Haukur Pálsson fæddist 9. janúar 1928 á Hærukollsnesi við Álftafjörð S-Múlasýslu. Hann lést 30. janúar 2024 á Hrafnistu Laugarási.

Foreldrar hans voru Sigríður Ingveldur Ásmundsdóttir frá Flugustöðum í Álftafirði, f. 14.1. 1886, d. 1.2. 1929, og Páll Þorsteinsson bóndi á Hærukollsnesi í Álftafirði, f. 14.4. 1891, d. 2.5. 1977. Haukur átti sjö systkini, þau eru öll látin.

Árið 1952 giftist Haukur Sigríði Sigurðardóttur, hún lést 25.2. 1997. Foreldrar hennar voru Elín Snorradóttir Welding og Sigurður Sæmundsson.

Haukur og Sirrý eignuðust fjögur börn. 1) Páll Ingi, f. 19.3. 1952, fv. maki Guðlaug Lyngberg, eiga þau saman þrjú börn og sex barnabörn, fyrir átti Guðlaug eina dóttur og á hún þrjú börn. 2) Sigurður, f. 10.9. 1955, maki Þórunn Lína Bjarnadóttir og eiga þau saman þrjú börn og fjögur barnabörn, fyrir á Sigurður einn son og á hann eitt barn. 3) Bryndís Elín, f. 27.2. 1958, maki Bjarni Þór Guðjónsson, eiga þau saman þrjú börn og fjögur barnabörn. 4) Þórir, f. 26.5. 1965, maki Valgerður Hanna Hreinsdóttir, eiga þau saman þrjár dætur.

Haukur var eins árs þegar hann missti móður sína, þá tvístraðist systkinahópurinn á aðra bæi, en þeir feðgar voru saman þar sem Haukur var langyngstur. Þeir voru einn vetur á Tunguhlíð þar sem faðir hans var vinnumaður og síðan fóru þeir að Geithellum og voru þar þar til Haukur var fjórtán ára. Haukur sótti skóla á bæjum í kring. Haukur fór einnig á Djúpavog í skóla en dvaldist þá hjá frænda sínum. Þegar Haukur er fimmtán ára fer hann í Reykholt í Borgarfirði einn vetur. Hann flytur svo til Reykjavíkur og býr hjá systur sinni Kristínu, þar hóf hann nám í Iðnskólanum og lærði húsgagnasmíði og útskrifaðist sem slíkur árið 1949. Hann fékk svo meistararéttindin árið 1954. Haukur hóf störf hjá Guðmundi blinda þar sem húsgagnaáhuginn byrjaði en lærði svo hjá Max Jeppesen í Víði. Mestalla sína ævi starfaði hann hjá TM húsgögnum. Hann var svo hjá syni sínum Þóri í Trévirkjanum í mörg ár.

Haukur og Sirrý bjuggu í Gnoðarvogi 72 svo til alla sína ævi.

Útför fer fram í Langholtskirkju í dag, 22. febrúar 2024, klukkan 13.

Í dag er ástkær tengdafaðir minn jarðsunginn eftir farsæla 96 ára ævi.

Kynni mín af Hauki hófust fyrir 43 árum þegar ég kynntist Sigga mínum. Haukur og Sirrý tóku mér opnum örmum og datt ég svo sannarlega í lukkupottinn með tengdafjölskyldu. Virðing, traust og þakklæti er okkur hjónum efst í huga þegar við minnumst þeirra stunda sem við áttum með þeim.

Haukur var mikill listasmiður og fagmaður, enda húsgagnasmíðameistari. Hann var alltaf tilbúinn að hjálpa sínum nánustu og þegar við byrjuðum að byggja var hann aldrei langt frá.

Haukur var mikill fjölskyldumaður. Hann hélt fast í allar hefðir, en sú eftirminnilegasta er án efa hangikjötsveislan á jóladag. Haukur og Sirrý buðu öllum börnum og fjölskyldum þeirra í hangikjötsveislu og hélt Haukur þeirri hefð áfram eftir að Sirrý féll frá. Hangikjötsmagnið jókst en plássið í íbúðinni minnkaði með hverju árinu eftir því sem fjölskyldurnar litlu stækkuðu. Haukur passaði upp á að allir kæmust fyrir á hinni árlegu jólamynd og að allir skrifuðu í gestabókina.

