„Ég er ákaflega þakklátur fyrir móttökurnar og gestrisni íslenskra stjórnvalda og þjóðarinnar allrar,“ segir séra Mykhailo Ivanyak.
„Ég er ákaflega þakklátur fyrir móttökurnar og gestrisni íslenskra stjórnvalda og þjóðarinnar allrar,“ segir séra Mykhailo Ivanyak. — Morgunblaðið/Eggert
Við vorum ekki bara í hlutverki presta, heldur ekki síður sálfræðinga og geðlækna. Ástandið var skelfilegt enda vilja Rússarnir taka allt af okkur, lífið, menninguna, virðinguna.

Séra Mykhailo Ivanyak lá uppi í rúmi heima í klaustrinu í borginni Tsjernihív og var að hlusta á Vladimír Pútín Rússlandsforseta í símanum sínum lýsa þjóð sinni stríð á hendur. Nánast í sömu andrá heyrði hann í fyrstu flugvélum rússneska hersins fljúga yfir borgina.

„Það trúðu því fáir að Rússar myndu láta verða af því að ráðast á Úkraínu,“ segir Mykhailo, „og myndi það gerast töldu menn líklegast að það yrði í suðausturhluta landsins, nærri Krímskaga eða Donbas, en ekki nærri Tsjernihív í norðri. Þetta kom því flatt upp á fólk sem varð að vonum mjög skelkað.“

Hann segir Rússa hafa lagt höfuðkapp á að ná herflugvelli í grenndinni á sitt vald en þeirri sókn var hrundið sem aftur átti þátt í því að bjarga Kænugarði frá því að falla í hendur óvininum. „Þetta olli Rússum mikilli gremju og fyrir vikið urðu þeir vígmóðari en ella; létu sprengjunum rigna yfir okkur, með tilheyrandi mannfalli og tjóni á innviðum, svo sem brúm og vegum, vatnsveitu og rafmagni. Þeir lögðu sig sérstaklega eftir því að láta sprengur falla á raðir, þar sem fólk beið eftir nauðsynjum, vatni og brauði. Ég hef verið herprestur frá 2014 og áður séð stríðsátök en miskunnarleysi Rússa kom eigi að síður flatt upp á mig; þeir veigruðu sér ekki við því að drepa óbreytta borgara.“

Klaustrið var fljótlega opnað fyrir almenningi sem misst hafði heimili sín, mest konur og börn, þar sem fólk gat hafst við og leitað skjóls gagnvart hildarleiknum. „Við reyndum að hjálpa þeim sem við gátum, alls komu um hundrað manns.“

Í fangelsi í kjallara

Í maí voru Rússar hraktir burt af svæðinu og þá kom sitthvað í ljós. Sjálfur kom Mykhailo í þorpið Yahidne, þar sem um 300 manns, þar af mörgum börnum, hafði verið haldið föngnum í kjallara skólabyggingar þar sem höfuðstöðvar Rússa í þorpinu voru. Og það voru engar venjulegar aðstæður. Mykhailo stendur nú upp og sest á hækjur sér á gólfinu. „Svona þurfti fullorðna fólkið að vera, svo lágt var til lofts.“

– Hversu lengi?

„Í heilan mánuð. Og fólk fékk ekki nema brýnustu nauðsynjar á meðan. Margir dóu þarna.“

Fyrir utan ömurlegan aðbúnað sótti stöðugur ótti að fólkinu. „Það vissi að þarna væru höfuðstöðvar Rússa og þess vegna mátti alveg eins búast við því að úkraínski herinn myndi reyna að sprengja skólann, án þess að vita af sínu fólki í kjallaranum. Rússarnir neyddu fólkið líka til að taka grafir – sem menn voru býsna vissir um að væru ætlaðar þeim sjálfum.“

Sjálfur tók Mykhailo þátt í að jarða gamlan mann sem var látinn er að var komið.

Hann segir rússneska herinn ekki aðeins hafa troðið á fólkinu sjálfu, heldur einnig menningu þess og gildum. Þannig fékk enginn fangi að fara út til að fá sér ferskt loft nema hann væri búinn að syngja rússneska þjóðsönginn. Þá voru úkraínskar bókmenntir rifnar niður og notaðar sem klósettpappír. Grimmdin var algjör.“

Þegar fólkið, sem lifði prísundina af, komst heim blöstu við því rústir einar. „Öllu steini léttara hafði verið stolið enda skilst manni að rússnesku hermennirnir hafi fengið lista yfir það að heiman hvað þeir áttu að hafa með sér á brott.“

– Hvað gerir það sálinni að horfa upp á svona lagað?

„Sjálfur sótti ég huggun í bænina og það að hjálpa fólki í neyð um brýnustu nauðsynjar, þó ekki væri nema vatn og brauð.“

Margir leituðu til presta á svæðinu og sumir þurftu að koma um mun lengri leið en vanalega vegna skemmda á brúm og vegum. Ekki komust allir heilir á leiðarenda enda átti fólk á hættu að lenda í fyrirsát á leiðinni og vera skotið. Sumir létust, aðrir særðust. „Fólk lagði mikið á sig til að sækja huggun og styrk. Við vorum ekki bara í hlutverki presta, heldur ekki síður sálfræðinga og geðlækna. Ástandið var skelfilegt enda vilja Rússarnir taka allt af okkur, lífið, menninguna, virðinguna.“

