðmundsson, Friðrik Diego, Hávar Sigurjónsson, Magnús Ingi Óskarsson og Þórður Kristjánsson.

Það liðu um tvö ár frá því Gunnar greindist með krabbamein þar til hann var allur. Þetta var sársaukafullur tími en líka dýrmætur. Með sínum sterka persónuleika og æðruleysi hélt Gunnar sinni reisn allt til enda. Þar naut hann líka sambandsins sem hann hafði ræktað við Soffíu, sem stóð eins og klettur við hlið hans, og börnin þeirra þrjú. Gunnar var ætíð dulur á sjálfan sig, sínar tilfinningar og innri þanka en afstaða hans fór yfirleitt ekki á milli mála. Jafnvel undir lokin þegar hann var hættur að geta tjáð sig með orðum sagði látbragðið allt sem segja þurfti og maður skildi hvar hans hugur stóð.

Í bók sinni, Ásýnd heimsins, velti Gunnar fyrir sér spurningum um list og stöðu hennar í samtímanum. Eftir að hafa farið yfir helstu hugmyndastrauma heimspekilegrar fagurfræði í nútímanum er niðurstaða hans sett fram á hógværan en vel rökstuddan hátt og helstu línur greindar. Þetta var einkennandi fyrir Gunnar. Hann aflaði sér ítarlegrar þekkingar á viðfangsefnum sínum og greindi þau af heimspekilegri nákvæmni. En hann var líka handgenginn leitinni að fegurðinni og leitaðist við að lifa hana.

Leiðir okkar lágu saman í vinahópi sem myndaðist í lok menntaskólaáranna og síðar urðum við samstarfsmenn í menntamálaráðuneytinu. Mér er minnisstætt þegar við Gunnar unnum saman á mats- og greiningarsviði og ákváðum að gefa út fréttir á föstudögum. Hann kom þá yfirleitt með tölur sem við ræddum og lögðum út af. Tölur geta verið pólitískar og það varð mitt hlutverk að finna málamiðlanir milli greinandans Gunnars og yfirstjórnar ráðuneytisins. Tókumst við þá oft harkalega á þegar rökvísi og rík réttlætiskennd Gunnars rakst á önnur sjónarmið.

Gunnar sóttist ekki eftir frama í ráðuneytinu. Til þess hefði hann þurft að gera of margar málamiðlanir og ganga á sína sannfæringu. Hugur hans stóð til annarra ferða; heimspekiiðkunar, kennslu í Listaháskólanum og að njóta lista og menningar. Hann skapaði sér rými þar sem hann gat fengist við það sem honum fannst skipta máli og gáfur hans og hæfileikar nýttust. Þekking hans og röklegir hæfileikar komu sér vel í ráðuneytinu við greiningu á málefnum og lögðu oft mikilvægan grunn að stefnumótun.

Sem vinur og félagi var Gunnar vakandi uppspretta vangaveltna um lífið og tilveruna, menntun og menningu. Betri og fróðari viðmælandi var vandfundinn. Húmorinn var aldrei langt undan og umhyggjan fyrir velferð annarra alltaf rík. Fjölskyldan var honum hjartfólgin og mörg voru þau ferðalögin sem hann og Soffía tókust á hendur.

Í skrifum sínum um listheimspeki lýsir Gunnar heimsmynd fyrri alda þar sem fegurðarinnar var leitað í æðri tilveru handan mannlegrar reynslu. Nútíminn leysti upp þessa sýn á hlutverk lista og skildi okkur eftir á byrjunarreit. Þökk sé lífi Gunnars og því sem hann gaf höfum við sem eftir lifum fengið aukið veganesti til að takast á við stóru lífsspurningarnar.

Við Helga vottum Soffíu og börnum þeirra Gunnars okkar innilegustu samúð.

Arnór Guðmundsson.

Gunnar kom að mig minnir inn í tíu ára bekkinn minn í Melaskóla, nýfluttur heim frá Englandi með fjölskyldu sinni. Hæglátur drengur með fágaða framkomu og féll strax inn í hlutverk enska herramannsins í skólaleikritinu þann veturinn.

Við áttum samleið á vegferð okkar til menntunar og þroska. Í MR fengu listrænir hæfileikar Gunnars að njóta sín og átti hann myndskreytingu við ljóð chileska skáldsins Pablos Neruda í Skinfaxa, blaði Málfundafélagsins Framtíðarinnar, í febrúar 1977. Ljóðið sótti umfjöllunarefni sitt til borgarastríðsins á Spáni á fjórða áratug tuttugustu aldar. Mynd Gunnars hæfði efninu einkar vel, skírskotaði til frægrar ljósmyndar Roberts Capa af blóðvellinum.

