Norður
♠ KG9532
♥ K
♦ K8
♣ ÁKD8
Vestur
♠ 10876
♥ 865
♦ D105
♣ G107
Austur
♠ 4
♥ D10732
♦ G74
♣ 9542
Suður
♠ ÁD
♥ ÁG94
♦ Á9632
♣ 63
Suður spilar 7G.
Spil dagsins er frá dönsku öldungakeppninni, sem nýlega var sýnt frá á BBO. Sagnir þróuðust lengi vel á sama hátt á báðum borðum: Suður opnaði á 1♦, norður sagði 1♠ og suður 1G. Danir eru „veikir fyrir veika grandinu“, eins og Gölturinn segir, og því sýnir suður 15-17 punkta með endursögninni á grandi í þessari stöðu. Norður ræsti tvíhleypuna með 2♦ (gervisögn og krafa í geim), suður sagði 2♥, norður 2♠ og suður 3♦.
Á þessum tímapunkti liggur fyrir að suður á níu rauð spil og bara tvíspil í spaða. Alslemma er því langsótt og annar norðurspilarinn gaf frekari rannsóknir upp á bátinn og sagði einfaldlega 6G. En hinn hélt samtalinu áfram með 3♠. Þegar suður hækkaði í 4♠ spurði norður um lykilspil og fékk besta svar – þrjá ása og spaðadrottningu. Þá blöstu við 13 slagir og norður gat lokið góðu verki með stökki í 7G.