Víkingur „Þessir tónleikar voru upplifun og það er mín fjallgrimm vissa að þeir eiga eftir að vera greyptir í minni þeirra sem á hlýddu,“ segir rýnir.
Víkingur „Þessir tónleikar voru upplifun og það er mín fjallgrimm vissa að þeir eiga eftir að vera greyptir í minni þeirra sem á hlýddu,“ segir rýnir. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Harpa Víkingur leikur Goldberg-tilbrigðin ★★★★★ Verk eftir Johann Sebastian Bach. Víkingur Heiðar Ólafsson (einleikari á píanó). Tónleikar í Eldborg Hörpu föstudaginn 16. febrúar 2024.

Tónlist

Magnús Lyngdal Magnússon

Þessi [Goldberg-]tilbrigði eru þannig að þau eru mikilfenglegasta hljómborðsverk sögunnar og í mínum skilningi mikilfenglegasta tónverkið af því að þau eru svo þversagnarkennd. Þau eru mikilfenglegasti tónlistarstrúktúr sem ég hef séð.“ Þannig komst Víkingur Heiðar Ólafsson að orði í viðtali við Morgunblaðið hinn 14. febrúar síðastliðinn en tónleika hans í Hörpu 14., 16. og 18. febrúar var beðið með mikilli eftirvæntingu. Á efnisskránni voru einmitt Goldberg-tilbrigðin eftir Johann Sebastian Bach (1685-1750) og fylgir hann þannig eftir nýrri hljómplötu sem kom út hjá þýska forleggjaranum Deutsche Grammophon í fyrra. Víkingur ferðast nú um heiminn og leikur tilbrigðin, þar á meðal fyrir skemmstu í Norður-Ameríku þar sem hann fór mikla sigurför og hlaut mikið lof gagnrýnenda vestra. Raunar hlaut hljóðritun hans á Goldberg-tilbrigðunum líka lofsamlega dóma, nánast alls staðar þar sem ég hef séð, og það ríkti því spenna í Eldborgarsal Hörpu föstudagskvöldið 16. febrúar, það er að segja daginn sem undirritaður sá Víking Heiðar leika. Löngu uppseldum fyrstu tónleikunum í seríunni (14. febrúar) var líka sjónvarpað víða og mæltust þeir vel fyrir.

Bach samdi Goldberg-tilbrigðin árið 1741, þá 56 ára gamall, og voru þau eitt tiltölulega fárra verka tónskáldsins sem komu út á prenti meðan Bach lifði. Verkið var samið fyrir, tileinkað og kennt við Johann Gottlieb Goldberg (1727-1756), ungan nemanda Bachs. Um er að ræða alls þrjátíu tilbrigði með aríu sem leikin er á undan og á eftir (da capo) flutningi tilbrigðanna.

Ég var mjög hrifinn af hljóðritun Víkings Heiðars á tilbrigðunum fyrir Deutsche Grammophon og í dómi í Morgunblaðinu hinn 2. nóvember 2023 komst ég meðal annars svo að orði að í túlkun Víkings Heiðars byggi nokkurs konar frásögn, það er að segja að hann væri að segja hlustendum frá einhverju með leik sínum og drægi því upp eins konar „mynd“: „Sú mynd er einmitt afar sannfærandi; verkið myndar heild sem einkennist af útskotum hér og þar eða einhvers konar krókum og kimum sem Víkingur rannsakar gaumgæfilega – aldrei þó á kostnað heildarinnar.“ Ég var því spenntur að heyra lifandi túlkun Víkings Heiðars en fram að tónleikunum í Hörpu hafði hann leikið Goldberg-tilbrigðin á tónleikum í á sjötta tug skipta og sjálfur segist hann alltaf vera að uppgötva eitthvað nýtt í verkinu.

Fá tónskáld hafa gert jafn mikið úr jafn litlu og Bach í upphafs (og loka) aríu Goldberg-tilbrigðanna en hana lék Víkingur Heiðar stundum eilítið til baka í upphafi tónleikanna nú og dró aðeins seiminn í lokaendurtekningunni (hann þurfti reyndar að byrja tvisvar því rétt eftir að hann hóf leik fór sími í salnum að hringja hátt og snjallt og ég er viss um að eigandi hans kemur til með að muna eftir því að slökkva á símanum næst). Fyrstu fjórtán tilbrigðin eru öll í G-dúr (eins og arían) og lék Víkingur Heiðar þau flest býsna hratt miðað við marga aðra píanista, einkum fyrsta, fimmta og fjórtánda tilbrigðið (en kannski að frátöldu því þrettánda). Um leið var flutningurinn þó ákaflega skýr (þannig komu bassa- og tenórraddir afar vel fram). Tónninn var syngjandi og fíngerður en barst þó vel. Ég hef líka áður getið þess að Víkingur Heiðar hefur mikið vald á að stjórna styrkleika- og hraðabreytingum (rubato) á sama tíma og því var einmitt að heilsa í Hörpu. Ef við miðum við hljóðritun Víkings Heiðars á verkinu var flutningurinn nú kannski ívið ákafari en um leið dýnamískari; túlkunin var raunar um margt dýpri sem er auðvitað ekkert skrýtið miðað við það að hann er búinn að leika verkið í yfir fimmtíu skipti á tónleikum á undanförnum mánuðum.