Merkilegt hvernig lífið fer í hringi og bítur í skottið á sjálfu sér, en við Gunnar urðum síðar samstarfsfélagar í menntamálaráðuneytinu. Þar fékkst hann við margs slags greiningar og framsetningu upplýsinga um menntun landsmanna. Hann hafði lag á að setja hlutina fram með hætti sem kom jafnvel innvígðum á óvart og renndi stoðum undir nýjan skilning á viðfangsefninu. Hann hafði sig lítt í frammi, en kom verkum sínum áreynslulaust á framfæri, sami hægláti herramaðurinn og hann var á fyrstu árum okkar í Melaskóla.

Það mun hafa verið á síðasta ári okkar saman á þeim vinnustað að mér auðnaðist að grafa upp frumgerð teikningarinnar góðu úr Skinfaxa og afhenti Gunnari. Ég er ekki frá því að það hafi glatt þennan gæflynda öðling, vottaði fyrir ánægjubrosi og ýtti við gamalli minningu.

Frá eru fallnir báðir snillingarnir sem áttu teikningar í Skinfaxa 1977. Hinn listamaðurinn, Pálmi Guðmundsson, andaðist fyrir rúmu ári. Við skólasystkin hörmum ótímabær andlát þeirra beggja.

Ég kveð góðan félaga með söknuði og flyt ástvinum hans samúðarkveðju mína.

Ólafur Grétar
Kristjánsson.

Kveðja frá samstarfsfólki í mennta- og barnamálaráðuneytinu.

Við fráfall Gunnars J. Árnasonar minnumst við trausts samstarfsfélaga og góðs drengs sem nú er genginn allt of snemma. Með honum fer mikil þekking og reynsla sem var grunnur að úrlausn margs konar viðfangsefna í ráðuneytinu. En við söknum ekki síður anda heimspeki, djúprar hugsunar og þægilegrar nærveru og félagsskapar til fjölda ára þar sem oft var stutt í kímni og glettni.

Gunnar hóf upphaflega störf í mennta- og menningarmálaráðuneytinu við verkefni um upplýsingatækni í menningarmálum á þróunarsviði ráðuneytisins skömmu eftir aldamótin. Þar naut þekking hans á listum og menningarmálum sín vel en fljótlega komu hæfileikar hans í greiningu og meðferð gagna einnig í ljós. Hann varð smám saman lykilmaður í að vinna með gagnasöfn, greina töluleg gögn og standa skil á upplýsingum innanlands og til alþjóðlegra stofnana. Var hann frumkvöðull í að sækja gögn í ólíka gagnagrunna, setja saman ný gagnasöfn og greina. Oft kom hann fram með mikilvægar upplýsingar sem nýttust við stefnumótun. Hægt var að ganga frá því sem vísu að tölur og greiningar frá honum stæðust alla skoðun.

Frá 2006-2015 var hann sérfræðingur á mats- og greiningarsviði sem vann þvert á ráðuneytið að mati á skólastarfi og öflun og greiningu gagna um mennta- og menningarmál. Síðar fór Gunnar til starfa á fjármálasviði ráðuneytisins þar sem hann hélt áfram að vinna með töluleg gögn vegna stefnumótunar, fjárlagagerðar og alþjóðlegs samstarfs en hann fylgdist afar vel með alþjóðlegum mælikvörðum, straumum og stefnum. Hann tók þátt í ýmsum stefnumótunarverkefnum á vegum ráðuneytisins og þar nýttust afburðagreiningarhæfni hans og rökhugsun vel. Hann kynnti sér vel þau málefni sem til umfjöllunar voru og hafði lag á því að spyrja gagnrýnna spurninga.

Gunnar var rólegur maður, hógvær og kurteis, bjó yfir góðu jafnvægi og haggaðist lítið þegar á ýmsu gekk í ráðuneytinu. Hann var virkur í ýmsu sem starfsmenn tóku sér fyrir hendur utan vinnutíma. Minnisstætt er þegar hann tók þátt í að skipuleggja menningarferðir fyrir starfsfólk með heimsóknum í vinnustofur listamanna og aðra viðburði. Þar kom ástríða hans fyrir listum og menningu vel fram. Einnig eru minnisstæðar ýmsar gönguferðir með samstarfsfólki í ráðuneytinu um náttúruperlur hálendisins, t.d. á Fjallabakssvæðinu og í Kerlingarfjöllum. Fjölskylda Gunnars tók stundum þátt í ferðunum og þeim fylgja ljúfar minningar sem lifa.

