Greinarhöfundur í holinu hjá Hollis. Svipurinn segir alla söguna.
Greinarhöfundur í holinu hjá Hollis. Svipurinn segir alla söguna. — Ljósmynd/Móheiður Hlíf Geirlaugsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sá tónlistarmaður sem ég hef í mestum metum er Mark heitinn Hollis, leiðtogi Talk Talk. Þetta skrifaði ég m.a. daginn sem hann lést árið 2019, 64 ára að aldri (úr krabbameini): „Engin tónlist hefur sest jafnt djúpt í mig og sú sem Mark Hollis…

Sá tónlistarmaður sem ég hef í mestum metum er Mark heitinn Hollis, leiðtogi Talk Talk. Þetta skrifaði ég m.a. daginn sem hann lést árið 2019, 64 ára að aldri (úr krabbameini): „Engin tónlist hefur sest jafnt djúpt í mig og sú sem Mark Hollis samdi, bæði einn og með sveit sinni Talk Talk …“

Í yfirstandandi Lundúnaferð á dögunum, þar sem fjölskylda mín var með í för, ákvað ég því að fara í pílagrímsför til Wimbledon hvar hann bjó restina af ævinni í svo gott sem kyrrþey. Hollis hætti í tónlist eftir sólóplötu sína frá 1998 og ekkert spurðist til hans eftir það. Hann lifði venjulegu fjölskyldulífi, með konu og tveimur sonum, gaf aldrei viðtöl á meðan goðsagan varð dýpri og dularfyllri.

Ég var með þrjú verkefni klár: Fara inn í götuna hans og láta smella af mér mynd fyrir framan húsið hans; fara í garðinn Wimbledon Commons og láta endurgera ljósmyndir sem höfðu verið teknar af Hollis þar; fara á pöbb sem hann sótti tíðum, Hand In Hand.

Við gengum í áttina að götunni, sem lá ekki fjarri áðurnefndum garði. Húsið virtist tómt, tómt eins og það hefði ekki verið sála þarna í einhvern tíma. Lítil merki um líf.

Við tókum myndir og ákváðum að láta gott heita. En. Ég kom auga á mann handan götunnar og lét viljandi í það skína að við værum að njósna. Hann átti heima á móti Hollis en kannaðist aðspurður ekkert við hann.

Þessi nýi vinur minn var hressilegur, á leið í göngutúr, og svona eggjaði mig til að fara upp að húsinu og dingla. Og það gerði ég. Ég hafði séð eldri konu vera að draga frá gluggunum en fannst um leið eðlilegt að ekki væri verið að svara svona óforvarandis hringingu. Hurðinni var þá lokið upp. Þessi sama kona horfði spurul á mig og ég náði að segja að ég kæmi frá Íslandi áður en bjöllur og hringingar fóru af stað. Öryggiskerfi eða eitthvað slíkt. „Augnablik,“ sagði hún afsakandi og það örlaði á smá dæsi, jafnvel brosi. Þessi uppákoma létti aðeins á stemningunni. Þetta var grannvaxin kona og afskaplega ensk, á milli sextugs og sjötugs á að giska. Viðkæmnisleg, góðleg. Og yfirmáta kurteis eins og Englendinga er gjarnan siður.

Ert þú ekkjan hans?

A: „Já, ég er aðdáandi Marks Hollis og er í nokkurs konar pílagrímsreisu,“ sagði ég og ákvað að spyrja hana að einu sem var farið að rísa í huga mér. Passaði mig þó að mæla hægt og varlega: „Ert þú ekkjan hans?“

Hún horfði á mig, á svipinn eins og hún væri að ákveða hvort hún ætti að segja þessum óvænta gesti sannleikann eða segjast bara vera þrifdama sem hefði verið einfaldast.

„Já. Það stemmir,“ sagði hún þá rólega. Feimnislega en í trausti.

Hún bauð mér inn. Og fjölskyldu minni. Ég fór inn á gang/hol og svo hálfa leið inn í stofu. Á skónum. Allt var þetta að gerast í töluverðum ys og þys og hún á leið í eitthvert erindi. Hún æstist núna dálítið upp og sagði „ég ætla að finna til ljósmynd handa þér“. Datt í þá siðu að leysa gesti út með gjöfum. Að hún hafi yfirhöfuð boðið mér inn er mér ráðgáta. En að ég hafi verið þarna með litlu fjölskyldunni minni hefur ábyggilega ýtt grunsemdum um eitthvað vafasamt út.

Ekki fann hún ljósmyndir, ég tafsaði eitthvað, en geisladiska fann hún. Þrjár fyrstu hljóðversplöturnar. „Áttu geislaspilara?“ spurði hún. Ég jánkaði því en svo fattaði hún að úr því að ég væri þessi ofuraðdáandi hefði ég nú ábyggilega aðgang að tónlistinni. En auðvitað snerist þetta ekki um geisladiskana, þetta var táknræna og ekkert annað.

