Ragna Róbertsdóttir (f. 1945) Landslag, 1999 Vikur 200 x 200 cm
Ragna Róbertsdóttir (f. 1945) Landslag, 1999 Vikur 200 x 200 cm
Ragna Róbertsdóttir tilheyrir þeirri kynslóð íslenskra listamanna sem tekur hefðbundna landslagstúlkun til endurskoðunar. Á tíunda áratug liðinnar aldar var Ragna farin að vinna með jarðarbundinn efnivið, hraun, torf eða gler sem jafnvel kemur beint úr því landslagi sem ætlað er að túlka

Ragna Róbertsdóttir tilheyrir þeirri kynslóð íslenskra listamanna sem tekur hefðbundna landslagstúlkun til endurskoðunar. Á tíunda áratug liðinnar aldar var Ragna farin að vinna með jarðarbundinn efnivið, hraun, torf eða gler sem jafnvel kemur beint úr því landslagi sem ætlað er að túlka. Ýmist vísa titlar verka hennar til staðarins þaðan sem efni verkanna eru fengin, svo sem Heklu, eða með almennari titlum eins og Landslag. Birtingarmynd landslagsins – fyrirmyndarinnar – kemur fram í formi efnisins, ekki myndmálinu sem slíku.

Í Hekluverkum Rögnu er ekki um að ræða myndir af eldkeilunni eins og hún hefur oft verið túlkuð af landslagsmálurum. Ragna gengur alla leið að hrauninu og notar það sem efniviðinn, í formi vikurs, rauðamalar eða hraungrýtis. Samruni efnis og inntaks verður einstakur innan þess þrönga ramma sem hún sníður verkunum. Þótt list Rögnu virðist mínimalísk í framsetningu má greina persónulega þræði í inntaki verka hennar sem einkennast af nánd við landslagið og náttúruöflin. Hvað þetta áhrærir eiga þau ýmislegt sameiginlegt með verkum umhverfislistamanna á borð við Bretann Richard Long eða Bandaríkjamanninn Robert Smithson. Þeir drógu landslagið inn í sýningarrýmið á sjöunda og áttunda áratug liðinnar aldar með því að flytja þangað náttúrulegan efnivið, grjót, sprek eða jafnvel steingerðan kóral.

Vikurmulningurinn í Landslagi Rögnu – rauðamöl eða glermulningur í öðrum tilvikum – tvinnar saman tvívíða list og þrívíða. Samkvæmt strangri formrænni flokkun fellur verk Rögnu undir lágmynd en áferð þess og ásýnd er mun nær teikningu.