Serbía Þorsteinn Halldórsson ræðir við blaðamann Morgunblaðsins á keppnisvellinum í Stara Pazova fyrir æfingu íslenska liðsins í gær.
Serbía Þorsteinn Halldórsson ræðir við blaðamann Morgunblaðsins á keppnisvellinum í Stara Pazova fyrir æfingu íslenska liðsins í gær. — Ljósmynd/Aleksandar Djorovic
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðs Íslands í fótbolta, segir að liðið þurfi að sýna sínar bestu hliðar í Stara Pazova í dag til að sigra ört vaxandi lið Serbíu í fyrri umspilsleik þjóðanna um sæti í A-deild undankeppni EM

Í Serbíu

Vladimir Novak

vnovak@eunet.rs

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðs Íslands í fótbolta, segir að liðið þurfi að sýna sínar bestu hliðar í Stara Pazova í dag til að sigra ört vaxandi lið Serbíu í fyrri umspilsleik þjóðanna um sæti í A-deild undankeppni EM.

Liðin mætast þar í dag klukkan 15 að íslenskum tíma en seinni leikurinn fer fram á Kópavogsvelli á þriðjudaginn kemur. Sigurliðið samanlagt verður í A-deild undankeppninnar og stendur því betur að vígi til að komast í lokakeppni EM 2025.

Leika í bestu deildum

„Serbía er gott lið með góða leikmenn sem spila hjá flottum liðum í Evrópu. Leikmenn liðsins eru í bestu deildunum eins og þeirri þýsku, ítölsku og ensku.

Við vitum að við þurfum að vera upp á okkar besta til að vinna Serbíu hér. Við höfum undirbúið okkur fyrir góðan og erfiðan leik hérna í Stara Pazova. Serbía vill halda í boltann þannig að við verðum að verjast vel og nýta okkar tækifæri í sókn,“ sagði Þorsteinn þegar Morgunblaðið ræddi við hann fyrir æfingu liðsins á keppnisvellinum í gær.

Öll liðin vildu fá okkur

Serbar töluðu um það fyrir leik að þeir vildu fá ykkur og að þið vilduð ekki mæta þeim. Hvað finnst þér um það? Þó að Serbía viðurkenni auðvitað að Ísland sé sigurstranglegri aðilinn í þessu einvígi.

„Serbía er að verða betri og betri með hverju árinu og það sýndi sig þegar U19-ára lið þeirra vann Ísland í október á síðasta ári. Mikil framför hefur átt sér stað í kvennafótboltanum í Serbíu.

Við vitum að við verðum að gera okkar besta til að sigra Serbíu. Einnig vitum við að öll liðin úr B-deildinni vildu mæta okkur. Við verðum bara að sanna að sú ósk hafi ekki verið góð.“

Endurkoma Sveindísar hlýtur að vera ykkur mikill liðsstyrkur?

„Já, að sjálfsögðu, öll lið myndu sakna hennar. Það er gott fyrir okkur af fá hana aftur og vonandi mun hún hafa sitt að segja á morgun. En þetta er liðsíþrótt og allir verða að vera hluti af liðinu. Vonandi spila allir vel á morgun.“

Natasha kemur með reynslu

Og Natasha Anasi er með ykkur í fyrsta sinn í tvö ár?

„Já, hún er með reynsluna og er að komast aftur í sitt besta form. Hún var lengi frá vegna meiðsla og er að ná sér vel. Hún er sterk og er hættuleg fram á við,“ sagði Þorsteinn.

Hin 19 ára gamla Nina Matic gæti spilað með serbneska liðinu og þykir mikið efni. Þekkir þú hana?

„Já, auðvitað, hún hefur spilað með U19-ára liði Serbíu og mætti Íslandi í fyrra. Hún er góður leikmaður og hefur spilað vel. Við þekkjum hana vel.“

Ánægður með aðstæður

Hann kvaðst ánægður með aðstæður í Serbíu en liðið æfði fyrst á æfingasvæði Rauðu stjörnunnar í Belgrad og síðan á keppnisvellinum í gær.

„Þessi völlur er mun betri en sá á æfingasvæðinu. Við gátum þó æft þar og gert það sem við vildum, þannig að við erum nokkuð ánægð með allt saman. Allt er samkvæmt plani,“ sagði Þorsteinn Halldórsson við Morgunblaðið.

Höf.: Vladimir Novak