Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson
Engin ný umferðarmannvirki í borginni eða aðgerðir til að bæta ástand gatnakerfis borgarinnar hafa séð dagsins ljós síðustu árin.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson

Áætlaður kostnaður við hinn margumrædda samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins frá 2019 var 160 milljarðar króna. Í sáttmálanum voru tiltekin verkefni sem áætlað var að ráðast í til að bæta samgöngur á höfuðborgarsvæðinu, sem eru nú þegar í algjörum ólestri eins og öllum má vera ljóst. Nú herma fréttir að kostnaður við fyrirhuguð verkefni stefni í a.m.k. 300 milljarða króna en endurskoðun á samgöngusáttmálanum, sem nú stendur yfir og kynna á innan skamms, muni væntanlega leiða í ljós nýjar kostnaðartölur.

Þetta verkefni er komið í þvílíkar ógöngur að erfitt verður að sjá fyrir sér að ríki og sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu hafi bolmagn til að ráðast í svo umfangsmiklar framkvæmdir á næstu árum. Meðal annars var áætlað að Sæbrautarstokkur myndi kosta tæpa þrjá milljarða króna en stefnir nú í að muni kosta um 24 milljörðum meira.

Sú framkvæmd, ein og sér, mun þar að auki engum árangri skila til að bæta samgöngur úr miðborginni til austurhluta borgarinnar og sveitarfélaganna sunnan borgarinnar. Hún er á hinn bóginn gott dæmi um framkvæmd sem má slá út af borðinu og spara fjármuni, sem mætti þá verja í önnur brýnni verkefni, eins og til dæmis á sviði öldrunarmála og leikskólamála. Auk þess myndi á framkvæmdatíma slíkrar mannvirkjagerðar, sem mun taka mörg ár, skapast algjört umferðaröngþveiti í borginni og er þá engu á bætandi í þeim efnum eins og staðan er í dag. Áætlað var að borgarlína myndi kosta 67 milljarða króna en stefnir nú í að minnsta kosti 126 milljarða. Arnarnesvegur átti að kosta að kosta rúma tvo milljarða króna en endar sennilega í átta milljörðum. Fossvogsbrú hefur fjórfaldast í verði og gæti endað í fimmtán milljörðum króna. Mislæg gatnamót á Bústaðavegi og Reykjanesbraut eru nauðsynleg en þeirri framkvæmd hefur meirihlutinn algjörlega hafnað enda búa flestir borgarfulltrúar meirihlutans vestan Reykjanesbrautar.

Óviðunandi

Allar þær stórkarlalegu framkvæmdir sem rætt hefur verið um að ráðast í á höfuðborgarsvæðinu eru svo langt inn í framtíðina að þær munu í engu bæta það ófremdarástand og ógöngur sem einkenna umferðarmál borgarinnar í dag. Ástandið í umferðarmálum í Reykjavík er nú með þeim hætti að það er algjörlega óviðunandi.

Engin ný umferðarmannvirki eða aðgerðir til að bæta ástand gatnakerfis borgarinnar hafa séð dagsins ljós síðustu árin og meirihlutinn í borginni hefur tafið fyrir verkefnum og jafnvel unnið frekar að aðgerðum í gatnamálum, sem gerir umferðina erfiðari og flóknari.

Það þarf ekki 160 milljarða króna, hvað þá 300 milljarða, til að gera ástandið í samgöngumálum bærilegra fyrir íbúa á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir þá milljarða, sem nú er áætlað að samgöngusáttmálinn muni hækka um frá upphaflegri áætlun, mætti gera kraftaverk í samgöngu- og umferðarmálum á höfuðborgarsvæðinu ef rétt er að málum staðið. Fátt bendir til að núverandi meirihluti í borginni valdi því verkefni.

Áætlanir voru ekki í lagi

„Áætlanir voru ekki í lagi,“ segir formaður stjórnar Betri samgangna, sem heldur utan um samgöngusáttmálann. Það er augljóst og algjörlega ábyrgðarlaust að hafa ekki brugðist við þeirri staðreynd fyrir löngu. Þær hækkanir sem hafa verið kynntar á einstökum stórverkefnum hljóta að verða til þess að kjörnir fulltrúar hugsi sig tvisvar um hvort ekki eigi að fresta einhverjum þeirra eða slá þær alveg út af borðinu. Lagning Sundabrautar yfir Kleppsvík ætti þó að vera í forgangi. Þar fyrir utan væri nær að horfa til skemmri tíma með smærri nauðsynlegar aðgerðir.

Sporin hræða

Mér segir svo hugur að samgöngumálin séu eitt helsta málið sem brennur á kjósendum í Reykjavík. Það er einungis rúmt ár til þingkosninga og rúm tvö ár til borgarstjórnarkosninga. Það er því eins gott fyrir stjórnmálaflokkana og frambjóðendur að hafa svör á reiðum höndum fyrir okkur kjósendur fyrr en síðar. Skattgreiðendur munu ekki láta bjóða sér lengur að hið opinbera fari í illa ígrundaðar framkvæmdir með áætlunum byggðum á sandi. Kostnaðurinn lendir jú á skattgreiðendum þessa lands. Sporin hræða.

Höfundur er fv. borgarstjóri.

Höf.: Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson