Eiríkur Örn Jónsson fæddist á Sjúkrahúsinu í Keflavík 4. september 1990. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítalans í Fossvogi 7. febrúar 2024.

Foreldrar hans eru Brynja Sigfúsdóttir, f. 12. september 1955, og Jón Axel Steindórsson, f. 19. september 1950. Bróðir Eiríks Arnar er Vilhjálmur Þór Jónsson, f. 15. apríl 1984.

Eiríkur Örn hóf búskap með Emmu Hönnu Einarsdóttur, f. 17. apríl 1986, aðeins 19 ára gamall. Þau eignuðust Leonard Aron, f. 9. október 2015, og áður andvana son, f. 24. janúar 2013, d. 24. janúar 2013. Þau slitu samvistum.

Eiríkur bjó síðan með Evu Rós Guðmundsdóttur, f. 5. apríl 1994, frá hausti 2015. Þau eignuðust tvö börn saman, eldri er Edvard Dagur, f. 25. desember 2016, og yngri er Anný Brynja, f. 27. júní 2019. Eiríkur og Eva slitu samvistum í lok árs 2021.

Eiríkur Örn kynntist svo Svandísi Ernu Þórðardóttur, f. 28. desember 1995, er þau hófu bæði nám í lögreglufræðum haustið 2022. Foreldrar Svandísar eru Elín Hildur Ástráðsdóttir, f. 13. ágúst 1961, og Þórður Bogason, f. 1. desember 1959. Dóttir Svandísar og stjúpdóttir Eiríks er Indíana Ellen Fredsholt, f. 21. júlí 2020. Eiríkur Örn og Svandís hófu búskap að Engjadal 2, Reykjanesbæ.

Eiríkur Örn bjó í Keflavík á uppvaxtarárum sínum og stundaði hefðbundið grunnskólanám en tók sér hlé frá námi eftir tvö ár í Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hann vann um tíma hjá Airport Associates og hlaðdeild Icelandair á Keflavíkurflugvelli, Birgisson í Reykjavík og lögreglunni á Keflavíkurflugvelli, en hóf síðan nám í flugvirkjun, fyrst hjá Keili en síðan færði hann sig yfir í Tækniskólann í Reykjavík og útskrifaðist þaðan í desember 2019. Eiríkur fór til starfsnáms í Þýskalandi, en þá skall covid-faraldurinn á heimsbyggðinni og allt flug riðlaðist. Eftir heimkomu frá Þýskalandi fór Eiríkur aftur til starfa hjá lögregluembættinu á vormánuðum 2021 og hafði starfað þar síðan. Haustið 2022 hóf hann nám í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri og átti að útskrifast þaðan í vor.

Eiríkur Örn var mikill íþróttamaður, æfði og spilaði knattspyrnu með Keflavík, stundaði hjólreiðar sér til ánægju og líkamsrækt alls konar til þess að halda sér í formi. Hann naut útivistar og samveru með börnunum sínum, lék við þau og var duglegur að fara með þau í útilegur, sumarbústaðaferðir og njóta samverunnar með þeim og fjölskyldunni allri.

Útför Eiríks Arnar fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag, 23. febrúar 2024, kl. 12.

Streymt verður frá útförinni, stytt slóð:

https://www.mbl.is/go/ztbuc

Elsku pabbi minn.

Að ég hafi aðeins fengið átta ár með þér skil ég bara ekki, þetta er svo ósanngjarnt! Ég hugsa mikið um okkar stundir sem við áttum saman og það fær mig til að brosa og finna hlýjuna frá þér.

Þær stundir sem við áttum eru mér svo dýrmætar. Að fara í sund og út að hjóla var svo skemmtilegt! Þegar ég og Edvard bróðir vorum í vagninum aftan á hjólinu hjá þér var alltaf svo gaman, við elskuðum það. Ég elska að hjóla eins og þú pabbi og var svo spenntur að fara með þér að hjóla í sumar og við báðir þá á fjallahjólum. Ég er svo glaður að hafa fengið að upplifa að fara í fyrsta skipti til Vestmannaeyja með þér. Ég var svo spenntur að fara loksins í Herjólf og það var gaman að sjá eyjuna úr skipinu.

Það var svo margt sem ég átti eftir að upplifa og bralla með þér en ég veit að þú verður alltaf hjá mér. Veit að þú pabbi og stóri bróðir passið mig núna frá himnum og fylgið mér alltaf.

Pabbi minn, takk fyrir allar þessar stundir sem við áttum saman og þú verður alltaf með mér í hjarta mínu.

Ég elska þig.

Þinn sonur,

Leonard Aron.

Kveðja til pabba.

Takk fyrir allt elsku pabbi. Þú varst góður og það var oft svo gaman hjá okkur. Það var skemmtilegast þegar við vorum öll saman að leika og byggja legó. Það var líka gaman að fara í sund, bíó og ferðalög með þér, til dæmis á Akureyri, og útilegur. Það var alltaf gott að knúsa þig og það var alltaf svo góð lykt af þér. Þú varst svo sterkur og núna ertu verndarengillinn okkar.

Pabbi var svo góður

alltaf svo ljúfur

hann var bestur og mestur

við elskum hann svo mikið

en nú er hann farinn til Jesú

og við söknum hans að eilífu.

Við elskum þig pabbi okkar.

Alltaf þín,

Edvard Dagur og
Anný Brynja.

Hann fæddist á fallegum haustdegi algjört kraftaverk, stór og sterklega vaxinn og greinilegt að honum voru ætlaðir stórir hlutir í lífinu. Hann fékk höfðingjanafnið Eiríkur Örn. Hann var hæglátur, en traustur og öruggur, var ekki að trana sér fram, heldur hélt sig baka til og fylgdist með úr fjarlægð.

Eiríkur fór snemma að taka þátt í verkefnum sem við tókum okkur fyrir hendur, vildi skipuleggja hvað þyrfti að gera og hvernig það var gert. „Pabbi, koddu að viðgera,“ var viðkvæðið ef eitthvað þurfti að framkvæma. Hann var hjálpfús og fyrirhyggjusamur, liðtækur til allra verka og framtakssamur.

Hann æfði bæði körfubolta og fótbolta með sínu félagi, Keflavík, frá unga aldri en síðar þegar æfingum fjölgaði varð fótboltinn fyrir valinu og átti hug hans allan.

Eiríkur Örn naut útivistar allrar og útiveru. Snemma fórum við feðgar í gönguferðir saman hér á skaganum, sváfum í tjaldi, fórum Prestastíginn, Stóru Skógfellsleiðina og Djúpavatn. Seinna voru það hjólaferðir með allan viðlegubúnað. Alltaf var skipulagið á hreinu hjá Eiríki og voru þar smáatriðin mikilvægust og engu mátti gleyma, hafði hann og við báðir mikla ánægju af þessum ferðum.

Eiríkur stundaði nám í Tónlistarskólanum í Keflavík, lærði á trommur og á bassa. Þetta val þitt á hljóðfærum, elsku drengur, sýndi svolítið þinn innri mann sem og stöður sem þú spilaðir í fótboltanum, alltaf aftasti maður, að slá taktinn og hvetja menn til dáða, elsku drengurinn, og þannig hvattir þú okkur öll til dáða og studdir.

Þú studdir fast við bakið á bróður þínum Vilhjálmi Þór, hvattir hann til dáða, hrósaðir honum í hástert fyrir unnin afrek og varst til staðar ef á þurfti að halda og fylgdist með honum úr fjarlægð. Þegar þið voruð yngri var það Vilhjálmur sem passaði þig og hvatti og kenndi þér snemma að sparka fótbolta, markvissar æfingar sem skiluðu góðum árangri.

