Kvennafrí Sögulegur dagur árið 1975.
Kvennafrí Sögulegur dagur árið 1975. — Morgunblaðið/Ó.K.M.
Þegar ég lagði af stað í vinnuna einn morguninn í vikunni og setti bílinn í gang hljómaði kunnuglegur söngur í útvarpinu þótt ég væri með það stillt á BBC World Service. „Áfram stelpur hér er höndin, hnýtum saman vinaböndin,“ var sungið hástöfum

Guðmundur Sv. Hermannsson

Þegar ég lagði af stað í vinnuna einn morguninn í vikunni og setti bílinn í gang hljómaði kunnuglegur söngur í útvarpinu þótt ég væri með það stillt á BBC World Service. „Áfram stelpur hér er höndin, hnýtum saman vinaböndin,“ var sungið hástöfum.

Þetta reyndist vera þátturinn Witness History þar sem rifjaðir eru upp merkilegir atburðir sem gerst hafa víða um heim og í þessum þætti, sem raunar var upphaflega fluttur árið 2015, var fjallað um kvennafrídaginn á Íslandi 24. október árið 1975. Og sögumaðurinn var ekki af verri endanum: Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands.

Sögurnar sem Vigdís sagði af þessum degi voru margar stórskemmtilegar. Hún lýsti því hvernig atvinnulífið hefði nánast lamast þegar konurnar gengu út af vinnustöðunum og karlarnir þurfu að sjá um börnin og heimilishaldið þennan dag. Meðal annars sagði hún að það hefði verið afar merkilegt að hlusta á útvarpsfréttirnar því í bakgrunninum heyrðist í börnum, sem fréttamennirnir höfðu tekið með sér í vinnuna, að leik.

Vigdís sótti útifundinn í miðbæ Reykjavíkur ásamt móður sinni og þriggja ára gamalli dóttur. „Krafturinn á fundinum var gríðarlegur,“ sagði hún. „Þetta var frábær dagur.“