Belinda Theriault
Belinda Theriault
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fulbright á Íslandi er máttarstólpi í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna.

Belinda Theriault og Bryndís Björk Ásgeirsdóttir

Fulbright á Íslandi er máttarstólpi í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna. Starfsemi Fulbright-stofnunarinnar hefur tekið margvíslegum breytingum í gegnum 67 ára sögu hennar, en sveigjanleiki stofnunarinnar hefur gert henni kleift að mæta áskorunum, stunda nýsköpun og tryggja að hægt sé að bregðast við þörfum menntasamfélagsins hverju sinni.

Margar nýjungar í styrkjum og starfi hafa átt sér stað á undanförnum árum. Eftir samtöl við háskólastjórnendur um nokkurn tíma varð stjórn ljóst að veruleg þörf væri á því að bjóða upp á nýja tegund af styrkjum sem gerði íslenskum doktorsnemum kleift að dvelja við bandaríska háskóla í nokkra mánuði til að sækja námskeið og stunda rannsóknir, sérstaklega þeim sem höfðu ekki haft tækifæri til náms erlendis á fyrri stigum háskólanáms. Fulbright-stofnunin hefur nú boðið upp á slíka styrki í fjögur ár og hafa þeir notið mikilla vinsælda. Þetta er til viðbótar við þá sem hljóta styrk til að stunda fullt nám, en það er ljóst að í langflestum tilfellum hafa doktorsnemar ekki fjárhagslegt svigrúm til slíkrar dvalar án stuðnings frá Fulbright. Fyrstur til að hljóta þennan styrk var fyrsti doktorsneminn við Háskólann á Akureyri, sem hlaut styrk árið 2021 til Michigan-háskóla. Á yfirstandandi skólaári hafa þrír doktorsnemar verið á styrk frá Fulbright-stofnuninni, við Kaliforníuháskóla-Davis, Harvard- og Brown-háskóla og þrír til viðbótar hafa verið valdir til að fá styrki til doktorsrannsókna á næsta skólaári. Þeir doktorsnemar sem hlotið hafa styrk hafa fengið margvísleg tækifæri til áframhaldandi samstarfs við bandarískt samstarfsfólk að styrktímabili loknu, til verulegrar auðgunar fyrir íslenskt háskóla- og atvinnulíf og framþróun þess.

Fulbright á Íslandi var fyrst Norðurlanda til að halda Fulbright-Hays-námstefnu fyrir bandaríska grunnskólakennara árið 2021, en verkefnið var kostað af bandaríska menntamálaráðuneytinu. Kennararnir nýttu ferðina til að þróa námsefni með Ísland í forgrunni í mörgum ólíkum greinum. Þessi reynsla opnaði augu okkar fyrir því hvað stuðningur Fulbright við kennara hefur mikil áhrif til góðs. Menntavísindasvið HÍ hefur á yfirstandandi skólaári fengið til sín fjóra Fulbright-fræðimenn frá Bandaríkjunum til lengri eða skemmri tíma til að vinna með íslenskum kollegum að fjölbreyttum verkefnum, m.a. á sviði stefnumótunar í menntamálum og kennslu á sviði mannréttinda. Þá stendur til að menntavísindasvið fái STEM-sérfræðing á næsta skólaári. Jafnframt hefur Fulbright á Íslandi verið boðin þátttaka í styrkjaáætlun fyrir háttvirta kennara sem einungis nokkur lönd taka þátt í. Í fyrstu verður um styrkþega frá Bandaríkjunum að ræða sem koma til Íslands til að kynna sér og rannsaka ákveðin skilgreind viðfangsefni, en í framtíðinni vonumst við eftir að geta fjármagnað líka styrki fyrir íslenska kennara.

Ekki má gleyma sérfræðingum á sviði netöryggismála, en einn slíkur var við kennslu í HÍ á haustönn, annar er við HR nú á vorönn og nýlega kom sérfræðingur til HA til að kenna í lögreglunáminu í tvær vikur. Öll þessi sérfræðiaðstoð er kostuð af Fulbright, en styrkjaáætlun Fulbright á sviði netöryggis og mikilvægra innviða var sett af stað fyrir nokkrum árum til að bregðast við aukinni áherslu á þennan mikilvæga málaflokk á Íslandi. Eins er stofnunin með metnaðarfulla áætlun á sviði norðurskautsrannsókna sem kostuð er af rannsóknarráði Bandaríkjanna, en felur í sér mikinn ávinning fyrir Ísland og stöðu landsins sem miðstöð fyrir norðurskautsrannsóknir. Stofnunin á einnig í samstarfi við utanríkisráðuneytið til að efla norðurskautstengda kennslu á háskólastigi. Næsta haust hefst svo fjórða lota Fulbright Arctic Initiative, sem er alþjóðlegt rannsóknarsamstarf þar sem vísindafólk frá öllum ríkjum Norðurskautsráðsins vinna saman að þverfaglegum rannsóknum sem nýtast við að leysa sameiginlegar áskoranir á norðurslóðum.

Við viljum að lokum minnast á verkefni sem Fulbright á Íslandi vinnur nú í samstarfi við LHÍ, en til stendur að Fulbright fjármagni næsta haust komu sérfræðings til landsins til að vinna með námsfólki og kennurum að heimildamyndaverkefni um úkraínskt flóttafólk á Íslandi. Hér eru bara reifuð nokkur dæmi um starfsemi Fulbright á Íslandi, sem gefa innsýn inn í það hvernig stjórn og framkvæmdastjóri vinna að því að efla samstarf Íslands og Bandaríkjanna á sviði rannsókna og náms. Nú á afmæli Fulbright-stofnunarinnar viljum við þakka öllum þeim sem komið hafa að starfinu sl. 67 ár og sérstaklega viljum við þakka háskólaráðuneytinu og sendiráði Bandaríkjanna fyrir þeirra framlag til þess að efla Fulbright á undanförnum árum. Tvíhliðasamningur um starfsemi Fulbright á Íslandi stendur enn á traustum grunni og enn er mikill metnaður fyrir því að efla starfið svo það megi dafna næstu 67 árin.

Belinda er framkvæmdastjóri Fulbright-stofnunarinnar og Bryndís Björk er formaður stjórnar Fulbright-stofnunarinnar.