Fjárrekstur Samkvæmt reglunum ætti ekki að beita land sem er yfir 30°halla og sem er ofan 600 metra hæðar yfir sjávarmáli.
Fjárrekstur Samkvæmt reglunum ætti ekki að beita land sem er yfir 30°halla og sem er ofan 600 metra hæðar yfir sjávarmáli. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sauðfjárbændur eru margir ósáttir við reglugerðardrög um sjálfbæra landnýtingu og eru þungorðir í umsögnum um drögin sem matvælaráðuneytið lagði fram til umsagnar í samráðsgátt á dögunum. Komnar eru vel á fjórða tug umsagna, flestar frá bændum og fulltrúum þeirra og sveitarstjórnarfólki o.fl

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Sauðfjárbændur eru margir ósáttir við reglugerðardrög um sjálfbæra landnýtingu og eru þungorðir í umsögnum um drögin sem matvælaráðuneytið lagði fram til umsagnar í samráðsgátt á dögunum. Komnar eru vel á fjórða tug umsagna, flestar frá bændum og fulltrúum þeirra og sveitarstjórnarfólki o.fl. sem gagnrýna tillögurnar. Í nokkrum umsögnum annarra er þó að finna jákvæðari afstöðu til þessara áforma.

Eitt þeirra atriða sem bændur gagnrýna hvað mest eru reglur eða viðmið sem sett eru um beit. Lagt er til í drögunum að ekki ætti að nýta til beitar landsvæði með minna en 20% æðplöntuþekju og takmarka ætti eins og kostur er að nýta land til beitar sem er ofan 600 metra hæðar yfir sjávarmáli eða í yfir 30 gráðu halla.

„Ef ekki á að beita land sem er með meira en 30° halla (stigar innanhúss eru með 30-36°halla) eða liggja að einhverju leyti í meira en 600 m hæð yfir sjó er ekki hægt að beita stóran hluta landsins. Ef girða á þessi svæði af væri kostnaður við girðingar og viðhald þeirra óviðráðanlegur,“ segir í umsögn búgreinadeildar sauðfjárbænda Bændasamtakanna um þetta.

Búnaðarsamband Suðurlands minnir á að bændur hafi unnið markvisst að uppgræðslu og landbótastörfum á afréttarlöndum í góðri samvinnu við Landgræðsluna til fjölda ára sem hafi skilað miklum árangri í að bæta þar ástand og gróðurfar. „Nái þessi reglugerð fram að ganga má gera ráð fyrir að meirihlutinn af því landbótastarfi sem bændur hafa unnið í samvinnu við Landgræðsluna leggist af með aukningu jarðvegseyðingar og minni framför á gróðri,“ segir í umsögn sambandsins.

Ólafur Jónsson, sem býr við utanverðan Tröllaskaga, spyr í umsögn hvort heimamönnum sé ætlað að girða af brattlendi og fara síðan upp í 600 metra hæð og girða toppana af á fjöllunum til þess að kindur fari ekki í of mikla hæð. Þetta geri að verkum að sauðfjárbúskapur leggist af víða á landinu og kindur færist niður á láglendi, með tilheyrandi vandamálum. „Með þessari reglugerð er í raun verið að leggja af heila atvinnugrein og íslenskt lambakjöt hverfur af diskum landsmanna,“ segir hann. Fleiri taka í sama streng. Landbúnaðarnefnd og fjallskilanefndir Húnabyggðar segja í umsögn að skv. reglugerðinni virðist stór hluti afrétta landsins vanhæfur til beitar og ef af þessu verði sé vegið að matvælaframleiðslu og þar með matvælaöryggi Íslands.

Reglugerðardrögin voru fyrst kynnt árið 2021 og gagnrýna margir í umsögnum að ekki hafi verið tekið tillit til athugasemda og gagnrýni sem þá kom fram. Einnig er gagnrýnt að stofnuninni Landi og skógi sé falið að hafa allt mat og eftirlit með höndum.

Guðmundur H. Gunnarsson jarðræktarfræðingur segir í ítarlegri umsögn að viðmiðið um hvar nýta má land til beitar sé algerlega óraunhæft og nánast óframkvæmanlegt ef girða þyrfti gróðurlítil svæði og brattar fjallshlíðar. Hann minnir á að íslenska lambakjötið sé fyrsta matvaran á Íslandi sem hafi fengið PDO-merkingu, m.a. vegna þess að féð hafi frjálsa för í sumarhögum en sé ekki lokað í misþröngum og skítugum hólfum heima við bæi á láglendi. Vitnar hann í umsögninni í eftirfarandi ummæli sendiherra ESB á Íslandi sem höfð voru eftir honum í Bændablaðinu á seinasta ári: „Íslenskt lambakjöt einkennist af mikilli mýkt og villibráðarbragði sem stafar af fjölbreyttri fæðu fjárins þegar það gengur frjálst og óhindrað um fjöll og dali.“

Ekki eru þó allar umsagnir sem borist hafa um reglurnar neikvæðar. Sveinn Runólfsson fv. landgræslustjóri sendir inn umsögn fyrir hönd Vina íslenskrar náttúru. „Fyrir okkur öll sem unnum náttúru og gæðum landsins er það mikið fagnaðarefni að þessi drög að reglugerð um sjálfbæra landnýtingu skuli nú vera komin aftur til kynningar í samráðsgátt, fimm árum eftir að lögin um landgræðslu voru samþykkt á Alþingi,“ segir hann. Félagið gerir þó fjölmargar tillögur um úrbætur og breytingar á orðalagi í drögunum.

Árni Bragason tekur í svipaðan streng og segir fagnaðarefni að reglugerðin sé til umsagnar. Vonandi hafi matvælaráðherra kjark til að staðfesta hana. Minnir hann á að Landgræðslan og íslenskir og erlendir vísindamenn hafi hamrað á því um áratuga skeið að gosbelti Íslands henti ekki til beitar. Drögin séu mjög gott skref í rétta átt „og þau gögn um gróður og jarðveg sem liggja fyrir eru ekki fullkomin en þau eru næjanlega góð til að leggja meginlínur fyrir landnýtingu um allt land. Fjölmörg svæði á Vesturlandi, Norðurlandi utan gosbeltisins og á Austurlandi ásamt láglendi á Suðurlandi henta vel til beitar og þar er hægt að framleiða það kjöt sem nú er verið að framleiða með ósjálfbærum hætti á gosbeltinu.“

Höf.: Ómar Friðriksson