Dagmál Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í viðtali.
Dagmál Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra í viðtali. — Morgunblaðið/Hallur
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að frumvarp um breytingar á útlendingalögum sé aðeins fyrsta skrefið í umbótum hælisleitendakerfisins. Annars sé að vænta þegar í haust. Þá sé lokað búsetuúrræði í bígerð

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra segir að frumvarp um breytingar á útlendingalögum sé aðeins fyrsta skrefið í umbótum hælisleitendakerfisins. Annars sé að vænta þegar í haust. Þá sé lokað búsetuúrræði í bígerð.

Þetta kemur fram í viðtali við Guðrúnu í Dagmálum, streymi Morgunblaðsins á netinu, sem birt er í dag og er opið öllum áskrifendum.

Guðrún segir að framkomið frumvarp um breytingar á lögum um hælisleitendur hafi tekið langan tíma í undirbúningi. Stjórnarflokkarnir hafi sammælst um að taka utan þessi mál af meiri þunga en áður, en þar verði m.a. horft til annarra norrænna landa.

Þegar hún er spurð um af hverju núverandi frumvarp hafi ekki dregið meiri dám af löggjöf annars staðar á Norðurlöndum, líkt og margir hafi lagt til, minnir hún á að hún sé einn þeirra sem það hafi gert. Hér sé aðeins um að ræða fyrsta skrefið í breytingu á fyrirkomulagi hælisleitendamála og stutt í hið næsta.

„Í haust. Við höfum sammælst um að taka þennan málaflokk mjög föstum tökum. Við ætlum að gera það vel. Með festu, ábyrgð og mannúð að leiðarljósi.“

Lokað búsetuúrræði

Guðrún á við áform um svokallað lokað búsetuúrræði fyrir nýkomna hælisleitendur meðan á frumathugun á málum þeirra stendur, en einnig þeirra sem fá synjun á hælisbeiðni og ber að yfirgefa landið. Frumvarp um það sé nú þegar í samráðsgátt.

„Við erum að setja á fót spretthóp sem fer yfir möguleika móttöku- og búsetumiðstöðvar á öllum málsmeðferðarstigum,“ segir Guðrún.

„Við erum aðilar að Schengen-samstarfinu og við erum eina ríki þess sem er ekki með [lokað búsetuúrræði]. Okkur ber að gera það.“

Hún vill bíða niðurstöðu spretthópsins áður en hún ræðir það nánar, en segir þó að það þurfi að vera í nágrenni við Leifsstöð.

Höf.: Andrés Magnússon