Jóhannes Þór Jóhannesson fæddist á Patreksfirði 28. maí 1945. Hann lést á bráðamóttöku Landspítalans 8. febrúar 2024.

Foreldrar Jóhannesar Þórs voru Jóhannes Kristinn Þórarinsson verkstjóri, f. 17.8. 1893, d. 17.7. 1946, og Sigríður Hjartardóttir húsmóðir, f. 6.8. 1921, d. 12.12. 1987.

Fósturfaðir Jóhannesar og seinni maður Sigríðar var Magnús Jónsson frá Patreksfirði, f. 26.11. 1923, d. 14.5. 2011.

Systkini Jóhannesar í föðurætt eru Þórarinn, f. 19.3. 1915, d. 7.4. 1935, Jakob, f. 1.6. 1916, d. 17.3. 1932, Jóhann Sigurður, f. 15.6. 1919, d. 13.11. 1973, Andrea Sigríður, f. 22.2. 1921, d. 16.9. 2008, Theódór Guðjón, f. 22.6. 1923, d. 2.11. 2014, Einar, f. 15.4. 1926, d. 12.5. 1998, Hreiðar, f. 16.3. 1929, d. 1.9. 1945, og Þórarinn Ingi, f. 7.11. 1939, d. 9.9. 1945.

Systkini í móðurætt eru Hjörvar Þór Jóhannesson, f. 2.7. 1943, d. 17.8. 1989, Hrafnhildur Þór Jóhannesdóttir, f. 20.1. 1947, Þórdís Magnúsdóttir, f. 2.7. 1950, Ármann Ægir Magnússon, f. 19.5. 1952, d. 31.5. 2023, og Hafberg Magnússon, f. 21.3. 1957.

Fyrri eiginkona Jóhannesar var Guðrún Ósk Ólafsdóttir, f. 26.9. 1954, d. 3.9. 1994, og áttu þau eina dóttur saman, Elísabetu Þór, f. 2.11. 1977. Elísabet á þrjú börn, Töru Mist Haraldsdóttur, f. 14.8. 2000, Snorra Þór Haraldsson, f. 21.9. 2008, og Jóhannes Þór Haraldsson, f. 9.6. 2011. Jóhannes eignaðist einnig dótturina Guðrúnu Sigríði, f. 29.6. 1971.

Fósturforeldrar Elísabetar eru Þórdís Magnúsdóttir og Eyvindur Bjarnason. Uppeldissystur hennar eru Guðríður Magnea og Katrín Anna Eyvindsdætur.

Sambýliskona Jóhannesar Þórs var Helga Breiðfjörð, f. 20.6. 1940, börn hennar eru: Snorri Sigurhjartarson, f. 26.7. 1963, eiginkona hans er Svava Björg Þorsteinsdóttir og eiga þau þrjú börn saman, Sonju Katrínu, Dagnýju Björgu og Agnesi Þóru en fyrir á Snorri tvö börn úr fyrra hjónabandi, Sigurhjört og Helgu Valgerði. Guðrún Sigurhjartardóttir, f. 5.3. 1965, og á hún tvö börn, Rut Guðrúnardóttur og Tinnu Ingólfsdóttur. Sigrún Sigurhjartardóttir, f. 28.12. 1969, sambýlismaður hennar er Haraldur Óli Ólafsson og á hún tvö börn úr fyrra hjónabandi, Sæunni Ýri og Díu Rós Óskarsdætur.

Jóhannes Þór vann ýmis störf í gegnum ævina en lengst af starfaði hann sem matreiðslumaður til sjós og lands.

Útförin fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 23. febrúar 2024, klukkan 13.

Föðurminning

Englar Guðs þér yfir vaki og verndi pabbi minn

vegir okkar skiljast núna, við sjáumst ekki um sinn.

En minning þín hún lifir í hjörtum okkar hér

því hamingjuna áttum við með þér.

Þökkum kærleika og elsku, þökkum virðingu og trú

þökkum allt sem af þér gafstu, okkar ástir áttir þú.

Því viðmót þitt svo glaðlegt var og góðleg var þín lund

og gaman var að koma á þinn fund.

Með englum Guðs nú leikur þú og lítur okkar til

nú laus úr viðjum þjáninga, að fara það ég skil.

Og þegar geislar sólar um gluggann skína inn

þá gleður okkur minning þín, elsku pabbi minn.

