Nesvegur Bíllinn í innkeyrslu en hvorki á götu né gangstéttinni.
Nesvegur Bíllinn í innkeyrslu en hvorki á götu né gangstéttinni. — Ljósmynd/Nanna
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Íbúa við Nesveg í Vesturbæ Reykjavíkur verður gert að greiða sömu stöðusekt og nágranni hennar fékk niðurfellda eftir kvörtun til bílastæðasjóðs.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Íbúa við Nesveg í Vesturbæ Reykjavíkur verður gert að greiða sömu stöðusekt og nágranni hennar fékk niðurfellda eftir kvörtun til bílastæðasjóðs.

Íbúinn, Nanna Gunnarsdóttir, furðar sig á því að íbúar við götuna njóti ekki jafnræðis hvað viðkemur niðurfellingu stöðubrota. Þegar borginni var bent á að nágranninn hefði fengið sektina niðurfellda var henni tjáð af fulltrúa borgarinnar að hann myndi ekki tjá sig um grannann og þar við sat.

„Það sem mér gremst er það að við ættum öll að fá sektina niðurfellda. Það ætti eitt yfir alla að ganga. Þetta er spurning um jafnræði. Ég er alveg jafn dauð og alveg jafn blönk þótt ég borgi þennan 15 þúsund kall en þetta snýst um jafnræði,“ segir Nanna við Morgunblaðið.

Málið á rætur að rekja til þess að síðla árs 2023 hóf borgin fyrirvaralaust að sekta íbúa á Nesvegi. Við hann er pláss fyrir bíla til að leggja báðum megin götunnar í akstursstefnu. Eins hafa þeir íbúar sem eiga innkeyrslu sunnan megin við götuna lagt bíl sínum þversum nærri götunni í stað þess að keyra alla leið inn í innkeyrslu, yfir gangstétt sem þar er. Bíllinn er því hvorki úti á götu né inni á gangstétt.

Breyttist án fyrirvara

Nanna er einn þeirra íbúa sem lagt hafa þannig. Hið sama hafa aðrir íbúar gert árum saman án þess að fá sekt fyrir stöðubrot. Það breyttist hins vegar án fyrirvara fyrir skemmstu.

„Við höfum búið hérna síðan 1996. Aðalástæðan fyrir því að við leggjum svona er sú að við viljum ekki aka á gangandi vegfarendur,“ segir Nanna. Málið er ekki hið fyrsta sem sagt hefur verið frá á mbl.is. Þannig var sagt frá máli Ara Jóns Arasonar, íbúa við götuna, sem fékk sína sekt niðurfellda eftir að hann kvartaði undan því að hafa skyndilega verið sektaður þrátt fyrir að hafa lagt eins í átta ár.

Í skýringum sem sendar voru Vigfúsi manni Nönnu þegar hann kærði niðurstöðu bílastæðasjóðs segir m.a.:

„Svæðið þar sem fláinn er og fyrir framan hann er á borgarlandi og skilgreinist sem umferðareyjur eða svipaðir staðir, innkeyrslur, eftir því sem við á. Þar má s.s. ekki leggja.“

Nanna segist ekki efast um að þetta sé rétt. En vísar aftur til jafnræðis í málinu og bætir við:

„Ef þetta er borgarland, þá getur borgin líka hirt þetta og mokað snjóinn,“ segir Nanna. Ólíkt Ara höfðu Nanna og Vigfús maður hennar þegar greitt sektina sem þau vilja fá niðurfellda. Slíkt hafði Ari ekki gert.

Höf.: Viðar Guðjónsson