Sveinn Óskar Sigurðsson
Sveinn Óskar Sigurðsson
Hér má lesa út e.k. „helstefnu heildsala“ gegn íslenskum landbúnaði og landsbyggðinni í heild sinni.

Sveinn Óskar Sigurðsson

Á vefsetri Félags atvinnurekenda (FA) segir: „FA er í stöðugri hagsmunabaráttu fyrir félagsmenn sína. Í ársskýrslunni okkar má sjá yfirlit um helstu baráttumál FA sem eru í deiglunni þessa stundina.“ Þá eru upp talin fjölmörg þjóðþrifamál og má þar m.a. nefna: Baráttu fyrir heilbrigðri samkeppni í sjóflutningum, baráttu gegn lyfjaskorti í boði ríkisins, baráttu gegn spillingu og samkeppnishömlum í farmiðakaupum ríkisins og annað sem rík samstaða getur ríkt um ár eftir ár. Barátta FA virðist ganga bærilega enda sýnir könnun að um 90% félagsmanna eru ánægð með störf félagsins í þeirra þágu.

Í frétt á framangreindu vefsetri FA kveður öndvert við annan tón. Þar segir: „FA benti á verðmun á blómum hér og í nágrannalöndunum, en gríðarháir tollar skýra hann að miklu leyti. Þá barðist félagið eindregið fyrir því að tollfríðindi fyrir vörur frá Úkraínu yrðu framlengd, en illu heilli höfðu sérhagsmunaöfl í landbúnaði betur og tollar voru á ný lagðir á vörur frá hinu stríðshrjáða vinaríki okkar.“ Er félagið FA ekki „sérhagsmunaafl“ heildsala?

Hér spilar FA á tilfinningarnar eins og „vönduðu“ byltingarafli sæmir. Þarna er ekki verið að huga að þeim viðkvæma gróðri sem hér á landi vex úr grasi. Látið er í veðri vaka að e.k. þróunaraðstoð í formi innflutnings á kjúklingi geti ekki endað sem skaði í rekstri fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi. Þetta kallar maður ómálefnalegan málflutning FA sem er bæði blekkjandi og ber hvorki vott um skynsemi né hyggjuvit þessa „sérhagsmunaafls“.

Í sömu frétt má lesa: „FA gagnrýndi stjórnvöld, skattinn og fjármálaráðuneytið harðlega fyrir stjórnsýslu þessara aðila er tollflokkun á pitsuosti var breytt vegna þrýstings frá hagsmunaaðilum i landbúnaði. Stjórnsýslan leyndi m.a. gögnum fyrir aðila máls, sem fer gegn stjórnsýslulögum, og fyrir dómstólum. Alþjóðatollastofnunin úrskurðaði að stjórnvöld hefðu tollflokkað vöruna ranglega.“

FA virðist hreinlega vinna gegn annarri atvinnugrein á Íslandi en þeirri sem flytur inn niðurgreiddar vörur að utan. FA þykir víst betur fara að fá afslátt úr hendi erlendra skattgreiðenda en innlendra þar sem leitast er við að gæta að jöfnuði við niðurgreiðslur sem innfluttar vörur njóta erlendis þar sem þær eru framleiddar. Vill FA leggja niður íslenskan landbúnað?

Einnig segir að FA hafi sent matvælaráðherra kröfu um að félagið fengi aðild að endurskoðun búvörusamninga hvað tollamál varðar. Segir í fréttinni að FA hafi fært rök fyrir því að ríkinu væri ekki stætt á að „semja við einkaaðila, Bændasamtökin, um að hækka skatta á öðrum einkaaðilum, innflytjendum búvöru, án aðkomu hinna síðarnefndu“. Hér má lesa út e.k. „helstefnu heildsala“ gegn íslenskum landbúnaði og landsbyggðinni í heild sinni. Er skynsamlegt að gæta hagsmuna félagsmanna FA með slíkum málatilbúnaði?

Það vita það allir sem versla á Íslandi að FA er að berjast fyrir hærra hagnaðarhlutfalli í rekstri innflytjenda. Það er látið í veðri vaka að innan FA sé rekin hagsmunabarátta fyrir neytendur. Svo er bara ekki. Væri svo má ekki reikna með 90% fylgi við baráttu félagsins enda sjást slíkar fylgiskannanir aðeins í Rússlandi, Norður-Kóreu og Kína um þessar mundir. Þessi málflutningur er ekki boðlegur og er beinlínis villandi.

Innan vébanda FA og í skjóli þess eru starfrækt a.m.k. fjögur ráð sem eru í e.k. viðskiptasamstarfi við félagið og teljast mikilvægir samstarfsaðilar. Ekki skal það dregið í efa. Þau eru Íslensk-kínverska viðskiptaráðið, Íslensk-indverska viðskiptaráðið, Íslensk-taílenska viðskiptaráðið og svo síðast en ekki síst Íslensk-evrópska verslunarráðið. Hefur FA komið því á framfæri við Kínverja hvers vegna í ósköpunum þeir styðji Rússa, bæði leynt og ljóst, í baráttu gegn Úkraínu í ljósi vilja FA til að auka innflutning þaðan svo styðja megi við baráttu þess ríkis gegn Rússlandi?

Nei, þetta snýr allt að hagsmunum. Þetta snýr allt að því hvort stjórn og starfsmenn FA haldi í 90% vinsældir. Það er gert með því að höggva í sama knérunn trekk í trekk án nokkurs vilja til að skilja íslenskan landbúnað, byggðamál og arðsemi til lengri tíma, fæðuöryggi og mikilvægi þess að tryggt sé að viðkvæm en mikilvæg atvinnugrein fái að þróast og dafna á Íslandi.

Um þessar mundir er umtalsverð þróun að eiga sér stað í íslenskum landbúnaði. Það dregur t.a.m. mikið úr opinberum stuðningi við mjólkurframleiðslu og unnið er markvisst að því að efla vöruþróun og mæta markaðnum með gæðavörum.

Til framtíðar er mikilvægt að tryggja rekjanleika og gæði á öllum þeim landbúnaðarvörum sem verslunin býður upp á hér á landi. Matarsvik eru umtalsverð um heim allan og eins og með aðra glæpastarfsemi mun Ísland ekki verða þar undanskilið frekar en önnur ríki. Mikilvægt er að FA, verslunin og Bændasamtökin vinni saman fyrir neytendur en stuðli ekki að ósanngjörnum og ómálefnalegum máflutningi sem uppfullur er af undirmálum og jafnvel fölskum fréttum.

Höfundur er BA í hagfræði og heimspeki, MBA og MSc í fjármálum fyrirtækja.

Höf.: Sveinn Óskar Sigurðsson