EM 2025
Víðir Sigurðsson
Bjarni Helgason
Ásta Hind Ómarsdóttir
Karlalandslið Íslands í körfuknattleik hóf undankeppni EM 2025 á besta mögulega hátt þegar það sigraði Ungverja, 70:65, í fyrstu umferðinni í Laugardalshöllinni í gærkvöld.
Fyrri hálfleikurinn var hnífjafn, Ungverjar voru þó oftar með forystuna, og staðan að honum loknum var 37:33, Ungverjum í hag, eftir að þeir skoruðu síðustu fjögur stig hálfleiksins.
Þeir náðu síðan níu stiga forystu fljótlega í síðari hálfleik, 47:38, en Ísland minnkaði muninn í 51:49 áður en þriðja leikhluta lauk.
Fjórði leikhlutinn var síðan stórkostlegur hjá íslenska liðinu sem skoraði tólf stig í röð og komst í 61:52. Ungverjar minnkuðu muninn í tvö stig á lokamínútunni en komust ekki nær og Martin Hermannsson skoraði síðustu fjögur stig Íslands af vítalínunni.
Gríðarleg stemning var í Laugardalshöllinni en löngu var uppselt á leikinn og 2.100 manns studdu íslenska liðið af krafti.
Tryggvi Snær Hlinason, Martin og Elvar Már Friðriksson voru í aðalhlutverkum hjá íslenska liðinu og skoruðu 44 af 70 stigum þess. Þá tók Tryggvi ellefu fráköst og Elvar átti átta stoðsendingar.