Sjálfstæðisflokkur Þingflokkur er á leið í hringferð um landið.
Sjálfstæðisflokkur Þingflokkur er á leið í hringferð um landið. — Morgunblaðið/Eggert
Árleg hringferð Sjálfstæðisflokksins um landið hefst í Reykjanesbæ í kvöld. Þar verður opinn fundur í Grófinni kl. 18 þar sem fjallað verður um útlendingamálin. Yfirskrift þess fundar er Verndarkerfi á þolmörkum en frummælendur verða formaður…

Árleg hringferð Sjálfstæðisflokksins um landið hefst í Reykjanesbæ í kvöld. Þar verður opinn fundur í Grófinni kl. 18 þar sem fjallað verður um útlendingamálin. Yfirskrift þess fundar er Verndarkerfi á þolmörkum en frummælendur verða formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, og Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra.

Fundaferðin stendur til 27. febrúar. Komið verður við á 18 stöðum hringinn um landið og fólki gefinn kostur á að eiga beint og milliliðalaust samtal við þingmenn og ráðherra um þau mál sem helst á brenna, eins og það er orðað í tilkynningu frá Sjálfstæðisflokknum.

Í hádeginu á morgun, föstudag, verður opinn súpufundur á Akranesi. Þaðan verður haldið að Bessastöðum í Húnaþingi vestra þar sem nærsveitungum er boðið á opinn fund í fjósinu kl. 15. Annað kvöld verður þingflokkurinn með trúnaðarmönnum á Blönduósi.

Þingflokkurinn verður með morgunfund á Sauðárkróki á laugardaginn kl. 10, í hádeginu á Siglufirði og endað á opnum fundi á Akureyri kl. 16.30. Á sunnudaginn hefst dagskráin kl. 11 með opnum fundi í Vogafjósi við Mývatn. Þaðan halda sjálfstæðismenn til Egilsstaða þar sem haldin verða kvenna- og karlaboð kl. 15. Næsti áfangastaður verður Reyðarfjörður á sunnudag kl. 17.30. Hádegisfundur verður á Djúpavogi á mánudag en þaðan er haldið á Höfn þar sem verður opinn fundur kl. 16.30 í Heppu. Endað verður á Kirkjubæjarklaustri á bjórkvöldi í Skaftárstofu kl. 20 á mánudagskvöld.

Síðasti fundardagur í þessari lotu verður þriðjudaginn 27. febrúar. Þá verður þingflokkurinn á opnum fundum í Friðheimum í Bláskógabyggð kl. 12, á Flúðum kl. 14.20, á Selfossi í Bankanum vinnustofu kl. 16.30 og í hlöðunni í Hjalla í Ölfusi kl. 18.