Magnús Þorsteinsson fæddist 3. janúar 1950 á Akureyri. Hann lést á Landspítalanum 10. febrúar 2024.Foreldrar hans eru Guðfinna Óskarsdóttir, f. 1928, og Þorsteinn Pálmason, f. 1924, d. 1992. Systkini Magnúsar eru Pálmi, f. 1947, d. 2018. Óskar, f. 1954. Auðunn, f. 1960, og Auður, f. 1965.

Eiginkona Magnúsar er Ragna Pétursdóttir, f. 1951. Börn þeirra eru Finnur Pálmi, f. 1977, maki Heiða Harðardóttir, f. 1977, Jóhann Ingi, f. 1980, maki Sólveig Helga Jóhannsdóttir, f. 1982, og Rúnar Skúli, f. 1987.

Barnabörn Magnúsar og Rögnu eru átta, Haukur Ingi Jóhannsson, Saga Finnsdóttir, Ernir Ingi Jóhannsson, Hlynur Rúnarsson, Móeiður Luna Rúnarsdóttir og Uni Finnsson. Stjúpdætur Finns eru Agnes og Katla Ársælsdætur.

Magnús sótti sjóinn ungur, lauk sveinsprófi í vélvirkjun hjá Héðni og fór eftir það í Vélskólann og útskrifaðist sem vélstjóri. Eftir vélstjóranámið fór hann á sjó á togaranum Svalbaki og hóf störf hjá Baader á Íslandi árið 1976 þar starfaði hann í 43 ár.

Magnús var mikill sundgarpur. Hann æfði á yngri árum á Akureyri og þótti skara fram úr, sund var honum alltaf mikilvægt og á efri árum hóf hann að æfa með Görpunum í Kópavogi. Ragna og Magnús byrjuðu að spila golf og sinnti Magnús því af kappi meðan heilsa leyfði í Golfklúbbi Mosfellsbæjar og spiluðu vítt og breytt um heiminn.

Útför fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 23. febrúar 2024, kl. 13.

Í dag fylgjum við pabba síðasta spölinn, heljarmenni sem gat allt sem hann ætlaði sér. Við ætlum að minnast allra góðu minninganna og samverustundanna.

Fyrstu minningarnar úr æsku eru af óhemjugangi mínum sem reyndi á hið þekkta jafnaðargeð pabba. Ég var mikill pabbastrákur og beið tímunum saman á stigaganginum í Geitlandinu eftir að hann skilaði sér til baka úr vinnuferðum þrátt fyrir að einhverjir dagar væru í að hann kæmi heim. Að sjálfsögðu lét mamma mig sitja þar þangað til ég gafst upp.

Í minningunni skipti pabbi aldrei skapi og við bræðurnir eigum allir þessa minningu um atvikið þar sem við gengum of langt. Í mínu tilfelli greip hann mig glóðvolgan við að reyna að stela dósum úr appelsínugulri dósasöfnunarkúlu fyrir eitthvert gott málefni. Þarna gekk ég of langt og hann las yfir mér á leið heim í rauða Subaru-inum. Þarna lærði ég að segull virkar ekki á ál og hef ekki reynt að stela síðan.

Pabbi sat aldrei auðum höndum, hann var stöðugt í framkvæmdum á Tunguheiðinni, uppi á verkstæði að brasa í bílunum sínum og okkar bræðranna. Það var sjaldan fengin utanaðkomandi aðstoð þar sem hann gat allt, ef hann kunni það ekki þá fann hann út úr því og alltaf var hægt að sækja réttu verkfærin upp í Baader. Ég man eftir mörgum stundum sem við áttum í Baader að þrífa bílinn og seinna meir að halda gangandi bílskrjóðunum sem ég keypti og biluðu mikið. En alltaf fann hann lausn á endanum, til að gera þá gangfæra á ný.

Ég man hversu pabba var létt þegar hann flutti úr Tunguheiðinni yfir á Kópavogstún, nú þurfti hann ekki að viðhalda húsinu áfram. Nú ætlaði pabbi að nýta rólega tímann og hann átti mörg áhugamál sem hann ætlaði að njóta á efri árum; synda, teikna, mála, setja saman trémódelið af bátnum sem hann fékk í afmælisgjöf, spila golf og veiða nokkra silunga í Hraunsvatni.

Strákarnir okkar Sollu, Haukur Ingi og Ernir Ingi, minnast samverustunda með afa þar sem oftar en ekki var farið í heitapottinn og sund þar sem aðrir flúðu upp úr vegna hamagangs. Þeir muna eftir Niederegger-marsípaninu sem hann fékk um jólin og að allir fengu mola þegar þeir komu í heimsókn.

Ferðalögin og samverustundirnar eru dýrmætar minningar, stórfjölskyldan var dugleg að skipuleggja frí hérlendis, erlendis og oftar en ekki á Hrauni. Sérstaklega þykir okkur núna vænt um Tenerife-ferðina síðasta sumar sem ekki mátti miklu muna að yrði aflýst. Öll lögðumst við á eitt til að láta þetta ganga upp og barnabörnin stóðu sig eins og hetjur við að koma afa á milli staða í hjólastólnum, hvort sem það var niður á strönd, í bát eða upp á hæstu hæðir í vínsmökkun. Ferðalögin voru pabba dýrmæt og honum þótti vænt um þegar við komum öll saman. Hann sá alltaf til þess að það væri til nægur bjór fyrir okkur feðgana og ein góð viskíflaska af dýrari týpunni.

Hvíldu í friði, pabbi minn, og takk fyrir allar dýrmætu minningarnar sem þið mamma bjugguð til með okkur Sollu og strákunum mínum. Ég treysti á að þú sért kominn með fulla hreyfigetu á nýjum stað hvar sem þú ert og getir aftur nýtt þann kraft sem þú bjóst yfir.

Jóhann Ingi, Sólveig Helga, Haukur Ingi
og Ernir Ingi.