En þarna stóð ég nú. Í stofunni hans Marks Hollis, með innsigluð kynningareintök af Talk Talk-plötum sem ekkja hans hafði gefið mér rétt í þessu. Nú var þessi súrrealíska staða farin að sökkva aðeins inn. Og mesta fátið var yfirstaðið.

„En já, dragðu nú aðeins í þig stemninguna góði,“ sagði hún, ögn rórri. „Hér bjó hann. Hér gekk hann um.“

Ég var kominn inn í stofuna sem var afskaplega fín og hrein. Allt hornrétt. Þar sem ég skrifa þetta núna sé ég hliðstæður. Tónlist Hollis var sprúðlandi, lifandi og kröftug. En hún er á sama tíma skipulögð, natin og úthugsuð. Það er allt „rétt“ í henni. Þessir tveir kraftar togast á í henni og eðlilega í honum líka. Og þarna var ég í ferkantaðri íbúð en allt var ólgandi. Ég, ekkjan og andrýmið allt. Ég sá myndina sem prýðir sólóplötuna hans uppi á vegg, innrammaða. Og fleiri Talk Talk-hlutir prýddu stofuna. Það var gítar við sófann (í statífi) og forláta flygill uppi við svalir.

„Já, þarna er píanóið. Hann lék stundum á það á kvöldin,“ sagði ekkjan og röddin var ögn breytt.

„Líf hans var ríkt,“ sagði ég. Enn breyttist andrúmsloftið. Rödd ekkjunnar titraði og augun fylltust. Eðlilega. Það voru hlutir að brjótast fram sem hún hugsar ábyggilega ekki um á hverjum degi, a.m.k. ekki svona formlega.

„Hann afrekaði margt,“ svaraði hún rólyndislega. Og hún var ekki bara að vísa í framleiðslu. Áhrif líka. Ég var búinn að segja henni að Hollis hefði snortið mig og marga aðra og yfir því hafði hún kinkað kolli. „Við eigum tvo stráka. Hann átti góða fjölskyldu.“ Flæðið var orðið ágætt. Það var viss hissun yfir þessu öllu, nema hvað, en ég fann líka að hún kunni að meta þessa heimsókn. Skynjaði að við komum í göfugum, hreinum tilgangi.

Þessi fundur var í raun eins og Talk Talk-lag. Uppbygging, spenna … þagnir. Mikið af þeim. Hik og eitthvað úr lagi gengið. En þetta var um leið óumræðilega falleg stund. Það fundu allir. Það hékk líka þrá yfir. Þrá eftir tengingu, eftir einhverju hreinu. Eins og tónlist Hollis er. Allt þetta hvolfdist yfir í þessar ótrúlegu mínútur sem voru ábyggilega ekki fleiri en tíu.

Bið að heilsa strákunum

„Ég hefði boðið ykkur almennilega inn ef ég væri ekki á leið í erindi,“ sagði hún afsakandi og ég veit að við hefðum fengið te og kexkökur í eðlilegu árferði. Hún kynnti sig, „Felicity“, og fólk heilsaðist. „Ætlið þið að gera eitthvað meira?“ innti hún og ég sagði að við ætluðum á Hand In Hand-pöbbinn í fisk og franskar. „Ó já, hann fór oft þangað,“ sagði hún með ósvikinn glampa í augunum.

„Bið að heilsa strákunum!“ sagði ég að endingu og við kvöddumst. Ég kvaddi þessa konu sem ekki er til ein ljósmynd af á alnetinu, hvað þá að nafnið hennar sé á hraðbergi, ekki einu sinni hjá hörðustu aðdáendum. Þessi kona Marks, sem hafði verið með honum síðan á háskólaárunum á áttunda áratugnum. Og saman fluttu þau til Wimbledon árið 1995.

Svo ég setji þetta í samhengi: þetta væri eins og heimsins mesti Lennon-aðdáandi hefði bankað upp á í Dakotabyggingunni í New York og Yoko hefði komið til dyra. Við fórum á pöbbinn sem var þarna rétt hjá.

Seinna um kvöldið grét ég inni í eldhúsinu þar sem við gistum í Walthamstow-hverfinu. Þið vitið, hvað var þetta!? Síðasta kveðjan? Tenging? Hæ frá himnum? Því að þetta var EITTHVAÐ og ég er löngu hættur að trúa á tilviljanir. Og svo ég létti aðeins á stemningunni hér í blálokin, þá kemur kannski í ljós á næstu mánuðum að enginn hafi búið þarna síðustu fimm ár! Gengum við í gegnum svona Twilight Zone-tímalykkju?

Á pöbbnum góða, Hand In Hand, sátu nokkrir félagar saman á hringborði. Aldavinir sem höfðu verið að koma þarna í áratugi. Ég spurði þá hvort þeir þekktu Mark Hollis, hvort þeir hefðu orðið varir við hann.

„Mark Hollis? Tónlistarmaður segirðu?“