Vertu góðum Guði falinn er hverfur þú á braut

gleði og gæfa okkur fylgdi með þig sem förunaut.

Og ferðirnar sem fórum við um landið út og inn

er fjársjóðurinn okkar pabbi minn.

(Guðrún Sigurbjörnsdóttir)

Hvíldu í friði kæri, pabbi og afi.

Elísabet og börn.

Þakklæti og virðing eru okkur efst í huga þegar við minnumst þín, elsku Jói.

Síðustu dagar hafa liðið hjá í móðu og minningarnar sækja endalaust á okkur. Það eru margar minningar sem skjóta upp kollinum þegar við hugsum til baka.

Mamma sagði alltaf að það væri enginn sem gæti gert eins góðar sósur og þú, við verðum að vera henni sammála því þær klikkuðu aldrei, eða ef út í það er farið var það alltaf þitt uppáhald að bjóða upp á veislumat, og við munum ekki eftir að það hafi klikkað. Meira að segja núna síðustu dagana þína var það skemmtilegasta sem þú sást fyrir þér að fara út í búð og gera góð innkaup. Þú varst alltaf búinn að stúdera hvert þú vildir fara og hvað þú vildir kaupa. Gera magninnkaup þó að nóg væri til eða góð kaup eins og þú kallaðir það.

Þú varst svo sannarlega mikill matmaður og okkar skemmtilegustu stundir saman snerust oft um mataruppákomur og má þar nefna þegar þú komst síðast til okkar í skötuveislu. Þú hafðir ekki haft mikla matarlyst dagana á undan en þú tókst vel til matar þíns að vestfirskum sið þegar þú fékkst mat sem þú kunnir að meta og varst í góðum félagsskap.

Já, elsku Jói, það er skrítið að hugsa til þess að þú sért ekki heima þegar við komum á 17. júní torg. Enginn til að bjóða okkur að smakka þetta eða hitt. Alltaf að gera einhverjar tilraunir, eins og fíflavínið eða grafið lamb sem hefur verið okkar uppáhalds í mörg ár.

Þú munt áfram vera með okkur og við munum alltaf minnast þín með þakklæti og vinarhug.

Sigrún og Haraldur Óli.

Elsku afi, takk fyrir allar samveru- og kennslustundirnar sem við áttum saman. Þú sýndir okkur systrum endalausa þolinmæði og varst alltaf til staðar fyrir okkur. Þú varst alltaf til í að gantast með okkur og miðla reynslu þinni til okkar.

Við minnumst töfrabragða þinna þar sem þú varst duglegur að láta krónupeninga og annað skemmtilegt birtast úr eyrunum á okkur. Samverustundanna í náttúrunni þar sem þú kenndir okkur hvað plöntur heita, hverjar væru ætar og hvernig við gætum þekkt þær út frá lykt. Við munum alltaf eftir því þegar við fórum og tíndum alls konar gróður sem var svo notaður í eldamennskuna uppi í sumarbústað. Við höfðum sennilega aldrei borðað jafn mikið blóðberg og eftir að þú fræddir okkur um það.

Þú varst líka duglegur að rækta sjálfur þitt eigið grænmeti og ávexti og bauð garðurinn í Hveragerði upp á alls kyns gúmmelaði eins og jarðarber og tómata. Við horfum alltaf hugfangnar á uppskeruna og áttum það til að stelast í jarðarberin. Þegar þú uppgötvaðir það varstu duglegur að láta okkur vita þegar þau voru tilbúin og bauðst okkur að bragða á uppskerunni.

Svo gerðirðu auðvitað bestu rúllupylsuna og hafðir gaman af því að leyfa okkur að smakka þorramatinn. Það var alltaf gaman að heyra sögurnar þegar við fórum í Kolaportið og gengum milli sölumanna og fengum hákarl.

Í mörg ár eyddum við alltaf jólunum saman og minnumst við þín í eldhúsinu með svuntu að undirbúa jólamatinn. Þá nutu hundarnir góðs af þar sem þú varst duglegur að læða einhverju til þeirra. Það var orðinn fastur vani að fá hjá þér grafið kjöt fyrir jólin og auðvitað fylgdi alltaf sósa með. Það voru hreinlega ekki jól nema hafa grafið kjöt frá þér.