Þessir eðlisþættir, gott skipulag, agi og framtakssemi, nutu sín vel í öllu sem þú tókst þér fyrir hendur. Það var ánægjulegt að sjá hve gleði þín var mikil yfir að verða faðir, hvað þú varst stoltur af þeim og elskaðir þau. Mikil var hamingjan þegar þau komu til þín til lengri eða skemmri dvalar þá þurfti að nota tímann vel og gera eitthvað skemmtilegt úti við, fara í sund, í gönguferðir, í útilegur og anda að sér fersku útiloftinu.

Eiríkur fann lífsförunaut og sinn besta vin í Svandísi Ernu Þórðardóttur sem var bæði samstarfsfélagi í lögreglunni og samferða í náminu í lögreglufræðum. Þau hófu búskap og dóttir Svandísar, Indíana, og Eiríkur urðu miklir mátar og vinir. Eiríkur og Svandís áttu vel saman, voru með ólíkar skoðanir á mörgu en lífsgildin þau sömu, bæði jarðbundin og yfirveguð. Svandís er yndisleg stúlka og gerði Eirík okkar hamingjusaman.

Sorgin er mikil og við grátum, hugurinn fljótandi og okkur reynist erfitt og þungbært að halda einbeitingu án þín, Eiríkur. Við vonum að mildin komi til okkar, hugurinn nái að staldra við og við náum smám saman áttum. Við munum sakna þín óskaplega en þökkum þér samfylgdina, reynum að passa og fylgja eftir yndislegu börnunum þínum, litlu englunum þínum sem þú elskaðir og dáðir og munum halda í höndina á Svandísi þinni og Indíönu eins og við mögulega getum.

Takk fyrr allt, elsku sonur og bróðir, við elskum þig og vorum óskaplega stolt af þér og öllum þínum afrekum ávallt.

Mamma, pabbi og
Vilhjálmur Þór.

Elsku Eiríkur.

Þú komst inn í líf fjölskyldunnar okkar eins og þú hefðir alltaf verið þar þegar Svandís dóttir okkar kynnti þig fyrir okkur. Bjartur og fallegur ungur maður og svo yndislegur og hjálpfús, þú vildir allt fyrir alla gera og við tókum strax ástfóstri við þig, ekki annað hægt enda svo góður drengur og heill í gegn. Þú varst alltaf svo blíður og góður við Svandísi okkar og Indíönu að það var unun að fylgjast með því og fyrir það erum við þér ævinlega þakklát. Við eigum eftir að sakna þín mikið, en við yljum okkur við góðar og skemmtilegar minningar frá bústaðaferðum, matarboðum og öllum þeim stundum sem við áttum saman. Mikið á Svandís okkar eftir að eiga um sárt að binda, en við pössum upp á hana og Indíönu fyrir þig sem og litla ófædda barnið ykkar.

Hvíldu í friði elsku drengurinn.

Umhyggju og ástúð þína

okkur veittir hverja stund.

Ætíð gastu öðrum gefið

yl frá þinni hlýju lund.

Gáfur prýddu fagurt hjarta

gleðin bjó í hreinni sál.

Í orði og verki að vera sannur

var þitt dýpsta hjartans mál.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Elsku Svandís okkar, Brynja, Jón og Vilhjálmur, við Þórður sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur, megi guð gefa ykkur styrk í ykkar miklu sorg. Megi guð einnig gefa Leonard, Edvard, Anný og Indíönu, börnum Eiríks, styrk og passa upp á þau í þeirra miklu sorg og missi yndislegs föður og stjúpföður.

Elín Hildur Ástráðsdóttir.