Við vottum Soffíu konu Gunnars og börnum þeirra okkar dýpstu samúð. Minning um góðan og hlýjan mann og félaga lifir.

Erna Kristín Blöndal
og samstarfsfólk og vinir í ráðuneytinu.

Við minnumst Gunnars J. Árnasonar með þakklæti í huga. Hann var góður félagi okkar á fagsviðum sem snertast og næra hvert annað, myndlist, listfræði og heimspeki. Hann bjó ekki aðeins yfir fræðilegri þekkingu á heimspeki listanna heldur hafði hann einnig lagt stund á myndlistarnám áður en hann sneri sér að heimspeki og hafði því óvenju góða innsýn í viðfangsefni listheimspekinnar. Þessi innsýn í heim myndlistarinnar birtist í kennslu hans við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og síðar, eftir nokkurt hlé, við Listaháskóla Íslands, en einnig og kannski ekki síður í ritsmíðum hans. Um áraraðir skrifaði hann greinar og gagnrýni um myndlist sem birtust á síðum dagblaða landsins, auk fjölmargra kafla í bækur og sýningarskrár, þar sem hann miðlaði skilningi sínum á hinum heimspekilegu víddum í myndlist samtímans. Þá er ótalin bók hans, Ásýnd heimsins: Um listir og fagurfræði í hugmyndaheimi nútímans (2017), þar sem helstu fagurfræðikenningar nútímans eru settar fram á aðgengilegu máli.

Gunnar var í fyrstu stjórn Listfræðafélags Íslands, sem stofnað var 2009, og var óþreytandi við að koma félaginu formlega á laggirnar og skipuleggja starfsemina svo að félagið gæti dafnað. Það var auðvelt að hrífast af djúpum skilningi hans og skörpum og frumlegum athugasemdum, bæði í mæltu og rituðu máli. Í verkum hans fór saman innsæi, vandvirkni og virðing fyrir viðfangsefninu. Í samstarfi var hann hvers manns hugljúfi og kunni vel þá list heimspekinnar að rökræða til gagns. Það er mikill missir fyrir fræða- og listsamfélagið að hans njóti ekki við lengur.

Um leið og við kveðjum góðan félaga vottum við fjölskyldu Gunnars J. Árnasonar innilega samúð.

Aðalheiður Lilja Guðmundsdóttir, Gunnar Harðarson, Jóhannes Dagsson, Margrét
Elísabet Ólafsdóttir.

Traustur, hógvær og heilsteyptur. Þessi orð koma upp í hugann þegar Gunnari Árnasyni er lýst.

Gunnari og Soffíu konu hans kynntumst við þegar börn okkar, Árni Freyr og Nína Hjördís, hófu að feta lífsstíginn saman. Fyrstu fundir okkar voru matarboð með krökkunum, þar sem Gunnar töfraði fram framandi rétti.

Alltaf var gaman að koma á fallega heimilið þeirra Gunnars og Soffíu. Þar var listin í hávegum höfð í ýmsum myndum. Gunnar hafði afar þægilega nærveru og gaman var að spjalla um heima og geima. Hann var mjög fróður og vel lesinn. Gunnar og Soffía ferðuðust víða, oft til fjarlægra staða. Oftar en ekki voru krakkarnir með, enda fjölskyldan mjög samrýnd.

Þegar Nína okkar og Árni ákváðu að flytja heim frá Englandi hjálpuðumst við foreldrarnir að við að mála nýju íbúðina þeirra og áttum góða kvöldstund við vinnu, spjall og pítsu. Þar kom í ljós að Gunnar var liðtækur og útsjónarsamur í framkvæmdum.

Gleði okkar allra var mikil þegar við eignuðumst barnabarnið Stíg fyrir tveimur árum. Það er þungt að hugsa til þess að Stígur og Gunnar afi fái ekki að njóta lengri samvista.

Eftir Gunnar liggja fjölmargar greinar og bækur um myndlist og heimspeki, auk myndlistargagnrýni í ýmsum miðlum. Lífsstarf hans var gjöfult og arfleifðin fögur, en aldrei barst hann á, enda hógvær og lítillátur.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama.

En orðstír

deyr aldregi

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Að leiðarlokum þökkum við Gunnari fyrir samfylgdina, hans verður sárt saknað. Fjölskyldunni vottum við einlæga samúð.

Kolbrún Anna Jónsdóttir og Ólafur Hand.