Eins og flestir vita sem þekktu þig þá hafðirðu mikla ástríðu fyrir myndlist og hæfileikarnir leyndu sér ekki. Þú varst duglegur að deila reynslunni og deildum við systur sama áhugamáli, þú varst duglegur að leiðbeina okkur og hvetja okkur til að styrkja þetta áhugamál og eigum við báðar myndir eftir þig sem eru okkur mjög dýrmætar. Það er okkur minnisstætt þegar Día málaði mynd af fiskum sem hún gaf þér sem þú hengdir fyrir framan svefnherbergið ykkar á hvolfi. Þannig fékk myndin alltaf að hanga þrátt fyrir að þér hefði verið bent á annað, og hlógum við alltaf að því.

Við munum alltaf minnast samverustundanna og minninganna sem við sköpuðum með þér. Við munum ávallt elska þig.

Sæunn Ýr og Día Rós.

Ferð þín er hafin.

Fjarlægjast heimatún.

Nú fylgir þú vötnum

sem falla til nýrra staða.

Og sjónhringar nýir

sindra þér fyrir augum.

(Hannes Pétursson)

Kæri Jói.

Þá er stóra stundin runnin upp og líkaminn gat ekki meir. Það er hræðilegt hvernig banvænir sjúkdómar taka fólk á stuttum tíma og enginn fær rönd við reist. Þú fékkst þó nokkra mánuði hér í Garðabænum og mikið voruð þið Helga dugleg að nýta sólardaga til útivistar síðasta sumar. Enda voruð þið búin að dvelja mikið í sól á veturna árum saman. Þið völduð því að vera sólarmegin í lífinu meðan heilsan leyfði.

Það er gott að eiga góða nágranna, ekki síst þegar nábýlið er mikið. Við bjuggum hlið við hlið í átta ár og áttum margar góðar samverustundir. Tengslin verða betri og nánari í smærri bæ eins og Hveragerði heldur en í mannmergðinni vestan megin við heiðina.

Ekki var nú mikið um ósamkomulag nema styr stóð um hátt og mikið tré sem var norðan við ykkar hús. Það var svo stórt að það náði upp að þakinu á ykkar húsi og yfir grindverkið að minni innkeyrslu. Þar með hrundi lauf á haustin í miklu magni yfir til mín. Einnig fuglaskítur þegar fuglar sátu á greinunum. Þér var lengi vel annt um þetta tré en svo kom að þú pantaðir gröfu til að taka tréð. Þá tók við margra, margra mánaða bið. Loksins þegar gröfumaðurinn mætti skildi hann eftir meira en metra háan mjög þykkan bút og þar undir voru að sjálfsögðu ræturnar.

Síðan leið og beið en ekki kom grafan til að ljúka verkinu. Nú byrjuðu að vaxa sprotar út úr stofninum og nýtt tré var í sjónmáli. Þér fannst þá ekki annað í stöðunni en að reyna að drepa það sem eftir var af trénu. Tekin var sú ákvörðun að skafa börkinn af trjábútnum og þar með lét hann ekki meira á sér kræla. En varð með tímanum kolsvartur. Nú stendur þessi skúlptúr í garðinum á Heiðarbrún 67 til minningar um Jóhannes Þór.

Það var gaman hvað þið Björn brösuðuð margt saman, meðal annars við að setja saman stórmerkilegan snjóblásara sem var þegar upp var staðið gallagripur og virkaði aldrei! Hann var því látinn fara aftur til föðurhúsanna og fékkst endurgreiddur.

Þið hjónin höfðuð yndi af því að vera úti á sólpallinum í Hveragerði og gera fallegt í kringum ykkur með blómum og öðrum gróðri. Ófáar stundir áttum við þar með ykkur yfir kaffibolla og góðgæti sem og innan húss ef ekki var hægt að sitja úti.

Mér fannst gott að geta fylgst með þér allt fram á síðasta dag og spurði þig alltaf hvernig þér liði í hvert sinn sem við hittumst. Þú kvartaðir aldrei að fyrra bragði en er þú komst þann 5. febrúar fann ég að það var mjög af þér dregið en þér fannst snitturnar meiri háttar.

Þegar samferðafólk hverfur er svo mikilvægt að hugsa um það sem stendur í kvæði Braga Valdimars: „Líttu sérhvert sólarlag, sem þitt hinsta væri það …“ Með öðrum orðum njóta hverrar stundar eins og kostur er því aldrei veit maður með vissu hvað er fram undan.

Ég þakka þér einstaklega góð kynni og fyrir að styrkja mig á erfiðum stundum. Sendi Helgu og öllum aðstandendum mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Birna Torfadóttir.