Eftir þrjá mánuði í Tsjernihív var Mykhailo fluttur í burtu. Áður en stríðið skall á var hann raunar á leið til Íslands, til að þjóna úkraínska söfnuðinum hér, en þau vistaskipti töfðust vegna átakanna. Á þeim tíma voru ekki nema á bilinu tvö til þrjú hundruð Úkraínumenn á Íslandi en þegar Mykhailo loksins kom til Reykjavíkur, í nóvember 2022, voru þeir orðnir mun fleiri – og flestir á flótta undan stríðinu sem hann hafði reynt á eigin skinni. „Ég var sendur hingað til að hjálpa löndum mínum, enda er það mín köllun. Biskup úkraínsku grísk-kaþólsku kirkjunnar, Bohdan Dzyurakh, bað biskup kaþólsku kirkjunnar á Íslandi, Davíð Tencer, um aðstoð og að hlúa að andlegri þörf Úkraínumanna hér, sem hann hefur gert. Þess utan hafa lúterska kirkjan og önnur kristin samfélög, sjálfboðaliðar og annað umhyggjusamt fólk aðstoðað Úkraínumenn hérlendis á þessum erfiðu stríðstímum. Fyrir það erum við afar þakklát og höfum ykkur öll í bænum okkar.“

Tilfinningaleg tengsl

Mykhailo segir móttökurnar hafa verið afar góðar. „Ég er ákaflega þakklátur fyrir móttökurnar og gestrisni íslenskra stjórnvalda og þjóðarinnar allrar. Enda þótt langt sé á milli landa okkar eru tilfinningaleg tengsl greinilega fyrir hendi,“ segir hann og rifjar upp að víkingarnir hafi á sinni tíð haldið í austurveg, allt til Kænugarðs. „Þjóðir okkar eru ekki að kynnast fyrst núna.“

Hann er líka þakklátur fyrir stuðninginn og nefnir í því sambandi leigusala úkraínskra kvenna hér í borg. Sá innheimtir leigu en sendir hana síðan óskerta beint til spítala í Úkraínu sem hlúir að slösuðum, hermönnum og öðrum borgurum.

Mykhailo fæddist í Suður-Karpatafjöllunum og þar býr hans nánasta fjölskylda, móðir hans og systkini. „Hugur minn er heima hjá mínu fólki. Til allrar hamingju er vesturhluti Úkraínu öruggari en austurhlutinn en maður veit aldrei hvar næsta sprengja fellur. Engin þúfa er óhult.“

Hann segir sama máli gegna um flesta flóttamennina sem hingað eru komnir; þeir eigi upp til hópa nána ættingja heima í Úkraínu, jafnvel í hernum, karla og konur.

Ekki er vitað hversu margir hafa fallið í stríðinu, auk allra þeirra sem er saknað. Þeirra á meðal eru tveir prestar sem Mykhailo vann með áður en hann kom til Íslands. Þeir voru fangelsaðir fyrir um ári og ekkert hefur til þeirra spurst. „Þeir báðu fyrir friði og Rússunum líkaði það ekki.“

Mykhailo hefur að vonum heyrt margar sögur frá löndum sínum á Íslandi. Spurður um það dregur hann úr pússi sínu Kaþólska kirkjublaðið frá því fyrir jól en þar er að finna viðtal sem hann tók sjálfur við Hönnu, 65 ára gamla konu sem flúði til Íslands. Þegar hann spyr hvers hún sakni mest frá heimili sínu svarar Hanna:

„Veistu, ég sakna mest hússins okkar, mér þykir mjög vænt um það. Mestu dýrmætin voru eftir í húsinu, sagan varð eftir þar – þetta eru myndir, fjölskyldusagan okkar, þetta er arfleifð fjölskyldunnar: foreldrar, ömmur og afar, langafar, börn, allar myndirnar okkar. Foreldrar mínir eru nú þegar látnir, en ég hélt brúðkaupsíkonum þeirra. Þeir eru rúmlega 80 ára gamlir. Ég gat ekki tekið þá með mér, ég faldi þá í felustað, en ég veit ekki hvort ég mun sjá íkona fjölskyldunnar minnar aftur.“

Hann sýnir mér einnig bréf frá ungri konu, Mariu, sem settist að í Grindavík eftir að hún flúði til Íslands. „Þó ég hafi ekki búið hér lengi, í um ár,“ segir Maria, „þá er þessi bær orðinn mitt heimili, þaðan á ég góðar og fallegar minningar enda hefur lífið breyst til hins betra. Ég hef upplifað margt, allt í þessum bæ. Einkennislitir Grindavíkur eru blár og gulur sem ég tengi við Úkraínu. Ég var með alls konar plön fyrir jólin og áramótin en hver gat búist við því að 10. nóvember 2023 þyrftum við að yfirgefa bæinn. Jarðskjálftarnir jukust jafnt og þétt og mér fannst eins og að húsið mitt væri að skemmast. Ótti og geðshræring helltust yfir mig, það var eins og heimsendir væri í nánd og atburðirnir 24. febrúar 2022 í Úkraínu rifjuðust upp fyrir mér; ótti við dauðann, bjargleysi.“

Vilja njóta frelsis

Úkraína rataði ekki daglega í heimsfréttirnar áður en stríðið braust út en Mykhailo er afar þakklátur fyrir samstöðuna sem Íslendingar og aðrar þjóðir hafi sýnt þjóð hans undanfarin tvö ár. Hann hefur fundið sterkt fyrir stuðningi Íslands og nefnir heimsókn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra og Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur, þáverandi utanríkisráðherra, til Úkraínu, auk þess sem Volodimír Selenskí forseti Úkraínu hafi ávarpað Alþingi og þakkað því fyrir stuðninginn.

„Úkraínsku hermennirnir eru ekki bara að verja landið okkar, heldur líka frelsið og lýðræðið. Úkraínumenn eru ekkert öðruvísi en Íslendingar og annað fólk sem vill njóta frelsis án þess að eiga á hættu að vera skotið til bana eða sprengt í loft upp.“