Róbert Spanó
Róbert Spanó
Ef þingmenn í krafti innlends lagasetningarvalds vilja þrengja eða afnema þann rétt sem þeir hafa áður veitt á grundvelli EES-samningsins þurfa þeir bara að taka það skýrt fram.

Róbert Spano

Mikið hefur verið rætt og ritað undanfarin misseri um hina svokölluðu Bókun 35. Hvað er það við þessa Bókun 35 sem gerir það að verkum að forsetaframbjóðandi lofar að synja lögum staðfestingar sem byggjast á frumvarpi utanríkisráðherra sem snýr að þessari bókun á þeim forsendum að frumvarpið feli í sér atlögu að fullveldi Íslands? Er þessi afstaða rétt? Svarið við þeirri spurningu er neitandi af eftirfarandi ástæðum.

Ímyndum okkur að Evrópusambandið setji reglu sem segir að þegar menn kaupa gallaða vöru eigi þeir rétt á skaðabótum ef varan veldur tjóni. Á grundvelli EES-samningsins ákveður Alþingi að setja lög til að fólk hér á landi geti nýtt þennan rétt. Þessi lagaregla sem Alþingi setur er skýr og óskilyrt. Síðar meir setur Alþingi önnur lög á sama sviði, af öðru tilefni, án þess að átta sig á því að nýju lögin kunna að afnema eða þrengja þann rétt sem Alþingi hafði áður veitt. Og þegar lögfræðingar (og dómarar) skoða vandamálið kemur í ljós að það er hreinlega ekki hægt að túlka nýju lögin með þeim hætti eftir aðferðum lögfræðinnar að fólk hér á landi skuli halda þeim rétti sem EES-samningurinn gerir ráð fyrir og Alþingi hafði áður veitt. Við þessar aðstæður er það almenn regla í lögfræði að nýju lögin gilda, en ekki þau gömlu. Fólk hér á landi myndi því missa þann rétt sem Alþingi hafði áður lögfest í því skyni að samræmi haldist á milli íslensks réttar og EES-samningsins.

Hér er augljóslega vandamál á ferðinni. Eftir allt saman er ekkert sem bendir til þess að Alþingi hafi ætlað að taka þennan rétt af fólki til bóta vegna tjóns sem gölluð vara hefur valdið. Getur Alþingi ekki fundið einhverja hentuga leið til að hafa áhrif á það að svona gerist ekki þegar engin ástæða er til að ætla að Alþingi hafi ætlað að afnema þennan rétt með nýrri lagasetningu? Svarið er já. Um það snýst Bókun 35. Hún felur í sér skuldbindingu íslenska ríkisins til að leysa svona vandamál þannig að menn missi ekki þann rétt sem EES-samningurinn veitir fólki hér á landi. Og það er það eina sem frumvarp utanríkisráðherra leggur til. Lögskýringarreglan í frumvarpinu gerir ráð fyrir því að við þessar aðstæður beri að ganga út frá því að Alþingi hafi ekki ætlað að víkja frá þeirri reglu sem það hafði áður sett, nema það komi skýrt fram. Ef þingmenn í krafti innlends lagasetningarvalds vilja þrengja eða afnema þann rétt sem þeir hafa áður veitt á grundvelli EES-samningsins þurfa þeir bara að taka það skýrt fram. Eftir sem áður hafa þeir valdið, það er engan veginn tekið af þeim. Það er fullt af sambærilegum reglum til í íslenskri löggjöf, eins og rakið er í frumvarpinu.

Það sem ég held að sumir fárist yfir er að frumvarpinu er ætlað að mæta athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA sem reist er á Bókun 35. Þá skoðun ber að virða, en slíkar skoðanir hafa ekkert með fullveldi Íslands að gera eða framsal lagasetningarvalds. Björn Bjarnason fyrrverandi dómsmálaráðherra
hefur skilmerkilega rökstutt þá afstöðu og núverandi utanríkisráðherra hefur einnig fært fyrir henni skýr rök í nýlegri skýrslu um þetta efni sem lögð hefur verið fyrir
Alþingi. Því jú, eftir sem áður er
það Alþingi sem ræður. Ef Alþingi vill fara aðra leið en EES-samningurinn gerir ráð fyrir þá hafa alþingismenn sem fyrr það vald en þurfa bara að taka það skýrt fram þegar þeir setja lög. Ef þeir fara þá leið þá getur það vissulega haft áhrif á samstarf okkar á vettvangi EES-samningsins, en það er verkefni stjórnmálamanna að leysa úr því. Það vandamál heggur hins vegar ekki nærri íslensku stjórnarskránni.

Höfundur er lögmaður, lagaprófessor og fyrrverandi forseti Mannréttindadómstóls Evrópu.