Frammistaða íslenska liðsins var upp og ofan. Það er langt síðan landsliðið kom síðast saman og að tryggja sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins er og hefur alltaf verið stærsta markmið liðsins. Það var því ákveðinn skrekkur í liðinu til að byrja með og Ungverjarnir voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik.
Eftir erfiða byrjun small allt í fjórða leikhluta, bæði í sókn og vörn, en þrátt fyrir að leiða með 9 stigum, 61:52, þegar fimm mínútur voru til leiksloka, tókst þeim að gera leikinn óþægilega spennandi á lokamínútunni.
Martin Hermannsson sneri aftur í liðið eftir langa fjarveru og var frábær. Elvar Már Friðriksson náði sér engan veginn á strik framan af en sýndi mikinn karakter með því að vinna sig með herkjum inn í leikinn og draga vagninn þegar mest á reyndi. Tryggvi Snær Hlinason skoraði 14 stig og tók ellefu fráköst og var mjög fyrirferðarmikill í teignum, báðum megin vallarins. Minni spámenn létu vel að sér kveða, eins og Kristinn Pálsson sem skoraði 11 stig og Orri Gunnarsson sem átti góða innkomu í leiknum.
Það skiptir öllu máli fyrir íslenska liðið að byrja undankeppnina vel og það tókst svo sannarlega því sigur er alltaf sigur. Breiddin er til staðar og skrekkurinn er liðinn hjá. Liðið á mikið inni og það er mikið rúm til bætinga. Þetta er lið sem á eftir að slípa sig vel saman og það verður bara sterkara eftir því sem líður á undankeppnina.