Þjálfari Craig Pedersen hefur tvisvar farið með Ísland í lokakeppni EM.
Þjálfari Craig Pedersen hefur tvisvar farið með Ísland í lokakeppni EM. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég á von á hörkuleik gegn þessu ungverska liði,“ sagði Craig Pedersen, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í körfuknattleik, í samtali við Morgunblaðið fyrir æfingu íslenska liðsins í Laugardalshöll í gær

EM Í KÖRFUBOLTA

Bjarni Helgason

bjarni@mbl.is

„Ég á von á hörkuleik gegn þessu ungverska liði,“ sagði Craig Pedersen, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í körfuknattleik, í samtali við Morgunblaðið fyrir æfingu íslenska liðsins í Laugardalshöll í gær.

Íslenska liðið hefur leik í B-riðli undankeppni Evrópumótsins í kvöld þegar það tekur á móti Ungverjalandi í Laugardalshöllinni en leikurinn hefst klukkan 19:30.

Ítalía og Tyrkland leika einnig í sama riðli og mætast þau í Pesaro á Ítalíu á sama tíma en Ísland mætir svo Tyrklandi í Istanbúl hinn 25. febrúar í síðari leik sínum í landsleikjaglugganum. Þrjú efstu liðin komast í lokakeppni EM 2025.

„Við erum fullmannaðir ef svo má segja og það er lítið um meiðsli núna sem er mjög jákvætt. Martin Hermannsson er mættur aftur sem eru frábærar fréttir fyrir okkur og koma hans minnkar líka álagið á aðra leikmenn liðsins eins og til dæmis Elvar Friðriksson, sérstaklega í sóknarleiknum.

Elvar hefur verið stórkostlegur fyrir okkur undanfarin ár og sérstaklega í fjarveru Martins þar sem hann hefur þurft að axla aukna ábyrgð. Það munu koma upp augnablik í leiknum þar sem þeir verða að öllum líkindum báðir inni á vellinum. Það hjálpar okkur samt gríðarlega mikið að geta haft annan hvorn þeirra inni á vellinum, öllum stundum, og það er algjör leikbreytir fyrir okkur,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

Lykilmaður Ungverja

Ísland er sem stendur í 48. sæti heimslista FIBA á meðan Ungverjaland er í 43. sæti.

„Ádám Hanga er mættur aftur í leikmannahóp ungverska liðsins eftir þónokkra fjarveru undanfarin ár og liðið þeirra er heilt yfir mjög sterkt. Hanga lék með Barcelona í nokkur ár sem segir manni ýmislegt og hann er þannig leikmaður að hann gerir aðra betri í kringum sig. Hann getur nánast allt og við þurfum að hafa góðar gætur á honum.

Taktískt eru þeir líka mjög sterkir og þeir eiga marga leikmenn sem spila í Evrópudeildinni. Þeir eru líka stórir og mjög líkamlega sterkir og það getur verið erfitt að eiga við þá. Á sama tíma er það líka eitthvað sem ég tel að við getum nýtt okkur og vonandi tekst okkur það í leiknum gegn þeim.“

Hefur trú á sínu liði

Hver er lykillinn að því að leggja Ungverjana að velli?

„Það er gríðarlega mikilvægt fyrir okkur að mæta með kassann út, fullir sjálfstrausts, og að við séum á fullu allan tímann. Við þurfum að láta boltann rúlla vel á milli manna og skjóta vel. Það þarf ýmislegt að ganga upp hjá okkur ef við ætlum okkur að leggja Ungverjana að velli.

Á sama tíma hefur þetta lið sýnt og sannað á undanförnum árum að við getum unnið mjög sterka andstæðinga með ólíkum aðferðum, og ég hef mikla trú á mínu liði. Við þurfum samt sem áður að spila áfram þennan hraða körfubolta sem hefur reynst okkur vel síðustu ár og reyna að koma Ungverjunum þannig úr jafnvægi.“

Mikill vilji til staðar

Craig hefur stýrt íslenska liðinu frá árinu 2014, eða í tíu ár, en undir hans stjórn hefur liðið tvívegis tryggt sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins og þá var liðið ansi nálægt því að tryggja sér sæti í lokakeppni heimsmeistaramótsins 2023 sem fram fór á Filippseyjum, í Indónesíu og Japan.

„Það er mikil spenna í leikmannahópnum að hefja leik í undankeppni EM. Það voru mikil vonbrigði að tapa fyrir Sviss í lokaleik 2. umferðar forkeppninnar í ágúst árið 2019 en tapið gerði það að verkum að við komust ekki í undankeppnina og það sat lengi í okkur. Núna tekur við alveg ný undankeppni og við erum svo sannarlega klárir í slaginn.

