Fréttaskýring
Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Tekist er á um kröfugerð ríkisins í þjóðlendnamálum og ekki í fyrsta skipti. Í þetta skiptið eru það eyjar og sker sem eru undir eins og fjallað hefur verið um að undanförnu eða svæði 12. Óbyggðanefnd gefur eigendum eyja og skerja frest til 15. maí til að lýsa yfir eignarrétti sínum og rökstyðja.
Krafan er sett fram af fjármála- og efnahagsráðherra Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur fyrir hönd ríkisins þótt óbyggðanefnd sé með málið til meðferðar. Margir hafa gagnrýnt framgöngu ríkisins í málinu að undanförnu til að mynda hér í Morgunblaðinu. Telja margir viðmælendur ríkið ganga mjög langt og segja má að settar séu fram ýtrustu kröfur en ekki er þar með sagt að þær muni ná fram að ganga.
En sveitarfélög og einstaklingar þurfa að grípa til varna og sýna fram á að eignarréttur þeirra standist skoðun. Kostnaður við dómsmál yrði greiddur úr ríkissjóði en engu að síður kallar málið á talsverða fyrirhöfn hjá eigendum eyja og skerja.
Óþægilegt mál
Frá pólitískum sjónarhóli er málið ekki til vinsælda fallið. Ekki er óvarlegt að draga þá ályktun að Þórdís Kolbrún sé ekki hrifin af málinu en hún sagði í grein á Vísi að ekki gæti geðþótti ráðherra ráðið för heldur leikreglur. Greininni lauk Þórdís á þessum orðum: „Gerum betur næst, en blessunarlega er þetta lokahnykkur í verkefni, sem hófst árið 1998.“
Skiljanlegt er að Þórdísi sé ekki skemmt yfir þessari stöðu enda einkaeignarrétturinn í hávegum hafður hjá flokkssystrum og flokksbræðrum hennar í Sjálfstæðisflokknum. Auk þess er málið á heildina litið ekki nýtt af nálinni þótt krafan um eyjar og sker sé nýlega sett fram og hún er því andlit kröfugerðar ríkisins sem á sér langa sögu. Enda bendir Þórdís á að kröfugerð ríkisins í þjóðlendnamálum hófst í kjölfarið á lagasetningu árið 1998. Ósennilegt verður að teljast að Þórdís hafi þá á ellefta aldursári stýrt þingheimi á bak við tjöldin.
Þórdís fór á dögunum fram á það við óbyggðanefnd að hún endurskoðaði afstöðu sína varðandi svæði 12 og hæfi nýja málsmeðferð. Formlega gerði hún það í bréfi hinn 16. febrúar. Það má kalla tilmæli því óbyggðanefnd heyrir ekki undir fjármála- og efnahagsráðuneytið heldur heyrir hún undir forsætisráðuneytið.
Nefndin hafnaði beiðninni
Óbyggðanefnd hafnaði í gær beiðni ráðherrans en nefndin tók málið fyrir í vikunni og telur að hún myndi ekki einfalda málsmeðferðina gagnvart hugsanlegum rétthöfum á svæði 12. Hugmynd ráðherrans gekk út á að málsmeðferðin yrði með viðbótarþrepi samkvæmt 10. grein laga um þjóðlendur.
Samkvæmt því ákvæði, sem var bætt í þjóðlendulögin árið 2020, var nefndinni heimilt að byrja málsmeðferðina á svæði 12 á því að skora á alla þá sem kalla til eignarréttinda þar, aðra en ríkið, að lýsa réttindum sínum fyrir nefndinni áður en nefndin veitti fjármála- og efnahagsráðherra frest til að lýsa kröfum ríkisins um þjóðlendur. Á Alþingi var til umræðu um tíma hvort frekar ætti að hafa þennan háttinn á varðandi svæði 12. Að landeigendur settu fram sínar kröfur á undan ríkinu.
Einn viðmælenda blaðsins taldi að mögulega hefði sú leið skilað vægari kröfum hjá ríkinu þegar augljóslega væri hægt að sýna fram á að eyja væri partur af jörð sem dæmi. Ríkið setur fram ýtrustu kröfur eins og fram hefur komið en setur reyndar kröfuna fram með þeim fyrirvara að ekki séu endanleg gögn komin fram.
Kunnugleg viðbrögð
Kröfugerð ríkisins í þjóðlendumálum er ekki ný eins og áður segir og með kröfunum á svæði 12 er verið að framfylgja sautjánda og síðasta skrefinu í lögunum frá 1998. Tilgangur laganna er að eyða óvissu um eignarréttindi lands en þjóðlendnalögin fela í sér að land sé í eigu ríkisins ef aðrir geta ekki sannað eignarrétt.
Þegar landeigendur hafa tekið slag við ríkið, og haft betur, þá er eignarrétturinn vissulega afar skýr á eftir eins og hjá landeigendum á Hornströndum sem dæmi.
Viðbrögðin við kröfu ríkisins varðandi eyjar og sker eru lík viðbrögðum sem áður hafa heyrst í þjóðlendumálunum frá því farið var af stað. Þegar ríkið hefur sett fram kröfugerðina hafa landeigendur gjarnan furðað sig á hversu langt sé gengið. Fyrsta málið var í Árnessýslu árið 1999 og þá varð allt vitlaust svo notað sé orðalag úr lagatexta karlalandsliðsins í handknattleik á níunda áratugnum.
Þess má geta að mál landeigenda gegn ríkinu hafa farið fyrir Mannréttindadómstól Evrópu og verið vísað frá. Var það gert á þeim forsendum að þetta væru innanríkismál. Fleiri en fimmtíu dómar hafa fallið í slíkum málum í Hæstarétti Íslands.