Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Í undirbúningi er að hefja gjaldtöku fyrir afnot af bílastæðum við höfnina í Stykkishólmi. Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi, segir að á góðum dögum yfir sumartímann sé algengt að 200-300 bílum sé lagt í nágrenni hafnarinnar og við Súgandisey. Á síðustu árum hafi bærinn lagt í talsverðan kostað við að bæta og byggja upp aðstöðu á hafnarsvæðinu. Slíkt hafi verið mikilvægt því allt að 300 þúsund manns komi á svæðið árlega. Margir séu þá að fara í siglingar með Breiðafjarðarferjunni Baldri, skemmtibátum sem fara út að eyjum og skerjum eða njóta náttúrunnar í Súgandisey.
„Framkvæmdir á þessum stað eru vissulega ekki skylduverkefni sveitarfélagsins. Við höfum hins vegar sett töluverða fjármuni í uppbyggingu á svæðinu. Því er í raun eðlilegt að sveitarfélagið leggi á hóflega þóknun sem lið í því að fjármagna verkefnið,“ segir Jakob Björgvin. Ýmsar leiðir bjóðast við innheimtu en vænta má að í Hólminum verði sett upp blandað kerfi með myndavéla- og greiðslukassa.
„Við erum að þoka þessu máli í gegnum bæjarkerfið einmitt þessa dagana. Stefnan er sú að gjaldtakan verði að veruleika strax í sumar,“ segir bæjarstjórinn.