Haukur var hógvær, athugull, hlýr og traustur. Hann var alltaf búinn að finna út hvað barnabörnin langaði í í jólagjöf og smíðaði dúkkurúm, kojur, stóla og borð sem glöddu mikið og ganga nú á milli kynslóða barnabarna.

Elsku Haukur, ég man þegar þú komst í mat og ég hafði orð á hvað borðstofuborðið væri mjótt og ég kæmi engu fyrir á því. Þú sagðir að það væri nú ekkert mál að breikka borðið og spurðir hvað ég vildi hafa það breitt. Stuttu seinna var búið að breikka borðið og bæta við stækkunum.

Svona var Haukur. Alltaf tilbúinn að rétta hjálparhönd og gerði það með bros á vör. Sama hvað verið var að gera. Leggja parket, smíða eldhúsinnréttingar, allt lék í höndunum á honum.

Fjölskylduútilegan á hverju sumri var ein af mörgum hefðum sem Haukur hélt fast í. Þessar ferðir voru ómetanlegar og skilja eftir sterkar gleðiminningar hjá öllum sem tóku þátt í þeim.

Afmælisferðirnar þegar við börn og tengdabörn gengum Laugaveginn og þegar við fórum í Álftafjörðinn. Allt voru þetta dásamlegar ferðir.

Takk elsku Haukur fyrir allar góðar stundir, við geymum góðar minningar um góðan pabba, tengdapabba, afa og langafa.

Þórunn og Sigurður (Siggi).

Elsku tengdapabbi. Árið er 1987 og ég að kynnast tengdafjölskyldunni og venjast því að vera yngsti meðlimur hennar sem er alveg nýtt fyrir mér þar sem ég er elsta barn foreldra minna. Strax við fyrstu kynni fann ég hvaða ljúfa og trausta mann þú hafðir að geyma og þótti mér strax mjög vænt um þig. Nærvera þín var ljúf og þægileg og við gátum þagað saman án þess að það væri óþægilegt. Árin líða og skyndilega erum við komin með þrjú börn, búin að stofna fyrirtæki og byggja raðhús, allt á tveimur og hálfu ári. Þá var nú gott að eiga svona klett eins og þig sem var alltaf tilbúinn að hjálpa til ef þurfti. Þú varst svo sannarlega duglegastur í því að sjá til þess að húsið yrði íbúðarhæft áður en tvíburarnir fæddust í maí 2002. Það tókst og við tók tímabil þar sem þú „masteraðir“ afahlutverkið með afastelpunum þínum þremur sem elskuðu allar afa sinn til tunglsins og til baka. Hefðirnar sem þú áttir þátt í að skapa í stórri fjölskyldu munu ylja okkur öllum um hjartarætur um ókomin ár. Allar útilegurnar og páskaeggjaleit í Heiðmörk á föstudaginn langa eru ógleymanlegar minningar þar sem gleði barnanna var mikilvægust af öllu. Það var alltaf eitthvað svo gott við þig og sá ég þig aldrei skipta skapi öll þessi ár þrátt fyrir mörg tilefni. Elsku tengdapabbi minn, ég þakka þér fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og þú munt alltaf eiga stórt pláss í hjarta mínu.

Þín tengdadóttir,

Hanna.

Elsku afi okkar.

Þá hefur þú fengið hvíldina þína og vitum við að þér líður vel núna kominn í sumarlandið. Við eigum bara góðar minningar um þig enda varstu besti afinn. Alltaf varstu tilbúinn að sækja okkur og gera eitthvað skemmtilegt með okkur. Margar eru sundferðirnar og eftir sund fórum við oft í bakaríið í Glæsibæ eða pylsuvagninn að fá okkur eitthvað gott að borða. Þú hafðir gaman af allri útiveru og var oft farið í berjamó, veiði eða útilegur í tjaldvagninum. Margar voru fjölskylduferðirnar þar sem þú varst með tjaldvagninn sem þú varst svo ánægður með og var alltaf eins og nýr. Einnig fannst þér gaman þegar við komum í heimsókn til þín og áttum við alltaf gott spjall um lífið og tilveruna. Þú vildir alltaf eiga eitthvað til handa okkur hvort sem það var góður brandari eða kleinur og appelsín. Oftar en ekki var svo tekinn ólsen ólsen og teljum við að keppnisskapið komi líklegast frá þér. Við vorum alltaf velkomin í vinnuna til þín og fannst gaman að kíkja í TM húsgögn, mikið vorum við alltaf montin með allt sem þú gerðir. Ekki má gleyma öllum afmælisgjöfunum og jólagjöfunum sem þú sérsmíðaðir fyrir okkur. Kristín Eva átti flottasta dúkkudótið sem þú smíðaðir, m.a. dúkkukoju, kommóðu, rúm og fleira sem enginn átti, strákarnir fengu sverð og skjöld.