Gunnar Árnason var einstaklega vandaður maður, uppbyggilegur í samskiptum, opinn, leitandi og fordómalaus könnuður, en um leið gagnrýninn rýnandi, alltaf tilbúinn að grípa boltann á lofti. Gunnar lét gott af sér leiða á upplífgandi hátt fyrir alla sem voru svo heppnir að kynnast honum, og ég var einn af þeim.

Leiðir okkar Gunnars lágu saman án nokkurs fyrirvara í New York, þar sem við vorum báðir í listnámi, þegar við vorum enn á þeim aldri að heimurinn birtist sem leikvöllur hugmynda og möguleika. Drjúgan part úr vetri leigðum við saman íbúð í heimsborginni, þar sem hver dagur reyndist vera nýtt ævintýri óvæntrar upplifunar og sköpunar. Enda þótt skólarnir hefðu upp á margt að bjóða reyndust samræðurnar yfir matnum, kaffibolla eða bjórglasi vera sá úrvinnsluvettvangur sem tók skólunum fram á mörgum sviðum, og þá var oft nokkrum guðum boðið til sætis; Gilles Deleuze, Roland Barthes, Ludwig Wittgenstein, ásamt óteljandi hálfguðum úr listageiranum, og Michel Foucault sem gjarnan var í hlutverki Seifs og Óðins á þessum árum í meðvitaða hluta borgarinnar sem aldrei sefur. Í þessum málstofum, oft í góðra vina hóp, reyndist Gunnar á heimavelli, hrókur alls fagnaðar og kviknaði þá oft á listamanninum og fagurfræðingnum á flugi með haukfrán augu hinnar gagnrýnu sýnar.

Við Gunnar komumst smám saman að þeirri niðurstöðu að jafnvel guðir og hálfguðir hafa fæðst og fræðst af öðrum guðum og þess vegna ákváðum við að vænlegasta framhaldið væri að banka upp á í heimspekideild Háskóla Íslands. Þar opnaðist nýr akur undir bláum himni. Fræ, sáning og uppskera, allt frá botni Miðjarðarhafs og nýja heiminum til norðurhjarans, frá fornöld til samtímans. Á þessum akri birtist Þorbergur Þórsson eins og heimamaður, og hver vinnudagur reyndist öðrum styttri. Tími samræðu og hugleiðinga um eðli heimsins, tungumálsins og listarinnar var á þessum árum ekki mældur í mínútum, klukkutímum eða dögum. Það sem eftir var af tuttugustu öldinni var fátt eitt brallað sem varðaði skapandi vinnu, hvort heldur um var að ræða sýningar, hönnun, kennsluhætti, gagnrýni og greiningu eða torfskurð, að Gunnar Árnason væri ekki á staðnum með yfirvegaða sýn á það sem var í deiglunni.

Einhvern veginn atvikaðist það þannig að eftir því sem líða fór á tuttugustu og fyrstu öldina hittumst við Gunnar æ sjaldnar; þau ár þegar tíminn var endalaus voru liðin. Ég þakka þó innilega fyrir þau ár þegar við köstuðum á milli okkar boltanum undir bláum himni.

Hannes Lárusson.

Ég kynntist Gunnari þegar við vorum ungir. Gunnar var eldri. Hann var myndarlegur, hávaxinn, teinréttur, grannur og bar sig vel. Hann var líka yfirvegaður í fasi. Gunnar var ekki framfærinn, eiginlega hlédrægur en hafði gott skopskyn og gat verið glaðvær.

Við vildum tileinka okkur heimspeki. Sú grein tengdi okkur en ekki síður áhugi okkar á listhræringum samtímans. Hann var nýkominn úr veturlangri dvöl í New York með Hannesi Lárussyni myndlistarmanni. Þar voru þeir báðir að læra myndlist. Um langt skeið hefur borið á hástemmdri og torskiljanlegri umræðu um listir hjá myndlistarkennurum og þeir félagar töldu nauðsynlegt að læra heimspeki til að geta lag mat á slíkan málflutning. Og þá kynntist ég þeim. En ég kom úr allt annarri átt.

