Í leikriti Shakespeares, Rómeó og Júlíu, heldur Capulet gamli dansleik, en þegar hann sér jafnaldra sinn einn taka þátt í dansinum, bandar hann honum frá og segir: „Við erum báðir vaxnir upp úr dansi!“ Þótt ég hafi orðið sjötíu og eins…

Í leikriti Shakespeares, Rómeó og Júlíu, heldur Capulet gamli dansleik, en þegar hann sér jafnaldra sinn einn taka þátt í dansinum, bandar hann honum frá og segir: „Við erum báðir vaxnir upp úr dansi!“ Þótt ég hafi orðið sjötíu og eins árs í febrúar á þessu ári, get ég ekki sagt, að ég sé vaxinn upp úr dansi, og naut ég þess á kjötkveðjuhátíðinni í Rio de Janeiro um það leyti.

Hitt er annað mál, að hárið hefur gránað með aldrinum.

Rifjast þá upp, þegar þeir Steinn Steinarr og Dósóþeus Tímóteusson (sem aðallega var frægur fyrir sitt óvenjulega nafn) sátu saman við borð á Hressingarskálanum í Austurstræti einn góðan veðurdag árið 1951. Kom Dósóþeus auga á Tómas Guðmundsson annars staðar í salnum og sagði við Stein: „Hér situr Tómas skáld!“ Steinn mælti þá fram vísu, sem þegar varð fleyg.

Hér situr Tómas skáld með bros á brá,

bjartur og hreinn sem fyrsta
morgunsárið.

Ó, vinur, hvað mig tekur sárt að sjá,

að sálin hefur gránað fyrr en hárið.

Steinn var reiður Tómasi, sem hafði skopstælt órímuð ljóð Steins í vinsælum hláturleik (revíu) í Reykjavík, Bláu stjörnunni. Vísan er til í nokkrum útgáfum, en hér hef ég hana frá eiginkonu Steins, Ásthildi Björnsdóttur.

Auðvitað var þessi fyndni Steins ómakleg. Tómasi Guðmundssyni hafði aðeins orðið það á að vera ekki sami skipbrotsmaðurinn í lífinu og margir íslenskir rithöfundar. Þó fæ ég ekki betur séð en Steinn hafi í vísunni óafvitandi gefið það ráð, sem við á áttræðisaldri ættum sem flest að fylgja: að gæta þess, að sálin gráni ekki um leið og hárið.