Hátíðleg stund Það er ávallt hátíðleg stund þegar kaka ársins er afhjúpuð og vel við hæfi að forsetafrúin á Bessastöðum afhjúpi leyndardóma kökunnar og skeri fyrstu sneiðina. Eyjólfur Hafsteinsson hjá Bakarameistarnum, Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI og Sigurður Már Guðjónsson fylgdust spenntir með.
Hátíðleg stund Það er ávallt hátíðleg stund þegar kaka ársins er afhjúpuð og vel við hæfi að forsetafrúin á Bessastöðum afhjúpi leyndardóma kökunnar og skeri fyrstu sneiðina. Eyjólfur Hafsteinsson hjá Bakarameistarnum, Sigurður Hannesson framkvæmdastjóri SI og Sigurður Már Guðjónsson fylgdust spenntir með. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þeir mættu á Bessastaði ásamt Sigurði Hannessyni framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins þar sem forsetafrúin Eliza tók vel á móti þeim, full tilhlökkunar að smakka á kökunni. Sala á köku ársins 2024 hefst í bakaríum Landssambands bakarameistara í dag,…

Sjöfn Þórðardóttir

sjofn@mbl.is

Þeir mættu á Bessastaði ásamt Sigurði Hannessyni framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins þar sem forsetafrúin Eliza tók vel á móti þeim, full tilhlökkunar að smakka á kökunni.

Sala á köku ársins 2024 hefst í bakaríum Landssambands bakarameistara í dag, fimmtudag, en kakan er að venju kynnt til leiks í bakaríum í tilefni konudagsins sem er alla jafna fyrsta sunnudag í góu, þetta árið nú á sunnudaginn, 25. febrúar.

Kaka ársins er valin í keppni sem LABAK efnir til árlega og fer þannig fram að keppendur skila inn tilbúnum kökum sem dómnefnd metur og velur úr þá sem þykir best til þess fallin að hljóta titilinn kaka ársins. Í ár var keppnin haldin í samstarfi við Nóa Síríus og inniheldur Nóa Smákropp.

Kakan létt og hæfilega sæt

Eliza skar fyrstu sneiðina af fyrstu köku ársins af sinni alkunnu snilld og naut hvers bita. „Kakan er mjög góð, mér finnst kakan létt og hæfilega sæt, kókosbragðið kemur vel út á móti ávaxtabragðinu, góð blanda, það er ekki of mikið appelsínubragð heldur gott jafnvægi. Síðan er þessi krönsí áferð og Nóa Kroppið sem gefur tóninn,“ segir Eliza og bætir við: „Þessi væri mjög góð í eftirrétt þegar boðið er upp á grillað lambakjöt á undan í aðalrétt eða bara við hvert tilefni þegar okkur langar að bjóða upp á fallega og góða köku.“

Aðspurð segist Eliza baka reglulega. „Mér finnst mjög gaman að baka og með krökkunum, það er svo skemmtileg fjölskyldustund að baka saman. Einnig finnst mér mjög gaman að elda.“ Gaman er að segja frá ákveðinni hefð hjá Elizu þegar börnin eiga afmæli, það er að setja peninga í afmæliskökuna. „Þá er peningurinn settur í álpappír og allir fá einn pening. Það er sem sagt einn peningur í hverri sneið. Ég held að ég fari rétt með að þetta sé skoskur siður,“ segir Eliza.

Skrifaði niður uppskriftir úr tímaritum hjá ömmu

Forsetafrúin hefur ávallt haft áhuga á bakstri og matargerð og á margar góðar minningar tengdar þeim áhuga. „Þegar ég var barn og fór að heimsækja ömmu og afa sem bjuggu í Norður-Ottawa-fylki, fór ég í tímarit og matreiðslubækurnar hjá ömmu minni þar, en hún átti gott safn af þeim, og skrifaði niður uppskriftir sem vöktu áhuga minn. Mér fannst það svo gaman að skrifa niður uppskriftir og stúdera þær.

Þetta voru ófáar uppskriftir og ég á enn í dag möppurnar með þessum uppskriftum hér heima hjá mér. Ég held að ég hafi verið á bilinu 8-10 ára gömul þegar ég stundaði þetta hvað mest,“ segir Eliza og bætir við að hin amma hennar hafi safnað matreiðslubókum frá árunum 1965 til 1975, með einföldum og gamaldags uppskriftum með asísku ívafi.

„Mér finnst frábært að sjá hvernig fólk eldaði og bakaði áður fyrr og hvernig þetta hefur þróast. Ekki síst hve mikill munur er á hráefni sem til var áður fyrr og nú.“

Kakan klár í annarri tilraun

Eins og fyrri ár er mikið lagt í köku ársins en í ár er hún í mörgum lögum. Mjúkir marensbotnar blandaðir með kókossykri og léttristuðum kókos og heslihnetum. Tertan er fyllt með karamellu og núggat-frómas og bragðbætt með ferskri appelsínupúrru. Kakan er hjúpuð appelsínukrydduðum mjólkursúkkulaðiganas með Nóa Smákroppi.

Aðspurður segir Eyjólfur að hugmyndin að kökunni hafi fæðst bara si-svona. „Eina skilyrðið var að nota Nóa Smákropp frá Nóa Siríusi í uppskriftina og þá var eftir að hugsa bragð og útlit. Hugmyndin var að gera ekki of flókna tertu en að sama skapi vanda val á hráefnum. Grunnur að köku ársins var svo að segja klár í annarri tilraun,“ segir Eyjólfur og brosir. „Ég hugsa og prófa hluti mjög reglulega. Nýja hluti sem gætu gengið í sölu en það er misjafnt hvað tíminn leyfir mér að framkvæma Ástríða mín í bakstri liggur jafnt í köku, tertu, smábitum og súrdeigi en þegar upp er staðið snýst það alltaf um hina fullkomnu vöru sem sómir sér vel í búðarborði Bakarameistarans. Þá er ég sáttur,“ segir Eyjólfur að lokum með bros á vor.

Sala á kökunni hefst í bakaríum félagsmanna LABAK um allt land í dag, fimmtudag, og verður til sölu það sem eftir er ársins.

Höf.: Sjöfn Þórðardóttir