Formaður Sigurður Ágúst Sigurðsson, formaður Félags eldri borgara.
Formaður Sigurður Ágúst Sigurðsson, formaður Félags eldri borgara. — Ljósmynd/Haakon Broder Lund
„Það eru kjaramálin sem eru efst á baugi og segja má að þessi fjölmenni aðalfundur sýni það að fólk vill fara að sjá efndir loforða sem gefin hafa verið fyrir kosningar,“ segir Sigurður Ágúst Sigurðsson, nýkjörinn formaður Félags eldri borgara, en hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri DAS

„Það eru kjaramálin sem eru efst á baugi og segja má að þessi fjölmenni aðalfundur sýni það að fólk vill fara að sjá efndir loforða sem gefin hafa verið fyrir kosningar,“ segir Sigurður Ágúst Sigurðsson, nýkjörinn formaður Félags eldri borgara, en hann er fyrrverandi framkvæmdastjóri DAS.

Hann hlaut afgerandi kosningu á fundinum sem haldinn var sl. miðvikudag, fékk 60% atkvæða, en Sigurður Ágúst var einn fjögurra sem gáfu kost á sér til formennsku í félaginu. Fundurinn var vel sóttur og tóku 356 félagsmenn þátt í formannskosningunni.

Auk Sigurðar Ágústs sem hlaut 215 atkvæði í kosningunni buðu sig fram til formennsku þau Sigurbjörg Gísladóttir sem fékk 130 atkvæði, Borgþór Kjærnested sem hlaut sex atkvæði og Sverrir Örn Kaaber sem fékk þrjú. Niðurstaðan var því afgerandi.

„Ég reikna með því að kjaramálin verði forgangsmál hjá okkur,“ segir hann og bendir á að Félag eldri borgara sé ekki í þeirri stöðu að sitja við samningaborð og semja um sín kjör.

„Það eru aðrir sem gera það og við höfum lítil áhrif á hvað þar fer fram. Okkur finnst að okkur hafi verið úthýst eftir að við erum farin af vinnumarkaði,“ segir Sigurður Ágúst.

Á það hefur verið bent að afþreying fyrir eldri borgara sé dýrari í Reykjavík en í nágrannasveitarfélögunum og því leiti þeir frekar þangað eftir slíkri þjónustu.

„Þetta er eitt af mörgum málum sem þarf að skoða og berjast fyrir. Það er með ólíkindum að þetta skuli vera svona, en sveitarfélög eru ekki samstíga þegar kemur að gjaldaliðum eins og þessum. Þetta dæmi sýnir enn og aftur hvað óréttlætið er mikið. Við fáum ekkert um þetta að segja og virkar eins og við séum fyrir í samfélaginu, eins og ómagar,“ segir hann og nefnir einnig að fólk sem fær ellilífeyri almannatrygginga greiði yfir 70% af launum sínum í formi jaðarskatta.

„Það munar tugum prósenta samanborið við fólk sem enn er á vinnumarkaði,“ segir Sigurður Ágúst.

Þrír í stjórn og varastjórn

Auk Sigurðar Ágústs voru þrír menn kjörnir í stjórn félagsins og aðrir þrír í varastjórn.

Þátttaka í stjórnarkjörinu var aðeins minni en í formannskosningunni, en þar greiddu 340 manns atkvæði. Kosningu hlutu þau Guðrún Ósk Jakobsdóttir, Elinóra Inga Sigurðardóttir og Kristinn Eiríksson.

Þá voru eftirtaldir kosnir í varastjórn: Ragnar Árnason,
Bessí Jóhannsdóttir og Jón Magnússon.