Það er mikið hungur í öllum hópnum að komast aftur í lokakeppnina, líkt og við gerðum 2015 og 2017. Það eru ennþá nokkrir í hópnum sem tóku þátt í lokakeppni og þeir þekkja þá tilfinningu að spila á stórmóti. Viljinn er því mikill að fá tækifæri til þess að upplifa þær tilfinningar aftur.“

Liðin sem enda í þremur efstu sætum riðilsins tryggja sér sæti á EM sem fram fer í Finnlandi, á Kýpur, í Lettlandi og í Póllandi í ágúst og september á næsta ári.

„Mér finnst við eiga góða möguleika en á sama tíma verður það mjög erfitt. Ungverjaland er líklega sá mótherji sem við viljum einna helst bera okkur saman við og leikirnir gegn þeim eru algjörir lykilleikir í þessum riðli, það er ekkert flóknara en það.

Þeir hafa spilað mjög jafna leiki við lið á borð við Frakkland, Litháen og Pólland, síðustu ár, og þetta eru allt topplið. Það sýnir hversu sterkir þeir eru og svo eru auðvitað Ítalía og Tyrkland með okkur í riðli þannig að þetta er ærið verkefni en eins og ég hef áður sagt þá hef ég mikla trú á þessu liði.“

Meiri breidd á bekknum

Líkt og Craig kom sjálfur inn á er Martin Hermannsson, sem hefur verið besti leikmaður íslenska liðsins undanfarin ár, mættur aftur í leikmannahópinn eftir að hafa slitið krossband snemma á árinu 2022 en Martin missti af allri undankeppni HM vegna meiðsla.

„Undanfarin ár hefur markmiðið verið að gefa óreyndum leikmönnum stærri hlutverk í liðinu, meðal annars vegna meiðsla lykilmanna. Það hefur ákveðin enduruppbygging átt sér stað og allir í hópnum eru mun reynslumeiri í dag en þeir voru fyrir nokkrum árum, á þessu stærsta sviði körfuboltans.

Í dag erum við komnir á þann stað að við erum með mjög öfluga leikmenn á bekknum. Leikmenn sem geta komið inn á og breytt leikjum fyrir okkur og gert gæfumuninn. Það var ekki alltaf þannig en ég er mjög ánægður með hópinn í dag og þau skref sem leikmenn liðsins hafa tekið á síðustu árum, bæði með landsliðinu og með félagsliðum sínum.“

Mikill lærdómur í Tíblisi

Íslenska liðið var aðeins einu stigi frá því að tryggja sér sæti í lokakeppni HM 2023 eftir sigur gegn Georgíu í Tíblisi, 80:77, en þriggja stiga skot Elvars Más Friðrikssonar geigaði á lokasekúndum leiksins og fór Georgía áfram í lokakeppnina á kostnað Íslands.

„Auðvitað voru það gríðarlega mikil vonbrigði að komast ekki á HM. Það tók okkur tíma að jafna okkur á þeim leik en það má samt ekki gleymast að við unnum þann leik með þremur stigum, á mjög erfiðum útivelli, fyrir framan 10.000 stuðningsmenn georgíska liðsins. Þetta var risastór leikur fyrir bæði lið og Georgía stóð sig líka frábærlega á HM.

Það var því mikið afrek að vinna leikinn, þó það hafi ekki dugað til þess að komast á HM. Við höfum lært að faðma þennan leik á einhvern hátt og nýta okkur hann til góðs. Hann sýndi okkur svart á hvítu að við erum hörkukörfuboltalið sem getur gefið hvaða liði sem er leik. Í dag held ég að þessi leikur gefi okkur mun meira en fólk gerir sér grein fyrir og vonandi hjálpar hann okkur á leiðinni inn í þessa undankeppni.“

Allt til fyrirmyndar

Miðar á leik kvöldsins seldust upp á nokkrum dögum og er mikill áhugi á íslenska liðinu um þessar mundir.

„Við finnum svo sannarlega fyrir stuðningi íslensku þjóðarinnar og það er klárlega mikill áhugi á liðinu í dag. Það er allt saman mjög jákvætt og við reynum að nýta okkur það eins og best verður á kosið. Sjálfur finn ég fyrir áhuganum og spennunni sem ríkir fyrir þessari undankeppni og auðvitað spennunni sem ríkir fyrir þessu liði sem við eigum.

Þetta eru allt frábærir strákar og það sem hefur heillað mig einna mest við þá er sú staðreynd að þó þeir séu ekki alltaf í jafn stórum hlutverkum í landsliðinu og þeir eru hjá félagsliðum sínum þá virðist það ekki skipta þá neinu máli. Við erum eitt lið og ein heild. Hér eru allir að róa í sömu átt, strákarnir elska að spila fyrir landið sitt og þjóðina, og hugarfarið er til mikillar fyrirmyndar,“ bætti landsliðsþjálfarinn við í samtali við Morgunblaðið.