Frábær frammistaða í fjórða og síðasta leikhluta færði Íslandi dýrmætan sigur á Ungverjalandi, 70:65, í fyrsta leiknum í undankeppni Evrópumóts karla í körfuknattleik í Laugardalshöllinni í gærkvöld.
Ungverjar náðu níu stiga forystu snemma í síðari hálfleik en þegar íslenska liðið hóf síðasta leikhlutann á að skora tólf stig í röð sneri það leiknum sér í hag og tryggði sér sigurinn á æsispennandi lokakafla.
Martin Hermannsson, Tryggvi Snær Hlinason og Elvar Már Friðriksson voru í aðalhlutverki hjá íslenska liðinu sem heldur nú til Tyrklands og spilar næsta leik í Istanbúl á sunnudaginn.
Sigurinn getur reynst ákaflega mikilvægur því reiknað er með að Ísland og Ungverjaland berjist um þriðja sæti riðilsins en þrjú efstu liðin komast í lokakeppni Evrópumótsins á næsta ári. » 27