Tilbrigðin í g-moll hefjast með því fimmtánda en hin eru númer 21 og 25 (sem er jafnframt lengsta tilbrigðið tímalega séð). Fimmtánda tilbrigðið (Canone alla Quinta) er áleitin músík sem Víkingur túlkaði í býsna rólegu tempói, jafnvel ívið hægar en hann gerir á Deutsche Grammophon-hljóðritun sinni. Hann hægði á hér og þar og notaði styrkleikabreytingar afar smekklega hvort sem um var að ræða staccato (þar sem nótur eru slitnar í sundur) eða legato (þar sem nótur eru bundnar saman); einkum var þetta áberandi undir lok fimmtánda tilbrigðisins í lúshægu tempói sem Víkingur lék undurblítt. Túlkunin var afar fáguð en um leið öll á dýptina. Ljósastýringin í Eldborgarsalnum var líka notuð til þess að auka áhrifin en ljósin voru færð niður í nánast almyrkur í 15. og 25. tilbrigðinu.

Fimmtánda tilbrigðið myndar svo að segja nokkurs konar „forleik“ að seinni helmingi Goldberg-tilbrigðanna. Ef frá eru talin g-moll-tilbrigðin númer 21 og 25 er seinni hluti tilbrigðanna skrifaður í nokkuð hröðu tempói. Leikur Víkings Heiðars í seinni hlutanum var því býsna gangandi, þar á meðal 17. og 23. tilbrigðið, en þau númer 26 og 28 lék hann á leifturhraða (og ekki var tæknin að þvælast fyrir honum). Þá var 30. tilbrigðið eftirminnilegt og miðað við Deutsche Grammophon-upptökuna fannst mér Víkingur Heiðar hafa ívið meiri stjórn á dýnamíkinni til að mynda þar.

Eftir um það bil klukkustundarleik Víkings Heiðars var komið að 25. tilbrigðinu (Adagio), sem eins og áður segir tekur lengstan tíma allra tilbrigðanna í flutningi. Hér var leikur Víkings Heiðars margslunginn en tilbrigðið er stundum nefnt „svarta perlan“. Það er skrifað í taktboðanum 3/4 og miðað við hvað tilbrigðið er „hægt“ er laglínan sem Bach skrifar yfir hljómaganginn býsna „hröð“ og alsett krómatík. Þetta tilbrigði hefur reynst mörgum píanóleikurum nokkur ráðgáta og ekki eru allir sammála um hvernig beri að túlka það. Mér fannst Víkingur Heiðar hins vegar hafa skýra sýn á þessa ljóðrænu krómatík sem Bach skrifar, þó vissulega sé túlkun hans í hægari kantinum miðað við margt af því sem ég hef heyrt. Ef eitthvað var þá var túlkun hans nú ögn hægari en á hljóðrituninni sem fór saman við djúpa líkamstjáningu og nær almyrkvaðan sal.

Eftir að tilbrigðunum sjálfum lauk endurtók Víkingur Heiðar aríuna (da capo). Hann lék aríuna hér án allra endurtekninga og túlkun hans var í senn innhverf og íhugul og rammaði þannig glæsilegan flutning inn. Hér var eins og að allt kæmi heim og saman eftir um það bil sjötíu og fimm mínútna langt ferðalag um ólík tilbrigði, tóntegundir og taktbreytingar.

Það er auðvitað í besta falli akademísk æfing að bera saman annars vegar stúdíó-hljóðritun og hins vegar upplifun á tónleikum, jafnvel þó svo að verið sé að flytja sama verkið. Ef við leyfum okkur samt sem áður einhvers konar samanburð, með öllum þeim fyrirvörum sem eðlilegt er að setja, þá var túlkun Víkings Heiðars í Hörpu dýpri, dýnamískari og jafnvel ljóðrænni en heyrist á Deutsche Grammophon-hljóðrituninni. Auðvitað eru engir tvennir tónleikar eins og jafnvel bara hljómburður í tilteknum tónleikasal getur haft mikil áhrif á upplifun hlustenda, hvað þá hvernig píanóleikari notar pedala hverju sinni. Hljómburðurinn í Eldborg Hörpu er auðvitað frábær og það setti meðal annars mark sitt á túlkun Víkings Heiðars nú. Þannig bárust til að mynda veikustu tónarnir (pianississimo) um allan sal og það sem meira var, hver einasta nóta söng, en það er auðvitað Víkingi Heiðari og hæfileikum hans að þakka. Þessir tónleikar voru upplifun og það er mín fjallgrimm vissa að þeir eiga eftir að vera greyptir í minni þeirra sem á hlýddu. BRAVÓ!