Í seinni tíð fannst þér ekkert skemmtilegra en að fá okkur í heimsókn og litlu börnin. Þú hafðir svo gaman af börnum.

Takk fyrir að vera heimsins besti afi.

Haukur Elmar, Kristín Eva og Friðrik Þór.

Elsku afi Haukur.

Þú varst langbesti afi sem við hefðum getað beðið um og erum við ævinlega þakklátar fyrir þig og allt sem þú hefur gert fyrir okkur. Við erum stoltar af því að geta sagt að þú hafir verið afi okkar og ert þú ein okkar helsta fyrirmynd.

Við eigum óteljandi minningar um þig sem munu fylgja okkur alla tíð. Þegar við lítum til baka og förum að hugsa um tímann sem við áttum með þér er okkur efst í huga: Sundferðirnar í Laugardalslaug og bakaríið í framhaldinu af þeim, ólsen ólsen, grjónagrautur og vöfflur í Gnoðarvoginum og súkkulaðistykkin sem þú komst með handa okkur þegar þú komst í heimsókn í Ljósuvík. Þú fórst í sund upp á hvern einasta dag og þegar við fórum með vinkonum okkar í sund var alltaf hægt að gera ráð fyrir því að hitta þig þar, fundum við þig þá nánast alltaf í sjópottinum.

Þú varst ekki maður margra orða en það skipti okkur engu máli því okkur leið alltaf vel í kringum þig og það sem þú sagðir vissum við að þú meintir. Það var alveg sama hvert við fórum með þér, þú hittir alltaf einhvern sem þú þekktir og fengum við þá að heyra hvað við ættum frábæran afa.

Ein skemmtilegasta hefðin sem við áttum með þér var þegar við komum í Gnoðarvog og skreyttum jólatréð fyrir þig. Okkur leið alltaf vel í Gnoðarvoginum með þér og fundum fyrir mikilli öryggistilfinningu að vera þar. Þú varst ótrúlega þolinmóður gagnvart okkur og gast setið og spilað við okkur í óratíma án þess að leiðast, allavega sýndir þú það ekki. Þú sagðir aldrei nei við að gera grjónagraut eða vöfflur fyrir okkur þegar við báðum um það og var það besti grjónagrautur sem við fengum. Þú passaðir upp á að eiga nóg til af Vilko-vöffludeigi þegar við komum í heimsókn til þín og ef það var ekki til varstu rokinn út í búð. Þú fórst oft með vísuna Fagur fiskur í sjó fyrir okkur og sama hvað við reyndum að læra hana tókst það aldrei.

Þú borðaðir oft kvöldmat með okkur og fylgdumst við reglulega með bílnum þínum keyra upp götuna heima og hlupum svo að dyrunum þegar þú lagðir bílnum fyrir utan húsið. Þegar þú komst í heimsókn varstu oftast með súkkulaðistykki handa okkur, uppáhaldið okkar var þegar þú komst með Freyju-draum.

Þegar við vorum allar þrjár í íþróttum skutlaðir þú okkur oft á æfingar út um allan bæ og sóttir okkur þegar við vorum búnar. Þú sagðir aldrei nei við neinu og var hægt að læra margt gott af þér sem við höfum svo sannarlega gert. Það helsta sem við höfum tileinkað okkur frá þér er að vera duglegar í vinnu eins og þú varst alltaf og bera virðingu fyrir náunganum.

Hvíl í friði elsku afi okkar, þín verður sárt saknað og munum við alltaf elska þig. Takk fyrir allt sem þú gafst okkur.

Þínar afastelpur,

Freyja Ósk, Unnur Lóa og Harpa Sigríður.