Borgin á ekki að koma fram við borgarbúa eins og andlitslaust, óútreiknanlegt yfirvald

Franz Kafka virðist vera vinsælt lesefni hjá borgarapparatinu þessa dagana. Kafka skrifaði iðulega um andlitslaus bákn, sem breyttu lífi söguhetja í martröð án raka eða skýringa.

Í borginni beinast hin kafkaísku vinnubrögð að eigendum bifreiða. Í Morgunblaðinu í gær segir Nanna Gunnarsdóttir, sem býr við Nesveg í Vesturbæ Reykjavíkur, farir sínar ekki sléttar. Skyndilega er skellt á hana sekt fyrir að leggja bíl sínum með sama hætti og hún hefur gert um árabil. Nágranni hennar lenti í því sama, en fékk sektina niðurfellda. Hún fór fram á það sama, en í hennar tilfelli er það ekki tekið í mál.

Fyrr í vikunni var á mbl.is sagt frá hremmingum íbúa við Bergþórugötu 33 í miðbæ Reykjavíkur. Þeir standa í stappi við borgaryfirvöld vegna fyrirvaralausrar ákvörðunar Reykjavíkurborgar um að skerða þinglýstan umferðarrétt íbúa sem ekið hafa eftir stíg sem liggur að porti þar sem íbúar hafa lagt bílum sínum í 80 ár.

Í fréttinni kom fram að Reykjavíkurborg hefði íbúum að óvörum sett upp gönguskilti við innkeyrsluna og útbúið bílastæði sem þveraði fyrir hana. Þá hefðu gular brotalínur sem höfðu skilgreint innkeyrsluna verið þvegnar í burtu.

Í ljós kom að borgin hefur breytt deiliskipulagi og skilgreinir nú stíginn sem grænt svæði. Þegar íbúarnir kvörtuðu var þeim bent á að orðið stígur væri notað í hinum þinglýsta leigusamningi og þetta hlyti því að vera göngustígur. Stefanía Guðjónsdóttir, íbúi í húsinu sem um ræðir, er gáttuð á þessu og spyr hvort íbúar í Reykjavík þurfi nú að verða sér úti um þinglýstan göngurétt að húsi sínu. Þá viti hún ekki til þess að Barónsstígur og Vitastígur séu göngustígar þrátt fyrir götuheitin.

Þessi framganga borgarinnar er með ólíkindum. Fólk er sektað fyrirvaralaust fyrir að leggja eins og það hefur gert í áratugi. Skilgreiningum í skipulagi er breytt án þess að nokkurt tillit sé tekið til þess að það geti valdið íbúum ama og erfiðleikum. Engar viðvaranir eru gefnar. Það hvarflar ekki að borgaryfirvöldum að gefa fólki færi á að gera athugasemdir og andmæla fyrirætlunum þeirra.

Íbúar borgarinnar mega vart hrófla við húsum sínum án þess að fara í grenndarkynningu og fá samþykki nágranna sinna. Borgin veður hins vegar áfram og lætur sér hagsmuni borgarbúa í léttu rúmi liggja.

Þetta gæti allt hafa orðið Kafka efniviður. Framferði borgarinnar ber því hins vegar vitni að niðurstöður Pisa-könnunarinnar um að hátt hlutfall grunnskólanema geti ekki lesið sér til gagns eigi ekkert síður við í borgarkerfinu. Boðskapur Kafka var ekki að hið andlitslausa, óútreiknanlega yfirvald væri fyrirmynd til eftirbreytni. Hann var þvert á móti að það væri ómanneskjulegt og hrollvekjandi.