Við Gunnar áttum samt báðir rætur í Vesturbænum. Þar bjuggu föðurömmur okkar nánast í sama hverfi. Gunnar og Kristinn bróðir hans bjuggu í húsi ömmu sinnar á Sólvallagötunni. Ég man ekki vel eftir henni en kom samt með Gunnari upp til hennar í einhver skipti. Mér hafa alltaf verið minnisstæðar svarthvítar myndir í römmum á veggjum í stofunni, þetta voru ljósmyndir af styttum sem grískir listamenn gerðu fyrir 2.000 til 2.500 árum. Mér finnst að þarna hafi verið myndir af Afródítu og Sókratesi og kringlukastaranum og líklega fleiri myndir. Ég varð hrifinn af þessum myndum. Mér hefur alltaf fundist þessar svarthvítu myndir lýsandi fyrir jarðveginn sem Gunnar spratt úr. Hann var alinn upp í mjög menningarlegu umhverfi og þess sá alla tíð stað í fasi hans og viðhorfum. En ekki er hægt að segja annað en að það hafi verið mikill munur á andblæ svarthvítu ljósmyndanna í kyrrlátri stofunni á hæðinni og á pönktónlistinni sem þeir Gunnar og Kristinn spiluðu stundum niðri í kjallara. Reyndar spiluðu þeir ekki síður klassíska tónlist. En pönktónlistin var glæný underground-tónlist. Öll tónlist var auðvitað spiluð af plötum, kannski litlum singles-plötum og af segulböndum. Þessi tónlist kom í ferðatöskunni frá New York, en þar dvöldu þeir báðir, hvor í sínu lagi, nokkuð við nám á þessum árum.

Gunnar var heimsmaður og áhugasvið hans var vítt, allt frá hinu forna Grikklandi til nútímasenunnar í myndlist, bókmenntum og tónlist. Og hann hafði sótt helstu listasöfn heimsins og drukkið myndlistina í sig.

Þrátt fyrir sameiginlegan áhuga okkar Gunnars á myndlist og heimspeki voru áherslur okkar ólíkar. Ég hafði af einhverjum ástæðum ekki áhuga á fagurfræði og ekki heldur á fræðum Hegels, sem þeir félagar, Gunnar og Hannes, mátu mikils.

Þegar námsárum lauk og annríki brauðstrits og fjölskyldulífs tók við dró úr sambandi okkar Gunnars, eins og svo oft gerist.

Fyrir nokkrum árum fékk ég svo loks áhuga á fagurfræði. Þá varð tilefni til að hafa samband við Gunnar. Við áttum fáein símtöl um þessi efni en svo var Gunnar orðinn veikur. Því miður varð ekkert úr að við hittumst eftir það.

Í mínum huga er bjartur ljómi yfir minningunni um þennan góða dreng. Það var lán að fá að kynnast honum. Ég vil votta allri fjölskyldu hans mína innilegustu samúð.

Þorbergur Þórsson.

Ekki man ég fyrir víst hvenær við Gunnar J. Árnason hittumst fyrst, en það er æði langt síðan og allt frá þeirri stundu áttum við einkar gefandi og farsælt samstarf – ræddum oft málin, skrifuðumst á í samtalsformi í löngum tölvupóstum og hann skrifaði fyrir mig sýningartexta með ófáum sýningum. Þetta skilaði sér í mikilli bók sem í mínum huga er góður vitnisburður um skilning Gunnars á myndlist og þá sérstaklega þeirra sem alla starfsævina hafa varla náð að gera það sjálfir. Nokkru síðar kom stóri ópusinn, ritgerðasafnið Ásýnd heimsins, sem alla jafna er stutt undan hjá mér og ég gríp oft til þegar ég vil koma mér á þvæling í hugmyndaheimi myndlistarinnar. Það er mikilvægt framlag til samræðu um listina og samfélagið sem hún sprettur úr.

Síðastliðið vor áttum við Gunnar saman góðan dagspart á sýningu minni allt er nálægt í galleríinu mínu í miðborginni. Hann var þá illa veikur, en á sinn hægláta hátt ræddi hann sig inn að kjarna sýningarinnar og lagði út af textaverkum á veggjunum um tímann og einkennilegar birtingarmyndir hans. Hann tengdi sterkt við hugmyndina um að lifaður tími, framtíðin sem við áttum, væri nú fortíðin sem við eigum í minningum okkar og verkum – hún væri að baki. Það hefur setið í mér æ síðan hvernig hann lagði út af hugmyndinni og af hve miklu æðruleysi, þakklæti og heilsteyptri sýn hann ræddi um eigið líf og fjölskyldu. Þrátt fyrir erfið veikindi var hann sáttur og velti því fyrir sér hverju hann hefði komið til leiðar í lífi og tíma annarra. Við hin vitum hvað það var og sjálfur kveð ég þennan góða vin með söknuði og virðingu og aðstandendum öllum sendi ég mínar bestu kveðjur.

Kristinn E. Hrafnsson.