Þrekvirki Verktakar hafa unnið daga og nætur við að tryggja afhendingu heits vatns til sveitarfélaga á Suðurnesjum á undanförnum vikum.
Þrekvirki Verktakar hafa unnið daga og nætur við að tryggja afhendingu heits vatns til sveitarfélaga á Suðurnesjum á undanförnum vikum. — Morgunblaðið/Eggert
Unnið er hörðum höndum að því að leggja varahjáveitulögn frá Svartsengi að Grindavík, yfir hraunið sem rann 14. janúar. Áætlað er að lögnin verði tengd á morgun en það mun taka nokkra daga að hleypa heitu vatni á fullum þrýstingi í gegnum lögnina

Hermann Nökkvi Gunnarsson

hng@mbl.is

Unnið er hörðum höndum að því að leggja varahjáveitulögn frá Svartsengi að Grindavík, yfir hraunið sem rann 14. janúar. Áætlað er að lögnin verði tengd á morgun en það mun taka nokkra daga að hleypa heitu vatni á fullum þrýstingi í gegnum lögnina.

Þetta segir Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu, í samtali við Morgunblaðið.

Hjáveitulögnin fór að hluta til undir hraun og lekur um 30 lítrum á sekúndu af þeim 75 lítrum sem hleypt er inn á hana. Því lekur of mikið af vatni til að halda nægum þrýstingi. Nú er tengd ný lögn við báða enda hjáveitulagnarinnar, sitt hvorum megin við hraunið. Alls eru þetta um 300 metrar af lögnum sem fara yfir hraunið.

„Það er verið að trilla efni á staðinn, smíða tengistykki og móta þetta allt saman. Planið er að koma þessu saman á laugardaginn,“ segir Jón.

Núna er verið að flytja hluta af gömlu Grindavíkurlögninni á staðinn og verður hún endurnýtt í þessa nýju lögn, segir Jón. Heitu vatni verður hleypt inn á lögnina um leið og hún verður klár en þrýstingurinn verður ekki kominn í hámark fyrr en búið verður að stilla hitagrindurnar í húsunum í Grindavík. Jón kveðst ekki vita almennilega hvenær búið verður að fara yfir hitagrindurnar en segir að það verði helsta verkefnið í næstu viku.

Vonast Jón til þess að byrjað verði að auka þrýstinginn í lögninni jafnt og þétt samhliða því að farið er yfir hitagrindurnar. Reiknað er með því að þetta taki nokkra daga, en nákvæmur tímarammi liggur ekki fyrir að hans sögn.

Kalt vatn byrjaði að renna til Grindavíkur í gær og stefnt er að því að hleypa þrýstingi á lagnir í fösum, en það komst fyrst á á hafnarsvæðinu. Einar Sveinn Jónsson, slökkviliðsstjóri í Grindavík, segir í samtali við Morgunblaðið að hægt og rólega verði þrýstingurinn aukinn og byrjað að hleypa vatni í íbúðahverfin.

„Við þurfum að hleypa þrýstingnum mjög varlega á því heimtaugar geta verið frostsprungnar og í sundur,“ segir Einar.

Fyrsta löndunin

Vésteinn GK með 12 tonn

Vésteinn GK landaði 12 tonnum af fisk í gær, fyrst fiskiskipa til að landa í Grindavík síðan 11. janúar. Menn féllust í faðma er áhöfnin steig á land og var mikil ánægja. Var um 30 kör af þorski að ræða og á þriðja kar af ýsu.

Stefán Kristjánsson, eigandi Einhamars Seafood, var á höfninni til að fylgjast með og var hann yfir sig ánægður með fyrstu löndunina.

„Þetta eykur bjartsýni og þor. Hjólin eru farin að snúast.“

Höf.: Hermann Nökkvi Gunnarsson