Fjórði september 1990. Mamma hringdi og sagði að Brynja systir væri komin af stað og skömmu síðar kom annað símtal, heilbrigður og fallegur drengur fæddur. Hann fékk nafnið Eiríkur Örn. Hann dafnaði vel, var fljótur til, svipfríður, ljúfur og góður og uppáhald allra. Eldri bróðir hans Vilhjálmur Þór lét sér það vel lynda að nýr einstaklingur væri mættur á svæðið. Brynja og Jón Axel, maður hennar, sóttu öll íþróttamót landsins með drengina sína, sinntu uppeldi þeirra af natni og umhyggu. Þegar drengurinn óx úr grasi kom í ljós sjálfstæður einstaklingur, hlédrægur, í augum ævinlega hlý kímni, einhver staðfesta. Hann gætti þess að halda sínum hlut en með þeirri ljúfmennsku sem honum var í blóð borin. Hann varð höfðinu hærri en foreldrarnir, hafði áhuga á útivist og hreyfingu, félögunum, sjálfu lífinu.

Um skeið vissi hann ekki hvert yrði ævistarfið, hann lærði til flugvirkja og vann meðal annars á covid-tímanum úti í Þýskalandi, en hefur síðustu misseri unnið sem lögreglumaður í Keflavík og lært til þess starfs, vel metinn, þótti leiðtogaefni og traustur, eins og hann átti kyn til.

Eiríkur eignaðist soninn Leonard Aron 2015 með Emmu Hönnu Einarsdóttur og Edvard Dag 2016 og Annýju Brynju 2019 með Evu Rós Guðmundsdóttur. Stóru ástina í lífi sínu fann hann í Sveindísi Þórðardóttur, þeirri konu ætlaði hann að giftast. Samband hans við dóttur hennar, Indíönu Ellen Fredsholt, var fallegt. Þau Sveindís voru farin að leita að húsnæði í Keflavík – draumar þeirra voru stórir – þau ætluðu að feta veg lífsins saman. Þá gerðist það. Þann 30/1 lenti Eiríkur í árekstri við Straumsvík. Frá upphafi var ljóst að áverkarnir voru alvarlegir og svo fór að 7.2. var hann úrskurðaður látinn. Þessi örlagatími frá slysinu hefur verið foreldrum og ástvinum erfiður, þrunginn tilfinningum sem enginn hefur reynt áður. Orð ná varla að lýsa harmi systur minnar og mágs, Svandísar, barnanna og annarra ástvina. Bið algóðan Guð að fylgja þeim hvert spor, umvefja þau mildi sinni og gefa þeim styrk. Far í friði, elsku hjartans Eiríkur Örn Jónsson.

Guðrún Sigfúsdóttir.

Þann 4. september 1990 fæddist þeim Brynju og Nonna fallegur drengur. Fyrir áttu þau Vilhjálm Þór sem þá var sex ára. Drengurinn var líkur báðum foreldrum sínum á margan hátt. Ljúfur, athugull, feiminn og duglegur. Hann ólst upp við ástríki bæði í leik og starfi. Duglegur námsmaður, vinur vina sinna og íþróttamaður. Næstu árin liðu við leik og störf undir handleiðslu foreldranna sem fylgdu báðum drengjunum sínum í íþróttum þeirra. Litli drengurinn varð að ungum manni, sem áfram bar foreldrum sínum og uppeldinu gott vitni.

Hann eignaðist þrjú börn, þau Leonard Aron, Edvard Dag og Anný Brynju, sem öll bera hans einkenni. Hann kynntist svo ástinni sinni henni Svandísi Ernu og varð stjúpfaðir hennar Indíönu Ellenar og lífið brosti við þessu unga pari. Þau voru að leita sér að framtíðarhúsnæði fyrir fjölskylduna þegar ógæfan dundi yfir. Eiríkur lést í bílslysi þann 7. febrúar sl. Mikill varð missir kærustu, barna, foreldra, bróður og okkar allra sem þau þekktu. Lífið tekur stundum óvænta stefnu og er ekki alltaf sanngjarnt. Harmur okkar er ósvikinn og hugur okkar allra er hjá ykkur núna. Megi góðar vættir styrkja ykkur og okkur öll á þessari stundu. Minningin um Eirík mun lifa með okkur öllum um ókomna framtíð.

Jófríður Hanna
Sigfúsdóttir (Jósý).